28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

79. mál, sala á ferskum fiski erlendis

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Sú fsp. sem er til umræðu er á þann veg hvort veittar séu heimildir til sölu á ferskum fiski án þess að tillit sé tekið til þess hvort um hráefnisskort sé að ræða í heimahöfn veiðiskips. Ég tel - og vil vekja athygli á því - að undir þeirri fiskveiðistjórnun sem við búum við núna sé ekki um það að ræða að grípa inn í málin á þann veg. Sú fiskveiðistjórnun sem við búum við er beinlínis þannig upp byggð að það er ætlast til þess að það sé næstum ótakmarkað frelsi fyrir þann sem hefur leyfi til að sækja fiskinn í sjóinn að fara með hann á hvaða veg sem hann óskar. Það er ekki verið að hugsa um verkafólk í landi eða viðkomandi sjávarþorp þegar verið er að sækja fisk í sjó eða þegar verið er að ákveða hvert skuli fara með hann.

Ég taldi nauðsynlegt að benda einmitt á þennan þátt, að við búum við þannig fiskveiðistjórn, sem hv. alþm. hafa samþykkt og samþykktu til tveggja ára, að þróun eins og sú sem hér hefur verið lýst hlýtur að eiga sér stað. Það er alveg eins heppilegt að gera vissan hluta fiskveiðiflotans út frá Bremerhaven eða Hull eins og frá Ísafirði eða Hellissandi vegna þess að þeim er skammtað ákveðið magn í hendurnar. Það er ósköp eðlilegt að þeir leiti þeirra leiða sem hefur verið leitað og fram kemur í svari ráðherra og fram kemur í því svari sem hér var dreift frá ráðherra í gær við fsp. um hvernig sú þróun hefði verið á undanförnum tveim árum eða á síðasta ári að nú eru flutt út ekki 10%, eins og hæstv. ráðh. sagði, heldur 20%. Ég vil vekja athygli á því að það er fimmtungur af þeim afla sem má veiða samkvæmt kvóta sem er fluttur út ferskur til vinnslu í erlendum fiskvinnslustöðvum og til beinnar sölu þar.