28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Núna að loknu jólaleyfi þm. er óhjákvæmilegt að okkar mati að taka til umræðna ýmis mál sem fram hafa komið á stjórnmálavettvangi síðustu vikurnar. Það varð að samkomulagi með formönnum þingflokkanna og forseta Sþ. í gær að þessar umræður færu fram í dag með þeim hætti að fulltrúar allra flokka töluðu hér í upphafi 15-20 mínútur hver, ef ég man rétt, og síðan yrði umræðum hagað eftir því sem aðstæður leyfa. Þetta þykir mér ástæða til að taka fram þegar í upphafi þannig að ljóst sé öllum með hvaða hætti samkomulag var gert um þessar umræður.

Ég vil áður en ég vík að hinu almenna stjórnmálaástandi nefna hins vegar atriði sem hafa komið nokkuð til umræðna síðustu daga en snerta hugsanlegar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þannig er að fyrir þinginu liggur stjfrv. um breytingu á lögum um sveitarstjórnarkosningar sem gerir ráð fyrir breyttum kjördegi til sveitarstjórna frá því sem verið hefur og sömuleiðis því að um verði að ræða 18 ára kosningaraldur við sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Það er óhjákvæmilegt fyrir þingið þegar á fyrstu dögum þess að gefa mjög skýrar og afdráttarlausar yfirlýsingar í þessu efni þannig að ljóst megi verða hver er vilji þingflokkanna til afgreiðslu á þessu máli. Ég vil fyrir mitt leyti láta það koma fram f.h. þingflokks Alþb. að við höfum lagt á það áherslu í viðræðum við fulltrúa hinna flokkanna að það verði þegar gefin út yfirlýsing um 18 ára kosningaraldur og að kjördagur verði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. til breytinga á sveifarstjórnarlögum, þ.e. annan laugardag í júnímánuði. Ég held að nauðsynlegt sé að þessar upplýsingar komi fram í upphafi og væri fróðlegt ef fulltrúar annarra flokka gætu einnig greint frá afstöðu sinni í þessu efni.

Ég vil þessu næst víkja að nokkrum þeim málum sem fram hafa komið í stjórnmálaumræðum nú í jólaleyfi þm. Þessir atburðir sýna svo að ekki verður um villst að meðal stjórnarflokkanna er ekki samstaða um neitt annað en það að halda kaupgjaldinu niðri, enda má segja að ríkisstj. hafi fyrst og fremst verið mynduð til þess. Fjórir viðburðir sýna hins vegar ákaflega vel þau óheilindi milli manna og flokka sem einkenna stjórnarsamstarfið um þessar mundir.

Í fyrsta lagi vil ég í þeim efnum nefna svokallað Þróunarfélag þar sem það hefur gerst að forustumenn þessa félags hafa sagt af sér vegna pólitískra afskipta, að þeir segja, hæstv. forsrh. Ég spyr hæstv. forsrh. í tilefni af þessu máli: Lýstu ráðherrar Sjálfstfl. andstöðu við vinnubrögð forsrh. í þessu efni fyrir fram? Tók forsrh. málið aldrei upp í ríkisstj. varðandi ráðningu framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins? Ef hvorugt hefur verið gert, sem ástæða er til að hafa uppi grun um, sýnir það glöggt þau óheilindi í stjórnarsamstarfinu sem hafa komið fram í vaxandi mæli að undanförnu og þó alveg sérstaklega óheilindin gagnvart kjósendum íhaldsins sem nú er af formanni Sjálfstfl. gefið í skyn að hann hafi aðra afstöðu í þessu máli en hæstv. forsrh.

Ég vil í öðru lagi nefna úr stjórnmálaumræðu liðinna vikna skattahækkanir Þorsteins Pálssonar hæstv. fjmrh. sem því miður getur ekki verið hér í dag vegna veikinda. Hæstv. fjmrh. hefur sett hvert skattametið á fætur öðru. Þungaskatti er mótmælt fyrir utan Alþingishúsið svo að segja daglega. Hringl með vörugjald hefur einkennt umræðuna einnig að undanförnu. Fyrstu hugmyndir ráðherrans í þeim efnum reyndust vera óframkvæmanlegar. Hann lýsti því yfir í fyrstu ræðu sinni sem fjmrh. að hann ætlaði að lækka tekjuskatt, en hann hætti við það aðeins nokkrum vikum síðar. Það er bersýnilegt að hæstv. fjmrh. hefur troðið sér inn í ríkisstj. á fölskum forsendum. Það er augljóst að hann getur ekki framkvæmt fyrirheit íhaldsins um skattalækkanir. Hann gengur þvert á móti lengra í skattahækkunarátt en forveri hans, hæstv. fyrrv. ráðherra fjármála Matthías Á. Mathiesen, sem var þó til þess tíma einn stærstur uppfinningamaður í skattamálum sem sögur fóru af í Stjórnarráði Íslands.

Það er einnig ljóst að ekkert hefur verið gert til þess að taka á þeim vanda sem blasir við í rekstri ríkissjóðs. Þar blasir við stórfelldur halli, og það er ljóst að það mun verða mjög örðugt fyrir stjórnina, miðað við þær forsendur sem hún byggir starf sitt á, að koma saman hallalausum fjárlögum fyrir árið 1987. Það er einnig ljóst, og það er alvarlegt umhugsunarefni, að hæstv. fjmrh. ræður ekki við útfærslu einfaldra praktískra verkefna. Bakarar hafa orðið að taka að sér að leiðbeina honum varðandi vörugjaldsálagningu. Ég hygg að það sé í fyrsta sinn um langt árabil sem fjmrh. er hrakinn til baka með embættisathafnir með þeim hætti sem nú hefur gerst með hæstv. ráðh. Þorstein Pálsson.

Þriðja dæmið sem ég ætla nefna úr stjórnmálaumræðu undanfarinna vikna eru yfirlýsingar fyrrv. hæstv. utanrrh. um að núv. hæstv. iðnrh. tali upp úr orðasafni kommúnista, eins og hann orðaði það, vegna þess að hæstv. iðnrh. vildi vefengja þau vinnubrögð sem uppi höfðu verið höfð varðandi kjötinnflutning til hersins á Keflavíkurflugvelli. Hæstv. fyrrv. utanrrh. talaði um það að í rauninni væri hæstv. iðnrh. að brigsla sér um landráð. Ég hygg að það sé algjört einsdæmi að ráðherrar í ríkisstjórn landsins beri slík orð hver á annan milli ólíkra flokka hvað þá heldur þegar um er að ræða ráðherra sama stjórnmálaflokksins. Þegar þannig er komið er bersýnilegt að slíkir ráðherrar eru ekki líklegir til að ráða fram úr flóknum verkefnum.

Ég vil í tilefni af þessu spyrja hæstv. iðnrh. hvernig á því standi að hann ætlar ekki að taka þessi mál upp á Alþingi eins og hann hafði þó lýst yfir að hann ætlaði að gera. Þó að málaflokkurinn heyri ekki undir hann er hann hér sem alþm. og er auðvitað skylt að fylgja eftir sannfæringu sinni samkvæmt því drengskaparheiti sem hann hefur gefið eins og aðrir alþm.

Fjórða atriði undanfarinna vikna ætla ég að nefna lauslega, en vísa kannske frekar til utandagskrárumræðna eftir nokkra daga. Það er Lánasjóður ísl. námsmanna. Þar hefur hæstv. menntmrh. komið fram með þeim hætti að algjört einsdæmi er á undanförnum árum ef ekki áratugum. Hæstv. menntmrh. sagði í þessum ræðustól áður en þinginu lauk: „Ég mun ekki fara aftan að námsmönnum. Ég mun standa við þau fyrirheit sem þeim hafa verið gefin.“ Alþingi var ekki fyrr farið heim í jólaleyfi en hæstv. menntmrh. sá ástæðu til þess að fara aftan að námsmönnum með því að gefa út nýja reglugerð um lán til námsmanna á síðari hluta námsársins 1985-1986. Ég er þeirrar skoðunar að þessi reglugerð sé með þeim hætti að hæstv. menntmrh. hafi gengið á bak orða sinna bæði gagnvart alþm. og námsmönnum. Og ég vil segja: Ákveðnar reglur tíðkast í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu og menn reyna eins og mögulegt er að haga orðum sínum þannig í umræðum eins og um þetta mál að menn séu ekki, að ætla má eftir á, vísvitandi að blekkja. Ég er þeirrar skoðunar, miðað við það sem eftir fór hjá hæstv. menntmrh., að hann hafi gert alvarlega tilraun til að blekkja þingið í þessu máli og því miður hafi margir þm. látið blekkjast vegna fyrirheita sem hann gaf úr þessum ræðustól og á fundi fjh.- og viðskn. Nd. Ég hef aldrei áður upplifað það sem stjórnarandstæðingur þann tíma sem ég hef setið í nefndum þingsins að ráðherra hafi með þessum hætti borið mál fyrir þingnefnd. Aldrei. Og ég vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa slíkt á nýjan leik. Ef hæstv. ráðherrar ætla að iðka vinnubrögð af þessu tagi er verið að segja í sundur griðum, brjóta óskráð lög milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessari stofnun - óskráð lög sem verða að vera til ef menn eiga að geta tekist á um málefnin með eðlilegum hætti.

En það hefur einnig verið ákaflega fróðlegt í þessu máli, herra forseti, að fylgjast með því hvernig Framsfl. hefur verið að reyna að hvítþvo sig í þessu lánasjóðsmáli. Ég las í blaði, reyndar besta dagblaði á Íslandi sem heitir Þjóðviljinn, að hæstv. forsrh. hefði kallað hæstv. menntmrh. inn á teppið út af þessu máli og skammað hann. Ég hefði gjarnan viljað sjá þann viðburð, hvernig það gekk fyrir sig. (JBH: Ég líka.) Hv. 5. þm. Reykv. líka. Ég hugsa að við séum ekki tveir um það heldur fleiri. - Framsfl. samþykkti niðurskurðinn á Lánasjóði ísl. námsmanna, felldi brtt. stjórnarandstöðunnar um að hækka framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er hlálegt og hraklegt þegar Framsfl. er að reyna að gera sig sérstaklega dýrlegan í þessu máli því auðvitað ber hann alla ábyrgð á þessu eins og íhaldið nema hæstv. forsrh. gangi fram og biðjist lausnar fyrir menntmrh. sinn fyrir þau afglöp sem hann hefur unnið í þessu máli. Þá yrði hæstv. forsrh. maður að meiri. Á meðan yrðu framsóknarummælin í þessu eins og hver önnur ómagaorð, hver önnur tilraun Framsfl. til að þvo sig af verki sem hann ber fulla ábyrgð á.

Ég þekki hins vegar af eigin raun þessi vinnubrögð Framsfl. Á fyrri hluta kjörtímabils er hann gjarnan nokkuð í takt við samstarfsflokkinn. Eftir tvö ár eða svo fer hann að halla sér á sveifina með stjórnarandstöðuflokkunum. Á fyrri hluta síðasta kjörtímabils var hann mjög í takt við Alþb. Þegar tvö ár voru liðin fór hann hægt og bítandi, gráðu fyrir gráðu, dag fyrir dag að halla sér á sveifina með íhaldinu og stóð nokkuð þétt með því í verki og orði á fyrstu tveimur árum þessarar stjórnar. Núna er það þannig að formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Ingvar Gíslason, og hv. þm. Haraldur Ólafsson eru stöðugt að gefa yfirlýsingar sem gefa í skyn að framsókn gæti hugsað sér annað kompaní eftir næstu kosningar. Þetta er aðferðin sem framsókn hefur haft. Hún sveiflast þannig til. Hún er að meðaltali stöðupollur, það er ljóst, en það eru ákveðnar hreyfingar í þessum polli. Það má segja að þar gæti pólitískt séð flóðs og fjöru.

Ég hef hér nefnt fjögur dæmi um stjórnarsamstarfið sem blasa við þjóðinni frá síðustu dögum og ég held að það sé alveg ástæðulaust að nefna fleiri. Dæmin sýna að í þessu stjórnarsamstarfi vegur nú hver annan af bestu getu.

Tilefni þeirrar umræðu sem við erum að hefja nú er auðvitað m.a. það að skipt hefur verið um ráðherra í ríkisstj. Hæstv. fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson hefur látið af þeim störfum og við tekið hæstv. ráðh. Matthías Á. Mathiesen. Ég vil í þeim efnum ekki fara að ræða almennt um utanríkismálin, enda ástæðulítið vegna þess að hæstv. ráðh. hefur sagt að hann muni fylgja í einu og öllu vinnubrögðum fyrirrennara síns. Það er mál sem verða rædd hér síðar. En ég get ekki komist hjá því að benda á að hluti af þessum stólaskiptum felst í því að hæstv. fyrrv. utanrrh. er fluttur í Seðlabankann. Það var eins og kunnugt er mikið keppikefli íhaldsins fyrir síðustu alþingiskosningar að leggja Framkvæmdastofnunina niður og kommissarakerfið. Það var eitur í beinum þeirra og var meginkosningamál manna eins og hv. þm. Friðriks Sophussonar og slíkra talsmanna Sjálfstfl. Núna hefur verið tekin um það ákvörðun að skipta um heimilisfang á kommissarakerfinu. Það er ekki lengur hjá Framkvæmdastofnuninni við Rauðarárstíg heldur í Seðlabankanum. Kommissararnir í Framkvæmdastofnun hétu Sverrir og Tómas. Kommissararnir í Seðlabankanum heita Geir og Tómas. Ég er þeirrar skoðunar að þjóðin þurfi á því að halda að eiga miðbanka sem nýtur almenns pólitísks og víðtæks trausts. Ég tel að ákvörðunin um það að setja Geir Hallgrímsson inn í Seðlabankann styrki ekki þetta traust á Seðlabankanum. Ég tel að með þeirri ákvörðun sé verið að segja að Seðlabankinn sé pólitísk stofnun. Seðlabankinn er stofnun sem tekur undir og vinnur í raun og veru í samræmi við ákvarðanir íhaldsins. Framvegis er ekki meiri ástæða til að taka mark á Seðlabankanum en hverjum öðrum pólitískum samþykktum sem kunna að koma frá Sjálfstfl. þá og þá.

Ég tel að þessi tíðindi séu svo alvarleg að það sé óhjákvæmilegt að yfir það verði farið þegar kostur er á að skipt verði um alla bankastjóra Seðlabankans. Það er bersýnilegt að hér er um að ræða hápólitíska forustumenn sem hljóta að líta á sig sem slíka og munu þess vegna ekki geta verið ráðgjafar annarrar ríkisstjórnar í landinu en þeirrar sem nú situr.

Herra forseti. Ég hef farið hér yfir fáein mál. Ástæða hefði verið til að fara rækilega yfir kjaramálin. Það eru að hefjast kjarasamningar. Þar miðar ekki neitt. Þrátt fyrir batnandi stöðu þjóðarbúsins hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að Vinnuveitendasambandið vilji ganga til móts við verkalýðshreyfinguna í landinu. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru um 8% kaupmáttaraukningu, en það er svipuð tala og nemur aukinni þjóðarframleiðslu á árunum 1983-1986. Það blasir einnig við um þessar mundir stórfelldur vandi í okkar atvinnuvegum, ekki síst í iðnaðinum. Það sjáum við af fréttum af fyrirtækjum eins og Víði, fyrirtæki eins og Heklu og fleiri slíkum fyrirtækjum í iðnaði sem nú eiga við verulegan vanda að stríða. Og það er einnig brýnt, einmitt um þessar mundir þegar bæði Landsbankinn og Útvegsbankinn búa við stórfelld vandamál, verulega slæma lausafjárstöðu í Seðlabankanum, að það verði tafarlaust tekið á skipulagsmálum bankanna. Allt rekur þetta á reiðanum. Það er ekki tekið á nokkru einasta máli.

Niðurstaðan er sem sagt þessi:

1. Það eru ríkjandi óheilindi milli stjórnarflokkanna og sérstaklega formanna stjórnarflokkanna sem núna bera brigslyrði hvor á annan.

2. Menntmrh. gengur á bak orða sinna gagnvart þinginu og sýnir því þar með sérstaka fyrirlitningu.

3. Innan annars stjórnarflokksins bera ráðherrar landráðabrigsl hver á annan.

4. Ekkert hefur verið tekið á skipulagsmálum bankanna og Seðlabankanum er breytt í flokksútibú Sjálfstfl. með atkvæðum framsóknarþingmanna rétt eins og gerst hefur á öðrum sviðum.

5. Ríkisstjórnin horfir aðgerðarlaus upp á hugsanleg átök á vinnumarkaði og stendur hundrað prósent með atvinnurekendavaldinu og afhjúpar þannig stéttareðli sitt.

6. Undirstöðuatvinnuvegir eru reknir með verulegum halla, nauðungaruppboð eru svo að segja daglegur viðburður og við iðnaðinum blasa sérstök vandamál.

7. Ríkissjóður er rekinn með halla og ríkisstj. mun eiga mjög erfitt með að koma saman fjárlögum fyrir árið 1987.

8. Viðskiptahalli frá því að þessi stjórn tók við nemur 15 milljörðum kr. Þannig hefur þessi stjórn aukið skuldasúpu þjóðarinnar erlendis.

9. Þróunarfélagið, sem átti að glíma við nýsköpun í atvinnulífinu, er nú dauðadæmt samkvæmt yfirlýsingu Þorsteins Pálssonar hæstv. fjmrh.

10. Það ber að minna á að í umræðum um mál að undanförnu hefur ekkert komið fram frá ríkisstj. og stjórnarflokkunum um vaxtamál annað en það sem kemur fram frá hv. 2. þm. Reykv. um nauðsyn þess að hækka almenna vexti.

Þetta liggur fyrir, herra forseti. Ríkisstj. er ekki vanda sínum vaxin. Ríkisstj. á að fara frá hið fyrsta og efna til kosninga. Eftir því sem stjórnin situr lengur magnast vandi heimilanna og framleiðsluatvinnuveganna. Tölurnar um landflóttann segja sitt: 700 manns úr landi umfram aðflutta á s.l. tveimur árum. Tillögur formanns Verslunarráðsins um að leggja niður krónuna segja líka sitt. Niðurstaðan er þessi: Með stólaskiptunum hefur auðvitað ekkert breyst. Vandinn hefur magnast og í stjórninni er enginn vilji, engin samstaða og engin geta til að taka á neinu nema halda niðri kaupgjaldinu í landinu.