28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Staða ríkisfjármála, verðbólguþróun, erlend skuldastaða, atvinnuástand, viðskiptakjör, framleiðni og hagvöxtur eru algengir mælikvarðar þegar lagt er mat á lífskjör, ástand þjóðmála eða árangur ríkisstjórna. En það er einnig hægt að nota aðra mælikvarða þegar lagt er mat á stefnu og árangur ríkisstjórna og lífskjörin í landinu. Sá mælikvarði er að því leyti mikilvægur að hann segir meira til um stefnu, hugsjónir og baráttumál stjórnmálaflokka sem og stjórnarstefnuna hverju sinni en allar hagtölur sem stjórnmálamenn bera þjóðinni á borð. Sá mælikvarði er hagur, velferð og líðan fólksins í landinu. Sá mælikvarði er hvernig eigna- og tekjuskiptingunni er háttað og hvernig húsnæðisstefnu við rekum. Sá mælikvarði er hvort tekjur launafólks nægja fyrir framfærslu heimilanna. Sá mælikvarði er hvernig búið er að þeim sem minna mega sín. Sá mælikvarði er hvernig stjórnvöld hverju sinni ganga fram í því að uppræta spillingu, misrétti, forréttindi og brask í þjóðfélaginu.

Það er fyrst og fremst þessi mælikvarði sem skiptir máli fyrir fólkið í landinu, fyrir það þjóðfélag sem við viljum búa því, fyrir alþýðuheimilin, fyrir húsbyggjendur og íbúðakaupendur sem berjast í bökkum og sem skiptir máli fyrir hag og velferð einstæðra foreldra og sjúkra og aldraðra í þjóðfélaginu. Ég hygg t.d. að frétt í einum fjölmiðli fyrir skömmu um að sextándi hver Reykvíkingur hafi þurft að leita eftir fyrirgreiðslu hjá Félagsmálastofnun segi fólkinu í landinu meira um árangurinn af stefnu og störfum þessarar ríkisstj. en verðbólgutölurnar sem Steingrímur og Þorsteinn nota sem helsta mælikvarða á ágæti stjórnarstefnunnar. Spyrja má: Hvers virði eru verðbólgutölur Þorsteins og Steingríms láglaunaheimilunum, þegar staðreyndin er sú að framfærslan verður sífellt erfiðari fyrir heimilin þrátt fyrir verðbólguhjöðnun í tíð þessarar ríkisstj., þegar staðreyndin er sú að árangur verðbólguhjöðnunar er nær alfarið á kostnað launafólks og þegar ávinningurinn skilar sér fyrst og fremst til braskara, forréttindahópa og þeirra betur settu í þjóðfélaginu?

Ég teldi nær fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að leita í smiðju til Félagsmálastofnunar en Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar ef þeir vilja draga einhvern lærdóm af stjórnarstefnu þessarar ríkisstj. og hvernig hún hefur leikið heimilin í landinu. Þá kæmust þeir að raun um að yfir 20% einstæðra foreldra þurfa að leita á náðir Félagsmálastofnunar eða 640 af um 3000 einstæðum foreldrum. Þá kæmust þeir líka að raun um að á framfæri sínu hefðu þessir einstæðu foreldrar 1000 börn 16 ára og yngri en það er tæplega fjórðungur allra barna einstæðra foreldra.

Ég hygg líka að sú staðreynd að áttundi hver ellilífeyrisþegi þurfti að leita til Félagsmálastofnunar segi hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. meira um áhrif stjórnarstefnu þeirra en hagtölur Nordals í Seðlabanka eða Jóns Sigurðssonar í Þjóðhagsstofnun. Og þegar reynt er að bæta sultarkjör láglaunafólksins í landinu leggjast hæstv. forsrh. og fjmrh. á sveif með grátkór Vinnuveitendasambandsins í Garðastræti. Í þeirra augum eru hagtölur grátkórsins í Garðastræti hinn heilagi sannleikur, en þeir loka augum og eyrum fyrir hagtölum heimilanna, þeirra verkamanna og verkakvenna sem fórna heilsu sinni, lífshamingju og fjölskyldulífi fyrir atvinnurekendavaldið en geta samt ekki brauðfætt sig og sína. Hvernig væri að Steingrímur og Þorsteinn kynntu sér hagtölur verkakvenna og verkamanna sem finna má í skýrslum Félagsmálastofnunar í Vonarstræti og hvíldu sig eitt augnablik frá grátkórnum í Garðastræti? Þá mundu þeir komast að raun um að 25% þeirra sem leita til Félagsmálastofnunar eru verkamenn og verkakonur sem eiga ekki fyrir brýnustu framfærslu heimilanna. Þá mundu þeir komast að raun um hvernig stjórnarstefnan hefur leikið sjálfsvirðingu einstæðra foreldra, verkamanna og verkakvenna sem þurfa að leita á náðir Félagsmálastofnunar með brýnustu framfærslu fjölskyldu sinnar þrátt fyrir langan vinnudag í atvinnulífinu.

Nýársgjöf hæstv. heilbr.- og trmrh. Ragnhildar Helgadóttur til sjúkra og aldraðra í þjóðfélaginu, sem var að stórhækka sjúklingaskattinn, er varla vitnisburður um það að hæstv. ráðh. viti að 36% þeirra sem leitað hafa aðstoðar Félagsmálastofnunar eru öryrkjar og sjúklingar. Þvert á móti taldi ráðherrann helst ráð að sækja peninga til sjúkra og aldraðra þegar rétta þurfti af slagsíðuna á hagtölum reikningsmeistara ríkisstj. Það sýnir vel áherslur og forgangsröðun þessarar ríkisstj., sem brýnir fyrir fólki sparnað og aðhald, að þessi sjúklingaskattur, nýársgjöf heilbrrh. til sjúkra og aldraðra, færir ríkissjóði 83 millj. á ári. Það er kaldhæðnislegt að þessi útgjöld skuli lögð á aldraða og sjúka á sama tíma og ríkisstj. er aflögufær til að kaupa eitt stykki áfengisútsölu fyrir 40 millj. og súrmjólkurstöð fyrir á annað hundrað millj. kr.

Það sýnir vel hvar ríkisstj. telur að helst eigi að leita peninga að í tíð þessarar ríkisstj. hefur þessi sjúklingaskattur hækkað um 340-733% á sama tíma og ellilífeyrir hefur aðeins hækkað um 125%, tekjutrygging um 182% og meðalkaup verkamanns um 114%. En það stendur ekki á ríkisstjórninni að veita fyrirtækjum og fjármagnseigendum skattalækkanir og vinna síðan upp tekjutap ríkissjóðs vegna þess með sjúklingasköttum og auknum byrðum á láglaunaheimilin. Sannleikurinn er sá að stjórnarstefnunni er ekki hagað í takt við raunveruleikann í daglegu lífi láglaunafólksins. Og eitt er víst að raunveruleikans í daglegu lífi launafólks er ekki að leita hjá Þjóðhagsstofnun eða Seðlabanka heldur má finna hann í skýrslum Félagsmálastofnunar eða hjá uppboðshöldurum og í öllum þeim fjölda nauðungaruppboða hjá fjölskyldum sem eru að missa eigur sínar undir hamarinn af því að stjórnarstefnan er aldrei slegin í takt við raunveruleikann eða velferð og þarfir launafólks og láglaunaheimilanna.

Stjórnarstefna ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hefur fyrst og fremst haft þær afleiðingar að auka á misrétti í tekjuskiptingunni, að breikka bilið á milli þeirra sem betur mega sín og forréttindahópa annars vegar og hins vegar hins almenna launamanns og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki mikinn tilgang í því að ræða verk ríkisstj., aðgerðir eða aðgerðarleysi í þinghléinu um jólin. Ríkisstj. hefur ekki brugðið út af vananum á þessum vikum. Hún hefur haldið áfram fyrri iðju sem er fyrst og fremst að leggja á skatta og standa í innbyrðis ágreiningi. Það breytir auðvitað engu um lífskjör fólksins hvort ráðherrar Sjálfstfl. telja tíma sínum best varið í innbyrðis deilur, hvort Geir Hallgrímsson brigsli Albert Guðmundssyni um landráð og kommúnistaáróður vegna deilna um hvort útlendingar á Keflavíkurflugvelli eigi að éta innlent eða erlent kjöt eða hvort Albert telji Geir rökþrota og tilgangurinn sé að flæma Albert úr ríkisstj. Það breytir auðvitað engu um lífskjör fólksins í landinu frekar en sviðsetningin með stólaleik ráðherra Sjálfstfl., frekar en það skiptir máli fyrir fólkið hvort Albert eða Þorsteinn er fjmrh. eða Birgir iðnrh. í stað Alberts eða Matthías utanrrh. í stað Geirs. Ekkert af þessu skiptir máli eða breytir nokkru fyrir launafólk. Fólkið er orðið vant því að ráðherrarnir séu allir uppteknir við að leika á fiðlu meðan Róm brennur. Meðan neyð ríkir hjá fjölda heimila er leikið á fiðlu og Þorsteinn og Steingrímur eyða tíma sínum í að rífast um hvor hafi beitt meiri pólitískum þrýstingi við að ota sínum tota í Þróunarfélaginu eða að Steingrímur og Páll þingflokksformaður eru uppteknir við að telja utanlandsferðir hvor hjá öðrum.

Það er spurning hvort það skiptir miklu máli hvort Þorsteinn baki bakara eða bakarar baki Þorstein í deilunni um skatt á sætabrauð og kökur eða hvort flugvallaskattur er 250 eða 750 kr. þegar fæstir geta leyft sér utanlandsferðir nema þá Páll þingflokksformaður og Steingrímur forsrh. Þessir skattar sýna fyrst og fremst hvers vænta má af nýjum fjmrh. Þorsteini Pálssyni, þ.e. að brjóta endanlega kosningaloforð íhaldsins um skattalækkanir og skattpína almenning og heimilin eins og kostur er. Skattahækkanir fjmrh. í jólaleyfi þingmanna eru bara viðbót við þá miklu skattpíningu sem launafólk hefur mátt þola í tíð þessarar ríkisstj. ofan á skerðingu launa um 25-30%, ofan á samdrátt í félagslegri þjónustu og árás á velferðarkerfið. Sjúklingaskattur hæstv. heilbrrh., valdníðsla hæstv. menntmrh. í málefnum Launasjóðs ísl. námsmanna og skattagleði hæstv. fjmrh. sýna eitt: Þau sýna að stólaskiptin hafa þær afleiðingar að enn verður hert að heimilunum.

Hér mætti auðvitað, herra forseti, nefna mörg dæmi um það hvernig íhaldið hefur svikið sín kosningaloforð, t.a.m. kosningaloforðin sem gefin voru í kosningunum 1983. Þá gaf íhaldið út bækling sem það nefndi „Frá upplausn til ábyrgðar.“ Það má nefna að í þeim bæklingi eru gefin kosningaloforð um að veita 80% lán til íbúðakaupa. Hvað hefur orðið um það kosningaloforð? Þar stendur enn fremur að Sjálfstfl. vilji afnema tekjuskatt á almennar launatekjur. Það loforð hefur einnig að verulegu leyti verið svikið.

Sjálfstfl. tíundaði í þessum bæklingi tvo kosti, annars vegar væri það vinstri stefnan í verki, eins og þeir kölluðu það, og hins vegar stefna Sjálfstfl. Sjálfstfl. sagði að vinstri stefna í verki væri t.a.m. sú að erlendar skuldir hafi aldrei verið meiri og nemi nú helmingi af allri framleiðslu þjóðarinnar, eins og segir í þessum bæklingi 1983.

Hver er staðan nú, hver er hægri stefnan í verki? Hún er sú að erlendar skuldir hafa aldrei verið meiri en nú og, nema ekki bara helmingi af allri þjóðarframleiðslu heldur yfir 60% .

Í þessum kosningabæklingi íhaldsins, þar sem talað er um vinstri stefnu í verki, er sagt að þriðji hver fiskur, sem dreginn sé úr sjó, fari í að greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum.

En hver er hægri stefnan í verki? Hver er staðan nú varðandi afborganir og vexti af erlendum skuldum? Það fer ekki bara þriðji hver fiskur, sem dreginn er úr sjó, í að greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum heldur nálgast það að vera annar hver fiskur. Þetta er hægri stefnan í verki.

Herra forseti. Ég tel að öllum sé það ljóst, jafnvel ráðherrunum sjálfum, að einskis sé að vænta af þessari ríkisstj. En svo vænt þykir ráðherrum Sjálfstfl. og Framsfl. um stóla sína að þeir setja þá ofar hagsmunum fólksins í landinu. Ríkisstj. er í raun óstarfhæf vegna innbyrðis ágreinings, í hann eyðir ríkisstj. tíma sínum í stað þess að takast á við vandamálin sem alls staðar eru óleyst og blasa við. Meira að segja málgögnum stjórnarflokkanna er farið að blöskra getuleysi ríkisstj. sem kannske kemur best fram í stórauknum erlendum lántökum og slæmri stöðu ríkissjóðs sem ekki hefur staðið verr um langan tíma og hefur staðan versnað um 3000 millj. á einu ári.

Nefna má dæmi sem auðvitað vegur ekki þungt í ríkisbúskapnum en segir nokkuð um siðferðisvitund ráðherranna. Orð ráðherra um aðhald og sparnað í ríkisrekstri hafa auðvitað enga merkingu í augum þjóðarinnar þegar ráðherrarnir spara hvergi sjálfir sem best sést á því að rekstrarkostnaður á bílum þeirra getur numið allt að sex mánaða dagvinnulaunum verkafólks og bifreiðahlunnindum á einu ári má jafna til átta árslauna verkafólks.

Herra forseti. Það er aðeins ein ályktun og niðurstaða sem hægt er að draga af stjórnarstefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og gjörðum einstakra ráðherra í ríkisstj. Ríkisstj. hefur misst öll tök á efnahagsvandanum. Sitji hún áfram mun það enn auka á efnahagsvandann og misréttið í eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu.