28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Nú er búið að lýsa hér í ræðum ýmsum uppákomum síðustu vikna og missera og ég held að það væri kannske dálítið fróðlegt að athuga hvort þetta eigi sér einhverja aðra uppsprettu en ósamlyndi á stjórnarheimilinu eða eitthvað þess háttar. Ég held að svo sé. Ég held að stjórnmálum okkar megi lýsa með öðrum samnefnurum, þ.e. í fyrsta lagi miðstýringu, fámennisvaldi og hagsmunaárekstrum, og ég ætla að gera það að umræðuefni vegna þess að ég tel að það sé undirstaðan og rótin að því sem við höfum séð hér að undanförnu.

Miðstýringin er arfur frá stríðsárum, býsna lífseig. Grunntónn hennar er sá að fólk kunni ekki að hafa vit fyrir sér, hafi ekki vit á því sem það er að segja eða gera. Þetta birtist okkur á ýmsan hátt, t.d. í landbúnaðarstefnu, sjávarútvegsstefnu, í peningastefnu sem fylgt er í landinu. Síðast birtist okkur þetta í dálítið ruglingslegum ummælum hæstv. menntmrh. Sverris Hermannssonar sem mér skilst að ætli að fara að úthluta peningum til námslána og velja þar námsgreinar og fólk eftir einhverri undarlegri forræðisstefnu sem að vísu á eftir að fá á nánari skýringar.

Til þess að hafa þessa stjórn á öllum hlutum þarf auðvitað að setja upp stofnanir. Við þekkjum þessar stofnanir, Framleiðsluráð, Búnaðarfélag, sem í raun stjórna öllum málum landbúnaðarins, þannig að landbrn. er eins og símsvari eða í besta falli símaklefi frá þessum stofnunum. Við þekkjum dæmi í sjávarútvegi og iðnaði, við þekkjum sjóðakerfið sem er ekkert annað en angi af þessum sama hugsunarhætti, að láta forræðið ráða og hafa vit fyrir fólki. Við þekkjum dæmin af þessu í sambandi við æðstu fjármálastofnanir þjóðarinnar, ríkisbankana, Seðlabanka, Framkvæmdastofnun eða Byggðastofnun eða hvaða nafni sem þessi fyrirtæki nefnast, þetta eru allt saman greinar á þessum sama meiði.

Þessum stofnunum er síðan stjórnað þannig að þó að kannske einhverjum í einfeldni sinni þætti eðlilegt að ríkisstjórnin stjórnaði þessum stofnunum sem handhafi framkvæmdavaldsins, þá er alls ekki svo. Þá koma allir stjórnmálaflokkarnir til sögunnar og þeir líta ekki á stjórnarfarið eða stjórnarkerfið sem leiðir til að styrkja lýðræði og réttindi fólks heldur leiðir til að styrkja flokksræði og réttindi stjórnmálaflokka. Þeir koma þessum stofnunum upp og síðan koma þeir sér og þjónum sínum í þessar sömu stofnanir alveg án tillits til þess hver er niðurstaða kosninga í landinu og hver fer með ríkisstjórn. Sumt hafa þeir sett í lög og um annað er bara ágætt samkomulag að allir skuli fá að eiga þar sinn mann.

Við þekkjum síðan stóru deildaskiptingarnar í þessu valdakerfi þar sem framsókn er með landbúnaðarkerfið og SÍS, Alþfl. og Alþb. eru með verkalýðshreyfingu og Sjálfstfl. er með atvinnurekendur, stórfyrirtækin í landinu, svo sem sölusamtökin.

Þessar miðstýringartilhneigingar birtast okkur síðan í fámennisstjórn vegna þess að brennipunktum valdsins er safnað saman á fáa staði og þar fara síðan gjarnan sömu mennirnir með völdin eða halda í taumana. Á þessa staði raða flokkarnir síðan mönnum sem þeir treysta.

Um þetta þekkjum við fjölmörg dæmi. Ég ætla að taka nöfn úr umræðu síðustu daga. Ég ætla t.d. að nefna til sögunnar Davíð Sch. Thorsteinsson. Hann er í miðstjórn Sjálfstfl., hann er í bankaráði Iðnaðarbankans, hann er afgerandi í ýmiss konar stefnumörkun Sjálfstfl. í atvinnu- og fjármálum, fyrrv. formaður Félags ísl. iðnrekenda og hefur á úrslitastundum oft verið spurður að því hvort hann mundi ekki gefa kost á sér í formennsku Sjálfstfl. þegar hún er á lausu.

Ég nefni annað dæmi. Þorsteinn Ólafsson er í miðstjórn Framsfl., hann var í framkvæmdastjórn Framsfl., hann er aðstoðarmaður forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga sem er valdamesta fyrirtæki í landinu, hann er formaður stjórnar Samvinnusjóðsins sem á að verða eitthvert sterkasta fjárfestingarfyrirtæki í landinu, hann er formaður stjórnar Íslandslax sem á að verða stærsta laxakompaní í landinu, hann er áhrifamaður um pólitíska stefnumörkun flokksins, hann samdi m.a. hina nýju stefnu flokksins sem var birt á miðstjórnarfundi á Akureyri þegar Framsfl. uppgötvaði framtíðina, fór úr vaðmálsfötunum og kúskinnsskónum og reyndi nýjan búning 20. aldarinnar sem virðist reyndar ætla að fara honum heldur illa.

Stundum taka þessi flokkstengsl á sig dálítið sérstaka mynd. Ég nefni til Val Arnþórsson. Hann er í framkvæmdastjórn framsóknar, hann er formaður stjórnar SÍS, hann er kaupfélagsstjóri KEA, hann er formaður kaffibaunafabrikkunnar fyrir norðan, hann er formaður stjórnar prentsmiðjunnar sem prentar Dag sem hann er líka formaður stjórnar fyrir.

Menn geta síðan í sakleysi sínu velt því fyrir sér hvers vegna það geti komið sér vel að tengja saman Framsfl., SÍS, KEA og prentsmiðjuna og eina dagblaðið á Norðurlandi.

Þannig birtist okkur fámennisstjórnin sem er afleiðing af þessari miðstjórnarstefnu. En svo birtist okkur fámennisstjórnin að nýju og hún er vaðandi í hagsmunaárekstrum því að auðvitað geta menn ruglast á hlutverkum sem hafa kannske tíu, fimmtán á hendi. Við þekkjum dæmi um erfiða hlutverkaskipan þegar hinum fáu útvöldu kann að verða dálítið erfitt að finna sína réttu stóla.

Ég nefni hv. þm. Stefán Guðmundsson sem eitt sinn var formaður stjórnar Steinullarverksmiðju, formaður Framkvæmdastofnunar, alþingismaður, kjörinn af Norðurlandi vestra þar sem verksmiðjan er staðsett. alþingismaður, væntanlega berandi hagsmuni heildarinnar fyrir brjósti. Það hefur líklega komið sér vel þegar alþm. samþykkti aðild ríkisins að þessari verksmiðju til þess að stjórn verksmiðjunnar gæti síðan gengið á fund Framkvæmdastofnunar og mælt með því að aðilar verksmiðjunnar fengju lán til að koma þessari verksmiðju á fót.

Ég nefni hv. þm. Halldór Blöndal í bankaráði Búnaðarbanka, í stjórn Byggðastofnunar og alþingismann. Það er engin furða þótt hv. þm. sjái ekki mikla ástæðu til að Norðlendingar fái heimastjórn. Hann heldur þar um alla tauma sem hann telur að þeir þurfi.

Við getum nefnt til fleiri og fleiri slík dæmi. Ég tel að þessi einkenni miðstýringar, flokksræðis og fámennisstjórnar og hagsmunaárekstra séu í raun og veru mergur málsins hér í dag. Við getum bara athugað þau mál sem hafa risið hæst á undanförnum vikum. Hvað með Þróunarfélagið? Þróunarfélagið varð til vegna mikillar óánægju, ekki síst sjálfstæðismanna, með Framkvæmdastofnun sem menn töldu of pólitíska. Síðan var sett á fót ný stofnun, Byggðastofnun, sem átti að taka við hinum byggðalega þætti Framkvæmdastofnunar sem menn hafa kannske talið pólitískastan.

Loks var sett á stofn alveg glæný og ópólitísk stofnun sem heitir núna Þróunarfélagið. Þar voru settir algjörlega ópólitískir menn. Sjálfstfl. t.d. setti þar Davíð Sch. Thorsteinsson og Hörð Sigurgestsson. Varamenn þeirra eru algjörlega ópólitískir, Björn Þórhallsson varaforseti ASÍ og Gunnar Ragnars frá Akureyri. Framsfl., kannske í gegnum SÍS eða eitthvert af sínum kompaníum, setti síðan alveg ópólitískan miðstjórnarmann frá sér, Þorstein Ólafsson. Þannig er komið upp algerlega ópólitísku kompaníi.

Hvað gerist síðan? Það sem við erum að sjá núna eru nákvæmlega þessi átök flokksræðisins og fámennisvaldsins. Þarna eru Sjálfstfl. og Framsfl. að togast á um skæklana. Það er síðan spurning um hentistefnu hverju sinni hvernig sá ágreiningur er látinn birtast, hvort hann er látinn koma eins vel upp á yfirborðið og hann gerði núna. Það hentar stundarhagsmunum þeirra, sjálfstæðismanna, að láta talsvert á því bera að þeir séu óánægðir með Framsfl. og óánægðir með stjórnina.

Þróunarfélagsmálið er angi af þessum samnefnurum sem ég minntist á áðan. Var ekki Hafskipsmálið líka af nákvæmlega sama toga, fámennisstjórnunar? Við munum eftir tengslum Sjálfstfl. í því máli og við munum eftir því hvernig aðrir þögðu þar um eins lengi og þeim var almennilega stætt á að þegja.

Hvað með Húsavíkurtogarann? Við fengum lifandi lýsingar á því í blöðunum núna í jólafríinu hvernig áformum um útboð og einhvers konar viðskipta- og arðsemissjónarmið var á einni nóttu snúið upp í hreinan farsa þar sem t.d. hluti löggjafans hljóp inn og út úr bönkum, stofnunum og sjóðum hér í Reykjavík, pantaði skýrslur, afhenti skýrslur og útvegaði skýrslur og kippti í spotta. Síðan kemur út eitthvað allt annað og algerlega óskiljanlegt sem á ekki neitt skylt við arðsemis- eða viðskiptasjónarmið.

Maður getur spurt sig hvort þeim þm. hefði ekki verið nær að reyna að setja þannig lög í landinu að svona hlutir þurfi ekki að koma fyrir, t.d. setja þannig lög um fiskverð og gjaldeyrisverslun í landinu að ekki þurfi að koma upp árlega einhvers konar Húsavíkurtogaramál.

Við sjáum fyrir okkur gauraganginn sem verður í kringum raðsmíðaskipin. Það verður nú fjör. Þá verða pantaðar skýrslur og þá munu einhverjir léttstígir kjördæmapotarar læðast hægt um laut og gil og reyna að útvega sínum mönnum skip og styrki einhvers staðar. Þar munu flokkarnir togast á og tala við sína menn í viðkomandi sjóðum og stofnunum.

Við getum séð fyrir okkur gauraganginn sem verður í kringum launasamningana. Þar munu flokkarnir tala við sína menn, hvort sem það verður Björn Þórhallsson eða jafnvel hv. þm. sem eru forvígismenn í þessum verkalýðssamtökum. Ég fullyrði að það verða hagsmunir flokkanna sem munu ráða því hvað kemur út úr launasamningum, t.d. hagsmunir flokkanna með tilliti til sveitarstjórnarkosninga og með tilliti til hugsanlegra alþingiskosninga í haust. Það eru þessar kosningar sem ráða því hvernig menn standa að launasamningum. Menn munu ekkert vera að hugsa um hagsmuni launafólks eða hagsmuni heildarinnar, menn munu spyrja sig: Hentar það okkar pólitísku hagsmunum að þjarma að þeim?

Við getum haldið þessu áfram, við getum rakið þetta allt til þessara sömu hluta. Hvað með Geir Hallgrímsson og Seðlabankann? Þar hefur bersýnilega þótt vísast að láta fámennið, flokksræðið og miðstýringuna ráða með því að formanni Sjálfstfl. - ég segi formanni Sjálfstfl., hann er nýlega hættur því - og um leið einhverjum valdamesta manni þjóðarinnar er skotið þar inn fyrir þetta gullna hlið, inn á þetta torg hins eilífa friðar, þar sem bílakjör, risna og lífeyriskjör, sem ekki eru aðgengileg öðru fólki í þessu landi, munu tryggja öllum þar himnaríkissælu.

Ég tel að þessi mál eigi sér öll þessa samnefnara. Þetta væri svo sem allt í lagi ef menn gætu síðan sýnt fram á að það skilaði góðu búi. En hvernig er búið? Lítum í kringum okkur. Það er góðæri til sjávar og sveita. Við fáum dag eftir dag upplýsingar um það í öllum fjölmiðlum að það hafi verið metafli, góð verð, landbúnaður ætti að blómstra samkvæmt öllum venjulegum formúlum, það er gott veður, það er meira að segja næstum hætt að vera vetur á Íslandi.

En hvað gerist síðan? Lífskjör fara versnandi, erlendar skuldir fara hækkandi, fyrirtæki lognast út af. Ýmis þessara dæma hafa verið rakin hér í dag. Þetta er ekki gott bú.

Menn geta tekið eldri dæmi, til að mynda Kröflu sem er ávöxtur þessa sama hagsmunapots, þessarar hagsmunavörslu og þessara hagsmunaárekstra. Hvað kostar Krafla okkur núna? Hún kostar okkur jafngildi 10% launahækkunar fyrir alla opinbera starfsmenn á einu ári. Það er nú bara nokkuð. Svo fara menn hér í blóðug verkföll svo vikum skiptir og reyna að kría út 1 og 2 og 3% út úr samningum. Hvernig væri að líta á það hvernig kerfið fer með peningana?

Svona birtast okkur ávextir þessa valdakerfis. En málið er að þetta er ekkert verra en vant er. Ég hefði getað staðið hér í fyrra eða hitteðfyrra eða árið þar áður, við hefðum kannske verið að tala um önnur mál, það hefðu kannske verið aðrir menn sem við hefðum talið upp, það hefðu kannske verið aðrir flokkar í valdaaðstöðunni, en þetta er innbyggt í þetta kerfi. Og þetta verður alltaf svona nema við breytum skipulaginu.

Við verðum að rífa þetta valdakerfi upp með rótum. Fólk er að byrja að skilja þetta. Fjöldahreyfingin með fylkjunum t.d. fyrir norðan er dæmi um þetta. Fjöldahreyfingin með fylkjaskipulaginu er sjálfstæðisbarátta, hún er sjálfstæðisbarátta fólks sem neitar því að þurfa að láta allan sinn póst og allar sínar langanir fara í gegnum einhverja þingmenn sem þeir kusu og sitja svo hérna fyrir sunnan. Þetta er ekki tæknileg aðgerð, þetta er grundvallarkerfisbreyting. Þetta er eitt dæmi um það að það er að fæðast nýr skilningur í íslenskri pólitík og vei þeim sem ekki skilja.

Fylkjahugmyndirnar eru einmitt það að fólk er að hafna forræði þessa flokkakerfis og er að hafna því að þurfa að fara sífellt í gegnum póstlúgur þingmanna sinna, það vill fá að ráða sér sjálft. Málið er það að þessum breytingum verður ekki náð með því að alþingismenn einir fjalli þar um vegna þess að sagan sýnir að menn saga aldrei greinina sem þeir sitja á sjálfir.

Eina leiðin í þessu er að það þarf að boða til þjóðfundar. Þjóðin á að kjósa sér fólk sem kemur saman og hefur það eina hlutverk að semja nýja stjórnarskrá, nýjar grundvallarreglur sem eru ekki til sóunar og eru ekki til kúgunar og afnema flokksræðið. Við verðum að mínu mati að byrja frá grunni. Sá á að vera lærdómur þessara vikna og þessara missera.