28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Þá stöndum við hér, rétt eina ferðina, í utandagskrárumræðum. Að þessu sinni almennt um stjórnmálaástandið. Ég álít hins vegar að umræður sem þessar þjóni í raun og veru harla litlum tilgangi, sérstaklega þegar þær eiga sér stað oftar en einu sinni á sama þinginu.

Það eru svo mörg mál sem eru brýn og sem nauðsynlega þurfa á umfjöllun að halda þannig að þau geti fengið afgreiðslu. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að þessi mál koma fram í dagsljósið í umræðunum hér í dag og hafa raunar gert það nú þegar. Ég álít samt sem áður að tímanum hefði verið betur varið til þess að fara rækilega ofan í kjölinn á hverju máli fyrir sig. Í slíkum tilfellum getur að sjálfsögðu verið bráðnauðsynlegt að hafa um þau utandagskrárumræðu, eins og þá sem ætlað er að verði á fimmtudag, og að þau fáist þá þar með rædd ef ekki í tengslum við frv. og þál. þar að lútandi.

Það er t.d. brýnt að taka á húsnæðisvandanum. Það þarf að taka þann málaflokk til rækilegrar umfjöllunar þannig að ljóst verði hvert þeir sem völdin hafa eru að stefna. Getur einhver svarað því hvert stefnt er í þeim málaflokki? Það efast ég um. Það er varla til nokkur maður sem hefur trú á því lengur að eitthvað raunhæft sé að gerast á vegum ríkisstj. hvað húsnæðismálin varðar. Það situr allt við það sama hvað varðar aðgerðarleysi ríkisstj. Á meðan svo er berst fólk um, það fólk sem er að reyna að koma þaki yfir höfuð sér, og reynir með öllu mögulegu móti að klóra í bakkann meðan kviksyndi skuldafensins læsir sig enn fastar um það og kemur klónum fyrir með endanlegu taki. Það er e.t.v. verið að bíða eftir því að húsbyggjendur taki sig saman og hætti að borga af skuldum sínum.

Það virðist vera orðið máltæki, eða nánast eins og hálfgerður kækur hjá hinum unga fjmrh. okkar hæstv., að taka sér í munn setningar eins og hann gerði þegar hann tók við embætti hinn 16. október s.l., setningar eins og þessa, með leyfi herra forseta:

„Þjóðin á mikið undir því að vel takist til við ákvarðanir á næstu vikum og mánuðum.“ Þetta virðist vera orðið honum tamt því að síðan hef ég margoft heyrt hann segja ýmislegt þessu líkt. En því miður sjáum við þess nú engin merki að einhverjar þær ákvarðanir hafi verið teknar sem þjóðin hafi átt mikið undir, í það minnsta ekki á þann veg að það hafi komið henni neitt til góða. En e.t.v. leggur hæstv. fjmrh. ekki þann skilning í merkingu þeirra orða sem hann raðar saman og notar að þau eigi að hafa í för sem sér einhverja þá framkvæmd er geri það að verkum að árangur sjáist af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Þá á ég við slíkan árangur að fólkið í landinu fari að bera það úr býtum sem það á skilið fyrir þann ómanneskjulega langa vinnutíma sem það vinnur. Það þarf að gera þær kröfur að hér þurfi menn ekki að berjast í bökkum til þess eins að halda húsnæði sem hart hefur verið lagt að sér við að eignast, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að yfirlýst stefna ríkisstj. er sú sem kölluð hefur verið sjálfseignarstefna í húsnæðismálum. Hæstv. fjmrh. hefur einnig oft haft á orði og þá gjarnan í framhaldi af setningunni frá 16. október, sem ég minntist á áðan, um að þjóðin eigi mikið undir því að vel takist til við ákvarðanir á næstu vikum og mánuðum, og setningu í framhaldi af henni, með leyfi herra forseta:

„Þær munu ráða miklu um framgang mála í okkar þjóðfélagi, þær munu ráða miklu um það hvort við getum náð betra jafnvægi í efnahagsmálum, stuðlað að auknum hagvexti og bætt lífskjörin í landinu.“

Hver kannast ekki við tugguna? En hefur eitthvað gerst? Hefur einhver sú ákvörðun verið tekin sem gerir það að verkum að náðst hafi betra jafnvægi í efnahagsmálum? Hefur hagvöxtur aukist? Getur einhver sagt með hreinni samvisku að lífskjörin í landinu hafi batnað? Hvað er það þá sem menn eiga við með svona tali? Halda þeir að það sé ekki tekið eftir því þegar svona orð eru látin falla þegar tækifæri bjóðast? Hugsanlega eru þau látin falla til þess eins að láta blekkingarvef hylja hinn raunverulega tilgang sem hlýtur að vera að slá ryki í augu þeirra sem til heyra og vonast eftir úrbótum. Það er verst að hæstv. fjmrh. skuli vera fjarverandi í dag, sem er vegna veikinda.

Það er jafnljóst að hæstv. fjmrh., eða staðgengill hans, verður að svara fyrir hvers vegna honum hefur mistekist. Honum hefur mistekist að færa fram þær ákvarðanir sem taka átti á næstu vikum og mánuðum að því er hann sagði í október. Honum hefur mistekist að ná betra jafnvægi í efnahagsmálum, stuðla að auknum hagvexti og bæta lífskjörin í landinu. Þess vegna er það skylda hæstv. fjmrh. eða staðgengils hans að gera okkur grein fyrir hvers vegna honum hefur mistekist og hvað það var sem varð þess valdandi að honum mistókst að ná þeim markmiðum sem hann setti sér í upphafi ferils síns sem fjmrh. Einnig ber honum skylda til þess að gera grein fyrir því hvað það er sem hann hyggst taka til bragðs þannig að þessi markmið geti orðið að veruleika.

Í ræðunni þann 16. október voru það ákvarðanir næstu vikna sem skiptu sköpum. Þjóðin átti mikið undir því að vel tækist til með þessar ákvarðanir. Ég hef hins vegar ekki séð þess nein merki að teknar hafi verið neinar þær ákvarðanir sem skipt hafi sköpum fyrir þjóðina. Það einasta sem maður hefur orðið var við er ómerkilegt pex milli ráðherra. Og þá ekki síst milli ráðherra innan sama flokks. Það er nákvæmlega þess vegna sem, eins og ég sagði í upphafi máls míns, mér finnst umræður eins og þessar svo óumræðilega lítils virði og tilgangslausar. Það verður að gera þær kröfur til ríkisstj. að hún kynni sér hver hinn raunverulegi vandi fólksins í landinu er. Því næst verður að gera þær kröfur til ríkisstj. að hún takist á við og hefjist handa við að leysa hann.

Ef ríkisstj. tækist nú á við að leysa þennan vanda þjóðarinnar í stað þess að eyða tíma sínum og orku í sífellt stapp við að leysa innanbúðarvandamál sín væri vel. Þessi sífellda naflaskoðun er ekki bara óþægileg, heldur einnig ónauðsynleg. Og það sem meira er, hún er einnig algjör sýndarmennska og ómerkilegt sjónarspil.

Það er greinilegt að um er að ræða algjört stefnuleysi ríkisstj. Þrátt fyrir það að á sínum tíma var veifað með miklum glæsibrag framan í landsmenn hinum 25 punktum sem stuðla áttu að framþróun nánast allra þeirra þátta sem gera áttu lífvænlegt að búa hérlendis þá virðist allt slíkt nú kafna í skoðanaágreiningi. Menn virðast ekki á nokkurn hátt koma sér saman.

En þjóðin á heimtingu á því að ríkisstj. leysi úr skoðanaágreiningi sínum og að stýrt verði með styrkri hendi út úr erfiðleikum þeim sem þjóðin á við að etja. Það á ekki að líðast að hver ráðherrann á fætur öðrum sé með yfirlýsingar sem engan veginn standast nánari skoðun. Sjálfstfl. virðist hins vegar hafa mestan áhuga á því einu að fleyta sér á öndvegissúlum borgarstjóra í land í komandi kosningum til borgarstjórnar í vor.

En þar er ekki einu sinni land fyrir stafni. Sem dæmi má taka að óskabarn Sjálfstfl. frá því í vor, sem þá var frjálst útvarp, er nú ekki lengur á óskalista þeirra. Þeir þurfa ekki lengur á því að halda, og það er vegna þess að þeir hafa náð tökum á einokuninni í Ríkisútvarpinu. Þannig er það sýnt að þeir haf ekkert að gera lengur við frjálst útvarp. Þess vegna minnast þeir sem minnst á það nú orðið. Og þar með er liðagigt þeirra, þar sem er Ísfilm, nú u.þ.b. að liðast í sundur.

Það sama er að segja um afrek hæstv. menntmrh. Sverris Hermannssonar í kringum Lánasjóð ísl. námsmanna. Og þrátt fyrir að Háskólinn hafi stefnt að opnum háskóla og telji það vera heilladrjúga leið í menntamálum þjóðarinnar, þannig að best komist til skila jöfn aðstaða til náms hvar sem er á landinu, og þá ekki síst að slíkur opinn háskóli muni ekki kosta nema brotabrot af því sem háskóli fyrir norðan kostar, er það eitt af fyrstu embættisverkum hæstv. menntmrh. Sverris Hermannssonar að tilkynna það að hann ætli sér að færa báknið út og stofnsetja háskóla fyrir norðan. En hann sagði reyndar nú í hádegisfréttum að hann ætti bara eftir að afla sér stuðnings við ákvörðun sína í ríkisstj.

Það er þess vegna greinilegt að það er ekki til nein heildarstefna í verkum þessarar stjórnar. Og það er augljóst að hæstv. forsrh. stjórnar ekki þessari ríkisstj. Hæstv. ráðh. komast hver af öðrum upp með yfirlýsingar, aðgerðir og ákvarðanir sem hæstv. forsrh. er greinilega alls ekki á sama máli um. Yfirlýsingar eru gefnar út í fjölmiðlum þrátt fyrir að málin hafi ekki svo mikið sem verið rædd á fundum ríkisstj. og því síður að fengist hafi fyrir þeim samþykki eins og ég gat um með fréttir í hádegisútvarpi í dag. En það er auðvitað lágmark að þess verði krafist af forsrh. þessa lands að hann sjái til þess að ráðherrarnir fylgi þá eftir yfirlýsingum sínum og hann veiti þeim lausn frá embætti samkvæmt því sem þeir eru að láta hafa eftir sér í fjölmiðlum þar að lútandi hver af öðrum.

Nýjasta dæmið er að finna í Þjóðviljanum í dag, þar sem hæstv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, segir, með leyfi herra forseta: „Ég ætla að standa og falla með ákvörðunum mínum í þessu máli.“ Þessi orð lét hann falla í viðureign sinni við Lánasjóð ísl. námsmanna. Skyldi maður hafa heyrt aðrar eins eða þvíumlíkar yfirlýsingar í svipuðu samhengi áður? Ég er ansi hrædd um það. En þá kemur óhjákvæmilega að því að maður fer að velta fyrir sér hvað það er sem mennirnir meina með því „að standa og falla með ákvörðunum sínum“. Það sem maður hefur séð af því hingað til hefur einna helst falist í því að draga til baka ummæli sín, segjast mega hafa skoðun á málinu, og að aðrir megi hafa sína skoðun á málinu, o.s.frv. Þessar yfirlýsingar eru allar óábyrgar og ekkert mark á þeim takandi.

Óhjákvæmilega hefur komið til tals hér í dag sú ályktun að Seðlabankinn sé að verða dvalarheimili fyrir aldraða stjórnmálamenn. En það er eitt sem við verðum að hafa í huga í þessu sambandi: Þetta er og á að vera banki bankanna og þar á að gæta flokkspólitísks hlutleysis. Þessi banki á samkvæmt lögum að vera ríkisstjórnum til ráðuneytis. Þetta á að vera ráðgefandi peningastofnun. Það er hins vegar enginn að tala um það að þessir stjórnmálamenn, sem um ræðir og tekið hafa við stöðum í umræddum banka, séu á neinn hátt óheiðarlegir menn eða óhæfir sem slíkir. Spurningin stendur ekki um það. Hún stendur hins vegar um það að þetta er ekki og átti ekki að vera atvinnubótavinna, hvorki þegar um er að ræða ráðherradóminn né stöðu seðlabankastjóra. Það fer hins vegar ekki hjá því að þessir menn eru í gegnum árin sterklega mótaðir af pólitískri afstöðu sinni og þess vegna verður erfitt fyrir þá að koma að gagni þeim ríkisstjórnum sem hafa önnur flokkspólitísk sjónarmið en viðkomandi bankastjóri. Þess vegna verður að gera kröfu um það að þessari stöðu gegni fagmaður.