28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar ræður. Ég verð hins vegar að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að þær hljóma ansi mikið eins og endurtekningar og er fátt nýtt sem mér þykir hafa komið fram.

Ég skal reyna að svara því sem til mín hefur verið beint eins og ég frekast get og koma að nokkrum öðrum atriðum sem mér þykir nauðsynlegt að minnast á.

Hv. síðasti ræðumaður taldi að ekkert hefði verið gert í húsnæðismálum. Ekki veit ég hvort þetta er skortur á upplýsingum - vel má það vera - eða hvort hv. ræðumaður hefur bara ákveðið að svona sé þetta. Staðreyndin er þó sú að útlán til húsnæðismála hafa aukist frá 1980 úr u.þ.b. 1,3% þjóðarframleiðslu í 3,6%, eða m.ö.o. ekki aðeins aukist, margfaldast að krónutölu, heldur einnig að raungildi. Þar hefur verið gert verulegt átak til að aðstoða þá ýmsu húsbyggjendur sem eiga í miklum erfiðleikum vegna þeirrar aðlögunar sem íslenska þjóðin gengur nú í gegnum að allt öðru ástandi á fjármagnsmarkaði, aðlögunar sem er óhjákvæmileg frá neikvæðum vöxtum í raunvexti. Til þeirra mála hefur verið varið nokkrum hundruðum millj. kr., ég segi nokkrum hundruðum millj., því á vegum Húsnæðisstofnunar var varið um 300 millj. kr. á síðasta ári í þessu skyni, en við það bætast síðan stórar upphæðir á vegum bankanna í lengingu lána. Mér er það fullkomlega ljóst að margir húsbyggjendur eiga engu að síður í erfiðleikum. En ég hygg þó að það sé staðreynd að afar mörgum hefur verið hjálpað á þennan máta. Starfað hefur milliþinganefnd í húsnæðismálum sem náði víðtæku samkomulagi enn um aðgerðir á þessu sviði sem eru nú að koma til framkvæmda.

Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að vissulega eiga launamenn að bera úr býtum það sem þeim ber og það er of lítið eins og nú er ástatt einmitt í ýmsum grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar. Ég verð hins vegar að segja það að mér þótti engin skýrsla sem ég hef séð nú alllengi ljótari en skýrsla kjararannsóknarnefndar um launakostnað í íslenskri fiskvinnslu. Þar kom fram að tímalaun í íslenskri fiskvinnslu eru miklu lægri hér en í Danmörku og Noregi, mig minnir allt að helmingi lægri. En það kom einnig fram að launakostnaður á hvert kíló af unninni vöru er u.þ.b. 50-60% hærri hér en hjá þessum keppinautum okkar. Þetta er vitanlega ákaflega alvarlegt mál, mjög alvarlegar upplýsingar og kannske ein af skýringunum á því að okkur hefur ekki tekist að halda hér þeim lífskjörum sem okkur tókst um tíma. Við keppum við aðrar þjóðir í niðurgreiddri fiskvinnslu, en erum með svona langtum, langtum minni afköst hjá okkur en þar eru. Því fer víðs fjarri að ég sé að kenna fiskvinnslufólki um þetta. Þar er margt hæft fólk sem leggur sig fram. Staðreyndin er hins vegar sú að það er langtum meiri tilfærsla á fólki hér innan fiskvinnslunnar, langtum meira um það að sumarvinnufólk leysi af á sumrin, miklu minna um það að fastráðið fólk starfi hjá fiskvinnslunni árum saman.

Það er líka alveg rétt að ormurinn sem við eigum við að stríða í fiskinum veldur hér miklu um. Það er einnig eflaust rétt að það veldur óhagkvæmni að fiskvinnsluhúsin hér eru langtum, langtum minni en t.d. í Danmörku, þar sem eitt fiskvinnsluhús er jafnstórt og 20 meðalhús hér á landi. Þetta eru allt saman staðreyndir sem við verðum að glíma við og að sjálfsögðu að reyna að leysa, reyna að leysa með framförum á sviði tækninnar. Ég held að þetta sé eitt af allra stærstu viðfangsefnum nú á næsta leiti. En því nefni ég þetta að þetta er í raun lykilatriði þegar við erum að tala um það að bæta hér kjör, bókstaflega lykilatriði. Við verðum að leysa þetta mál og um það er núna mikið fjallað.

Hv. þm. taldi yfirlýsingar ráðherra miklar og taldi að forsrh. ætti að leysa þá frá störfum. En staðreyndin er eins og margoft hefur verið sagt að íslenskir ráðherrar hafa mjög mikið sjálfræði sinna mála samkvæmt stjórnarskránni. Ég get tekið undir það með hv. þm. að vitanlega verða ráðherrar að fara varlega í yfirlýsingar og geta staðið við það sem þeir segja. En sú ábyrgð hvílir þá fyrst og fremst á þeim sjálfum eins og íslensk stjórnarskrá er. Sum mál eru tekin upp í ríkisstjórn, önnur ekki. Mjög mörg mál eru afgreidd eðlisin$ vegna af viðkomandi ráðherrum og í viðkomandi ráðuneytum.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir beindi til mín nokkrum spurningum. Því miður óttast ég að ég geti ekki svarað þeim öllum svo hún verði ánægð með. Hún spurði í fyrsta lagi hvernig ætti að mæta halla s.l. árs. Halli s.l. árs er aukin skuld ríkissjóðs og verður að breyta í lengra lán, og er gert, og verður svo að greiðast niður með öðrum skuldum ríkissjóðs. Ríkisstj. treystir sér ekki til að afla tekna með nýjum sköttum og þess háttar til að greiða þennan halla, þótt það hafi út af fyrir sig verið mjög gagnrýnt eins og skuldastaða þjóðarbúsins er.

Ég vil alls ekki gera því skóna, eins og virðist nú gert af ýmsum hv. þm., að halli verði á þessu ári. Þegar eru hafnar á vegum fjmrh. víðtækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir það. Það eru viðræður við öll ráðuneyti um það hvernig mæta megi auknum kostnaði sem verða kann á þessu ári. Við vitum ekki hve mikið. Það fer eftir verðbólgunni. Það verða ræddar leiðir til þess að draga úr kostnaðarhækkun o.s.frv. Þannig að ég vil alls ekki gera því skóna að halli verði og það er eitt af mikilvægum stefnumiðum þessarar ríkisstj. að ríkissjóður verði hallalaus og að því verður unnið með öllum ráðum.

Hv. þm. spyr: Hvernig í ósköpunum má það vera að lífskjörin hafa ekki endurheimst þrátt fyrir töluvert miklar framfarir og endurvöxt þjóðarframleiðslunnar, ef ég má orða það svo. Á árunum frá 1982-1983 féll þjóðarframleiðslan um u.þ.b. 8%. Á síðasta ári batnaði hún um u.þ.b. 2%. Þannig að við höfum þarna út af fyrir sig töluvert eftir að vinna. Það sem kannske er alvarlegast í þessu sambandi er að á undanförnum fjórum árum, á sama tíma og þjóðarhagur hér hefur að meðaltali staðið nokkurn veginn í núllinu, ef farið er aftur til ársins 1981, þá hefur í öllum löndunum í kringum okkur orðið verulegur vöxtur í þjóðartekjum á hvern mann. Ber þar náttúrlega hæst Japan, þar sem vöxturinn hefur orðið um 25%. Jafnvel í Evrópulöndunum, þar sem þessi vöxtur hefur verið miklu minni, er þó um 11-12% vöxtur þjóðartekna á þessum sama tíma. Þetta er alvarlegt mál og má bæta við að núna er yfirleitt spáð u.þ.b. 3-3,5% vexti þjóðarframleiðslu, en hér á landi rúmlega 2%. Þetta er viðfangsefni sem verður að takast á við því að öll viljum við að sjálfsögðu endurheimta fyrri lífskjör og að lífskjör hér verði sambærileg við það sem er í okkar nágrannalöndum.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að hagur hafi almennt batnað á síðasta ári. Ég tel að það komi fram í þeirri staðreynd að kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst á s.l. ári um u.þ.b. 6%. Það var mikil hækkun. Ég held því miður að það sé meiri hækkun en atvinnuvegirnir gátu staðið undir og er m.a., þó alls ekki eitt sér, valdandi þess að verðbólgan náðist ekki eins langt niður á síðasta ári og að var stefnt. Viðskiptahalli varð og meiri en æskilegt hefði verið.

Hv. þm. spurði um kjarasamninga opinberra starfsmanna og viðræður við þá. Ég get fullvissað hv. þm. um það að þær viðræður eru hafnar á vegum fjmrh. Hann hefur gert mér grein fyrir því. En ég treysti mér ekki til að ræða nánar hér á hinu háa Alþingi um stöðu þeirra viðræðna eða hvað þar er fram undan. Ég vil fullvissa hv. þm. um að þar verður ekkert legið á neinu. Það verður unnið kappsamlega að því að ná þar endum saman. Eins og fram hefur komið hafa opinberir starfsmenn lagt á það mikla áherslu að varðveita lífskjörin, eins og þeir kalla það. Það gæti leitt til lífskjarasamnings sem ég tel að sé mjög athyglisverð hugmynd, sem kom fram á s.l. ári og mjög vert er að athuga, því vitanlega er það það sem um þarf að semja en ekki falskar launahækkanir sem renna út í sandinn og leiða til aukinnar verðbólgu.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir ræddi töluvert um slæmt hjónaband o.s.frv. Ég held ég megi fullvissa hana um það að mörg hjónabönd eru verri en hjá þessari ríkisstjórn. Við höfum einsett okkur að ræða deilumálin og gerum það í langflestum eða öllum tilfellum. Við höfum lagt sum slík mál til hliðar. Við höfum kappkostað að hlaupa ekki með slíkt í fjölmiðla þótt ég viðurkenni að það hafi komið fyrir. Þannig að ég vil fullvissa hana um það að ef önnur hjón höguðu sér svona eins og við reynum að gera þá væri miklu betur ástatt hér á landi í hjónaböndum en raun ber vitni. Hún þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu út af fyrir sig.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson ræddi mikið um miðstýringuna o.s.frv. Ég er ekki sammála því sem hv. þm. boðar hér á Alþingi dag eftir dag og viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Hann ræddi í nokkra mánuði um ferðir til tunglsins, o.s.frv., en nú er það aðallega um miðstýringuna. Ég held að hv. þm. Guðmundur Einarsson kunni að verða stórum hæfari til að taka þátt í íslensku atvinnulífi af því að hann hefur setið á Alþingi og fengið að kynnast bar ýmsum þáttum þjóðlífsins sem hann kannske þekkti ekki áður. Ég mundi a.m.k. treysta honum miklu betur til þess heldur en ég treysti honum áður.

Ég er t.d. algerlega ósammála hv. þm. að það sé óeðlilegt að Alþingi kjósi bankaráð eins og hann hefur oft nefnt. Ég man ekki hvort hann nefndi það áðan. Ég tel ekkert óeðlilegt að Alþingi hafi eftirlit með svo mikilvægum stofnunum í þjóðfélaginu eins og ríkisbönkunum. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisbankar séu óhjákvæmilegir, m.a. til þess að ná þeim kjörum á erlendum lánamörkuðum sem einkabankar ná ekki. Ég hef síður en svo á móti einkabönkum. Þeir eiga að fá að þróast og verða öflugir, en ég held að ríkisbanki eða bankar séu óhjákvæmilegir og með þeim eigi Alþingi að hafa eftirlit. Ég álít það eðlilegt. Ef þeir menn sem hafa verið kjörnir til þess eru ekki taldir gera það þá á Alþingi að skipta um þá menn. En ég held að ýmsir hafi reynst vel í því starfi.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti sína venjulegu ræðu og skal ég ekki fara mörgum orðum um hana. Það er vitanlega alveg rétt hjá henni að afkoma fólksins í landinu er stór mælikvarði og ég fullyrði að afkoma fólksins hafi batnað þótt ég viðurkenni um leið að hún er hjá mörgum alls ekki nægilega góð og margt þurfi þar að lagfæra og er við það leitast.

Ég vil hins vegar fullvissa hv. þm. um það að þátttaka sjúklinga í sjúkrakostnaði hefur aðeins verið hækkuð til samræmis við verðlagið í landinu og þess verið gætt að halda þeim kostnaði innan þeirrar hundraðstölu sem að undanförnu hefur yfirleitt verið í þessu sambandi. Ég minni hv. þm. á að t.d. hefur þess verið gætt að hækka minna hjá þeim sem ellilífeyris njóta og að sjálfsögðu hjá sjúklingum sem stöðugt þurfa á ákveðnum lyfjum að halda. Það er greitt að fullu af sjúkrasamlagi. Þess hefur verið gætt og vandlega athugað að slíkt væri innan þeirra eðlilegu marka sem verðlagshækkanir hafa sett, en ég get út af fyrir sig tekið undir að það eru allt of miklar hækkanir.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom að nokkrum málum og mun ég reyna að svara honum. Ég vil taka undir það með hv, þm. að sjálfsagt er að kosningaraldur verði 18 ár og eðlilegt að kjördagur verði eins og nú liggur fyrir í frv. á hinu háa Alþingi. Ríkisstj. hefur rætt þetta mál og er fullkomlega sammála um að vinna að því að svo verði og að þetta verði langsamlega eðlilegast gert með því að afgreiða það frv. sem liggur fyrir Alþingi. Mér er tjáð að það geti mjög fljótlega komið frá þeirri nefnd sem það nú er í og ætti þá að geta fengið sæmilega skjóta ferð í gegnum Alþingi. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að þetta þarf að liggja fyrir. Ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti að ég lít svo á að 18 ára kosningaraldur sé ákveðið mál og kjördagur verði eins og lagt er til nema hið háa Alþingi breyti kjördegi. Ég hef heyrt skiptar skoðanir meðal þm. um það. Það þyrfti fljótlega að koma í ljós og kemur væntanlega í ljós þegar nefndin skilar sínu áliti.

Hér var nokkuð rætt um Þróunarfélagið og spurði hv. þm. ákveðinna spurninga um það. Ég vil í því sambandi vekja athygli á fáeinum atriðum.

Þegar ákveðið var að stofna Þróunarfélagið var það að sjálfsögðu gert í þeirri von að frá svokölluðum einkageira eða hvað ég á að nefna það kæmi umtalsvert fjármagn í þessu skyni. Nú er það staðreynd að sett hafa verið á fót ýmis fyrirtæki af einkaaðilum í þjóðfélaginu eða atvinnufyrirtækjum á þeirra vegum sem hafa sama markmið. Ekki er nema hið besta um það að segja. Það verður að segjast eins og er að mér þótti og ég hygg mörgum fleiri allt of lítið fjármagn koma frá þessum aðilum í Þróunarfélagið. Þar er langmest um ríkisfé, þar er um 100 millj. kr. hlutafé frá ríkissjóði að ræða, og fé frá bönkum eða ýmsum opinberum sjóðum. Stafar það eflaust af því að einkaaðilar hafa talið æskilegt að verja sínu fjármagni á annan veg. Það er svo, þrátt fyrir að til fjögurra ára lánar ríkissjóður þeim sem þess óska helming af því fjármagni sem einkaaðilar leggja til félagsins. Sömuleiðis vek ég athygli á því að ríkissjóði er heimilt að veita ríkisábyrgðir fyrir 500 millj. af lánsfé sem Þróunarfélagið kann að taka til starfsemi sinnar. Ég held að því verði þess vegna alls ekki neitað að þetta félag er mjög háð stuðningi ríkissjóðs.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar svo er ástatt eins og varð raunin beri bæði fjmrh., sem fer með fjármál ríkissjóðs, og mér, sem samkvæmt lögum fer með málefni félagsins, nokkur skylda til að reyna að hafa áhrif á að þar sé vel með farið og veljist menn til starfsins sem við berum traust til. Þegar lagt var til við mig að Davíð Scheving Thorsteinsson yrði formaður félagsins féllst ég á það því að ég ber traust til Davíðs Schevings og tel að hann geti vel sinnt þeim málum þannig að öruggt sé. Þegar ég vakti athygli á manni sem var á lausu og hefur reyndar verið viðurkennt af öllum að sé mjög hæfur maður í framkvæmdastjórastarfið taldi ég það sömuleiðis mjög eðlilegt. Ákvarðanir eru hins vegar að sjálfsögðu stjórnarinnar og eru teknar þar með atkvæðum hennar.

Hv. þm. spurði hvort þessi mál, eins og ákvörðun um formann eða ákvörðun um framkvæmdastjóra, hefðu verið lögð fyrir ríkisstj. Það er ekki. Þetta er ekki að mínu mati ríkisstjórnarmál eftir að félagið var sett á fót. Hann spurði sömuleiðis að því hvort athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu ráðherra Sjálfstfl. við þá ábendingu sem ég gerði um mann í framkvæmdastjórastöðu. Það hafa engar slíkar athugasemdir borist til mín né hafa komið athugasemdir frá ráðherrum svo að ég viti um val þess formanns sem var í félaginu.

Hv. þm. ræddi töluvert um skattaálögur. Ég vil segja um það í örfáum orðum að í þeirri stöðu sem nú er, þegar leggja verður svo mikla áherslu á að ríkissjóður verði hallalaus, ég álít það grundvallaratriði í efnahagsmálum nú, var ákveðið að hverfa frá þeirri skattalækkun sem áður var ráðgerð og sömuleiðis frá breytingum á tollalögum sem ég tel reyndar að séu ákaflega brýnar og margir fjármálaráðherrar hafa unnið að. Þar er orðinn, eins og hv. þm. veit, hinn mesti frumskógur og þarf að leiðrétta. En það sýndi sig, þrátt fyrir mikla yfirlegu, að ekki væri unnt án umtalsverðs tekjutaps að ryðja þann frumskóg. Þessu var frestað, því miður, til að leggja áherslu á að halda hallalausum fjárlögum.

Aðrir skattar og gjöld sem hafa verið hækkuð voru hækkuð beinlínis á grundvelli þeirra hækkana sem orðið hafa í þjóðfélaginu síðan þessi gjöld voru síðast leiðrétt. Ýmis þessi gjöld höfðu ekki verið leiðrétt um nokkur ár. Þess vegna eru þær leiðréttingar sem nú eru gerðar vissulega í sumum tilfellum mjög miklar. Ég veit að þær koma sumum mönnum á óvart. En í þessari yfirferð upplýsti fjmrh. að þess yrði gætt í öllum höfuðatriðum að leiðrétt yrði með tilliti til hækkunar verðlags.

Hv. þm. taldi öruggt að halli yrði á fjárlögum þessa árs. Ég hef komið að því. Ég hef sagt að á það verði lögð mjög mikil áhersla að svo verði ekki. Það er reyndar nauðsynlegt í þeirri stöðu efnahagsmála sem nú er.

Hv. þm. kom nokkuð að svonefndu kjötmáli. Um það skal ég segja þetta: Þegar ég ákvað að biðja þrjá lögfræðinga að skila áliti var það að sjálfsögðu ekki bindandi fyrir ríkisstj. á nokkurn máta. Ég tel hins vegar að álitið sé vel unnið. Það hefur a.m.k. sannfært mig um að utanrrh. sé heimilt að leyfa þennan innflutning. Skal ég ekki fara mörgum orðum um það, en vek þó athygli á að lögin frá 1928 fjalla ekki fyrst og fremst um bann við innflutningi á kjöti heldur um varnir gegn gin- og klaufaveiki. Það er staðreynd að gin- og klaufaveiki er ekki í Bandaríkjunum. Fleira sem ég veit að hv. þm. hafa eflaust kynnt sér í þessu áliti hefur sannfært mig um að allar þær ríkisstjórnir sem framkvæmt hafa þennan samning á þann veg sem gert hefur verið hafa farið að lögum.

Hitt er svo allt annað mál hvort mönnum finnst eðlilegt að leyfa þennan innflutning. Ég segi í því sambandi að það hafa orðið miklar breytingar á getu okkar Íslendinga að sjá varnarliðinu fyrir góðu kjöti, ekkert síðra kjöti en þeir fá frá Bandaríkjunum. Ég lýsi þeirri von minni að það takist að ná samningum við varnarliðið um að það auki stórlega kaup á íslenskum landbúnaðarafurðum.

Ég vil einnig geta þess að ríkisstj. gekk fyrir sitt leyti frá stórhertum reglum um innflutning til varnarliðsins. Utanrrh. og landbrh. var falið að ganga endanlega frá þeim og þeir eru að því einmitt þessa daga. Það verður tilkynnt varnarliðinu mjög fljótlega.

Ég skal geta nokkurra atriða þar. Í fyrsta lagi verður ekki heimilt að flytja kjöt inn nema frá Bandaríkjunum. Þess verður krafist að með fylgi vottorð um uppruna. Þess verður krafist að með fylgi vottorð um heilbrigði. Það verður algerlega bannað að flytja kjöt út af vellinum. Því miður, verð ég að segja, höfðu ýmsar fjölskyldur sem utan vallarins bjuggu heimild til að taka með sér kjöt af vellinum. Það verður algerlega bannað. Og öllum úrgangi verður eytt. Þarna verður sem sagt leitast við að tryggja að megintilgangi laganna frá 1928 verði fullnægt, þ.e. að slíkur innflutningur hafi ekki í för með sér gin- og klaufaveiki.

Hv. þm. ræddi nokkuð um Lánasjóð ísl. námsmanna. (Forseti hringir.) Herra forseti. Þegar ég á að svara sex ræðum er mér nokkur vandi á höndum þó að ég geti svo sem sleppt því að svara. (Forseti: Ég skildi hæstv. aðalforseta svo að hér væri samið um ákveðinn tíma í upphafi, 20 mínútur á flokk. Hæstv. forsrh. hefur þegar talað drjúgt það, en ég skal ekki hindra hann í að svara nauðsynlegustu atriðum í því sem fram hefur komið.) Ég þakka fyrir. Ég mun að sjálfsögðu hlíta fyrirmælum forseta.

Ég skil það svo að um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna verði rætt á fimmtudag og skal ég því leiða það hjá mér. Það gefst ugglaust nægur tími til þess þá. En ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því hvernig á að útvega 500 millj. kr. til að fullnægja þörfum lánasjóðsins samkvæmt núgildandi reglum. Ég get ekki stutt að það verði gert með erlendu láni. Ég held að það sé óforsvaranlegt satt að segja. Við verðum að finna einhverjar leiðir til að leysa þau mál án þess að taka slíkt erlent lán.

Nokkuð hefur verið rætt um hæstv. fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson og Seðlabankann. Mér þykir það satt að segja undarlegt ef hann er talinn ófær til að gegna þar störfum. Víða eru seðlabankastjórar endurskipaðir við hverja ríkisstjórn. Það er í sumum löndum svo. Með því er lögð áhersla á að seðlabanki og ríkisstjórn starfi mjög náið saman. Vel kæmi til greina að taka upp þá reglu hér að mínu mati. Ég vil taka undir það, sem einn hv. þm. sagði hér í gær, að Geir Hallgrímsson hefur tvímælalaust sýnt að hann er mjög vel að sér í efnahagsmálum þessarar þjóðar. Þó að menn séu ekki allir á sama máli og hann í þeim málum held ég að við hljótum að viðurkenna þetta. Og hann er fullkomlega fær um, sextugur maðurinn, að gegna störfum seðlabankastjóra.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom nokkuð að kjarasamningum. Ég vísa því til vinnuveitenda og ASÍ ef hann telur að þær gangi seint. Ég vil taka fram að fulltrúar Alþýðusambands Íslands gengu á fund ríkisstj. í desember. Sömuleiðis hafa vinnuveitendur rætt við stjórnina og hún hefur tjáð þeim að hún er hvenær sem er reiðubúin að taka þátt í þeim viðræðum þegar óskað er. Við höfum unnið ötullega að því að undirbúa okkur undir þá þátttöku þegar eða ef hennar verður óskað. Ég verð hins vegar að segja strax að ég held að því miður sé 8% kaupmáttaraukning ofan á það sem varð á síðasta ári ofviða atvinnuvegunum, enda lýsti hv. þm. miklum áhyggjum út af halla undirstöðuatvinnuveganna. Ég verð að taka undir það með honum. Þetta tvennt fer því miður ekki saman.

Hann lýsti líka áhyggjum út af viðskiptahalla. Slík kaupmáttaraukning mundi svo sannarlega ekki draga úr viðskiptahalla þjóðarinnar. Það er alveg ljóst. Slík kaupmáttaraukning mundi ekki heldur verða til þess að lækka vextina. Ég held hins vegar að það séu nokkur góð batamerki í íslensku þjóðfélagi, eins og reyndar hefur komið hér fram. Ég vek athygli á mikilli hækkun á fiskverði erlendis, t.d. á saltfiski, u.þ.b. 16%, og á frystum fiski í Bandaríkjunum um það bil 5% frá áramótum. Ég hygg að allt þetta muni færa fiskvinnslunni eitthvað á annan milljarð í auknum tekjum. Kannske verður það til þess að stöðva halla þessa undirstöðuatvinnuvegar og bæta afkomu hans og hann geti þá tekið á þeim nauðsynlegu málum að lagfæra laun manna í fiskvinnslunni.

Ég vil einnig vekja athygli á því að töluvert hefur dregið úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið, dregið nokkuð úr yfirborgunum á nokkrum sviðum.

Ég vek einnig athygli á því að þrátt fyrir allt eru batamerki í bankakerfinu. Á síðara helmingi síðasta árs varð innlánsaukning miklu meiri en útlánsaukning. Innlánsaukning varð um 50-55% þegar á heildina er litið, en útlánsaukning um 30-35%. Það er í fyrsta sinn síðan 1981 að þetta hefur snúist þannig við og er það tvímælalaust mjög jákvætt.

Þannig gæti ég fleira rakið sem ég tel tvímælalaust vera batamerki. Ég er sannfærður um að unnt er að ná núna umtalsverðum árangri í því að lækka verðbólguna, sem er tvímælalaust það sem kemur launþegum að mestu gagni, og á sama tíma að gera samninga sem tryggja einhverja aukningu á kaupmætti og þar með batnandi lífskjör.