28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leiðrétta að ég sé hér sem staðgengill fjmrh. Því miður komst hann ekki hingað í dag vegna veikinda. Ég tala hér sem fulltrúi Sjálfstfl., en hann hefur jafnmikinn tíma og aðrir flokkar í þessari umferð samkvæmt samningi sem gerður var um þá almennu umræðu sem hér fer fram um stjórnmálaviðhorfið að loknu jólaleyfi þm. Af þessum ástæðum get ég ekki svarað fyrir hönd fjmrh. þeim spurningum sem til hans var beint. Ég mun þó gera tilraun til þess að því marki sem hæstv. forsrh. hefur ekki nú þegar svarað fsp. sem komu fram, einkum og sér í lagi frá hv. þm. Kvennalistans.

Það var minnst á það í ræðum hv. þm. Kvennalistans hvað hefði orðið um batann sem varð vegna aukins afla. Reyndar svaraði hæstv. forsrh. því. En við það má bæta að menn verða að hafa í huga þegar samanburður er gerður nú og við þau ár þegar mest var aflað á Íslandsmiðum fyrir nokkrum árum að auk þess að lifa á þeim afla sem þá fékkst lifðum við á erlendum lántökum langt umfram þau lán sem nú eru tekin erlendis. Erlent fjármagn, sem kom inn í landið, stóð því að verulegum hluta undir þeim lífskjörum sem þá voru. Batinn kemur fram samt sem áður, m.a. í auknum sparnaði, sem hæstv. forsrh. minntist á, en einnig í því að fram kemur í opinberum skýrslum, sem ekki hafa verið bornar brigður á, að heildaratvinnutekjur manna hafa hækkað að meðaltali á milli áranna 1984 og 1985 um 3-4%.

Varðandi samninga við opinbera starfsmenn er rétt að fram komi að það er álit hæstv. fjmrh. að kjarasamningar eigi að eiga sér stað við þau skilyrði að hægt sé að semja við alla launþega, sem hafa lausa samninga, í senn. Viðræður hafa farið fram. Það hefur verið rætt þar um ýmis mál, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Meginstefna hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera sú að hægt verði að tryggja kaupmátt launþega án þess að verðbólgan fari af stað af fullum krafti.

Um kynbundið launamisrétti er aðeins hægt að segja að samningar sem gerðir eru við opinbera starfsmenn eru yfirleitt heildarsamningar. Nú hefur það hins vegar gerst að frá því að síðustu heildarkjarasamningar voru gerðir við opinbera starfsmenn hafa stéttir í heilbrigðiskerfinu þar sem konur eru í yfirgnæfandi meiri hluta hækkað mun meira en aðrar starfsstéttir. Á ég þá sérstaklega við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þessar upplýsingar koma mjög glöggt fram í nýútkomnu blaði sem Starfsmannafélag ríkisstofnana gefur út. Það sem hins vegar veldur áhyggjum er að launamunur þessa fólks og hinna sem ekki eru faglærðir en vinna á sjúkrahúsum er orðinn nær því óþolandi. Þá á ég við þá sem skipa sér undir merki Sóknar, Sóknarkonur, en þær hafa setið mjög eftir í því launaskriði sem hefur átt sér stað frá síðustu kjarasamningum. Það veldur auðvitað vissum vandamálum og erfiðleikum. Á því verður að taka þegar kjaramálin eru skoðuð. Það eitt út af fyrir sig sýnir hve nauðsynlegt er að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði og hjá ríkisstofnunum verði samferða.

Hv. 3. þm. Reykv., sem reið á vaðið í dag, minntist í upphafi sinnar ræðu á sveitarstjórnarkosningar og gaf út þá yfirlýsingu að hann styddi 18 ára kosningaraldur og vildi hafa kjördag 14. júní. Í þessu sambandi er rétt að láta koma fram að í jólafríinu hefur verið unnið talsvert að sveitarstjórnarlagafrv. Sú vinna hefur farið fram í félmrn., en auk þess hefur verið haft samband við formann félmn. Nd. Þessi vinna er unnin á grundvelli þeirra viðhorfa sem komu fram á fundum nefndarinnar fyrir jól. Stærstu efnisbreytingar sem gerðar verða á þessu frv. varða IX. kaflann sem fjallar um lögbundna samvinnu sveitarfélaga.

Hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir því og þingflokkar stjórnarflokkanna, a.m.k. að svo komnu máli, að hægt verði að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Mér er ljóst eins og öllum öðrum að eftir því sem tímar líða fram þeim mun erfiðara er að afgreiða þetta mál, en ljóst er þó, og það hefur komið fram í ræðum fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi að ég held, að það er fullur stuðningur við 18 ára kosningaraldur. Ef tekst að afgreiða sveitarstjórnarfrv. sem nú liggur fyrir Alþingi verður vitanlega hægt að kippa þessum ákvæðum út úr frv. og flytja um það sérstakt frv.

Varðandi kjördaginn hins vegar er enn ekki ljóst hver niðurstaðan verður. Þó hygg ég og hef rætt það við hæstv. félmrh. að a.m.k. á þessu ári verði kjördagar óbreyttir frá því sem verið hefur, þ.e. að kosið verði í kaupstöðum og kauptúnahreppum 31. maí, en 28. júní í sveitahreppum eins og er í núgildandi lögum. Um þetta hafa ekki farið fram samningar á milli stjórnarflokkanna, en það hefur verið viðrað og þessum sjónarmiðum vil ég lýsa hér, einkum og sér í lagi vegna þess að í stærstu kaupstöðunum hefur þegar farið fram ákveðinn undirbúningur. Til að mynda hér í Reykjavík, sem er langsamlega stærsta sveitarfélagið, væri bagalegt ef breytt yrði kjördegi á þessu ári, hvað sem verður um kjördaginn í sjálfu frv., en í frv., ef því væri fylgt og frv. yrði að lögum án bráðabirgðaákvæðis, yrðu kosningar 14. júní. Þetta er enn til skoðunar. Hér hef ég lýst mínu áliti á því hvenær kjördagur eigi að vera í vor, en það er meiri hluti Alþingis sem hlýtur að ráða því.

Nokkuð hefur verið rætt um Þróunarfélagið og kannske ástæða til enda ræddi hv. 3. þm. Reykv. um það í sinni ræðu. Ég vil láta eftirfarandi koma fram:

Tilgangurinn með því að stofna þetta félag var auðvitað að safna fé til að standa fyrir nýsköpun. Sjálfstfl. vildi frá upphafi að ríkissjóður væri í minni hluta og vildi þannig tryggja áhrif atvinnurekstrarins sjálfs en ekki að úttæra nýja útgáfu af Framkvæmdastofnun ríkisins með sjóðsstofnun.

Í öðru lagi vil ég að fram komi að að því er ég best veit gerðu formenn stjórnarflokkanna með sér samning um að þeir færu með sinn helminginn hvor af hlutafjárloforði ríkissjóðs. Sá samningur stendur enn að ég vona. Hlutur hvors er þá um það bil 'h af hlutafjárframlögum. Með þetta hlutafé fóru þeir á síðasta fundi, þ.e. stofnfundi félagsins, Guðmundur G. Þórarinsson fyrir hönd hæstv. forsrh. og Davíð Scheving Thorsteinsson fyrir hönd hæstv. fjmrh.

Í þriðja lagi vil ég að fram komi að það náðist á stofnfundinum víðtæk samstaða um kosningu í stjórn. Þar var ekki um ágreining að ræða. Stjórnarmennirnir koma flestir úr atvinnurekstri og stjórnin var sjálfkjörin. Formaður stjórnar var kjörinn í stjórninni sjálfri. Það var Davíð Scheving Thorsteinsson sem var kjörinn formaður eins og alþjóð veit. Um það gengu engir samningar milli stjórnarflokkanna, enda á ríkissjóður sem slíkur minni hluta í félaginu. Þess skal þó getið, fyrst rætt er um þetta félag, að bankarnir vildu hafa áhrif á stjórnina, en það voru uppi þau sjónarmið, sem mér er kunnugt um, á stofnfundinum að ekki væri rétt að fulltrúar bankanna ættu sem slíkir sæti í stjórn hins nýja félags.

Mín skoðun er sú að það sé ákaflega óeðlilegt að hæstv. forsrh. reyni að hafa áhrif á stjórnarmenn í fyrirtækinu og lýsir það dálítið hugmyndum sem eru allt of einkennandi fyrir Framsfl. fyrr og nú. Gunnlaugur Sigmundsson hefur verið sérstakur kommissar Framsfl. í Framkvæmdastofnuninni á s.l. ári. Það liggur fyrir og er viðurkennt af hæstv. forsrh. að hann hafi lagt til og lagt á það nokkra áherslu að Gunnlaugur yrði framkvæmdastjóri þessa félags. Það hefur haft afleiðingar sem allir þekkja. Það getur verið til gamans og kannske til að hressa upp á hjónabandið í stjórnarherbúðunum að rifja upp þessa áráttu Framsfl. og vitna þá til bréfs frá Steinólfi í Fagradal sem hann sendi Vesturlandsblaðinu um síðustu jól og er nokkuð skemmtilegt bréf þar sem hann er að lýsa trjónukrabbaveiðum. Hann lýsir trjónukröbbunum m.a. með því orðalagi, með leyfi forseta, að trjónukrabbinn hafi augu á stilkum svo sem marsbúar hafa „og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram og haft yfirsýn fyrir báða sína enda jafntímis. Leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins.“ Það má vera að það liggi nokkuð í eðli Framsfl. að vilja vera með nefið ofan í hvers manns koppi og hafa áhrif þar sem hann mögulega getur. Það skilur þessa tvo stjórnarflokka að því að Sjálfstfl. vill að félög á borð við Þróunarfélag Íslands fái að þróast án afskipta stjórnmálamanna, enda var leikurinn til þess gerður.

Jafnframt er rétt að það komi fram, af því að það birtist í blöðum, að ekki er rétt að hluthafar hafi margir sótt um lán til ríkissjóðs til að leggja fram og borga sitt hlutafé. Ég býst við að það hafi verið innan við 5% af hlutafjárloforðunum sem voru þannig útbúin að beðið var um lán úr ríkissjóði, en ég sá haft eftir hæstv. forsrh. að ríkissjóður hefði lánað helminginn. Það var í lögunum heimild til þess arna, en þá heimild kusu langsamlega flestir aðilarnir að nýta ekki.

Í ræðum þeirra sem hér hafa talað í dag hefur nokkuð verið drepið á skatta sem hafa verið lagðir á eða hækkaðir að undanförnu. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma fram að samkomulag hefur tekist við Landssamband bakarameistara um framkvæmd á innheimtu vörugjaldsins á kökur, sætabrauð og annað brauðmeti. Verðhækkun á framleiðsluvörum bakaríanna á ekki að verða meiri en 3-4%, en bökurum er í raun í sjálfsvald sett hvernig þeir dreifa skattinum á framleiðsluvörur sínar. Einstakar kökur eða sætabrauð geta hækkað meira, en annað þá minna. Það er áætlað að á þessu ári náist inn tekjur a.m.k. að upphæð 50 millj. kr. af þessu vörugjaldi, en það er nokkru minna en upphaflega hafði verið áætlað. Það er hins vegar alveg út í bláinn, eins og kom fram hjá einum hv. ræðumanni áðan, að telja að hér sé verið sérstaklega að ráðast á konur með því að leggja þennan skatt á. Þvert á móti held ég að þetta vörugjald hljóti að þróast með tíð og tíma í þá átt að verða skattur á sykurvörur eins og gengur og gerist í öðrum löndum. Það er skylt þeim skatti sem lagður er á alls kyns sælgæti og er gert m.a. til að stuðla að heilbrigðara líferni fólksins í landinu.

Varðandi flugvallaskattinn verður að geta þess að flugvallaskatturinn hefur eingöngu verið færður upp til verðlags. Hann er mjög svipaður nú á föstu verðlagi og hann var fyrir nokkrum árum.

Af því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á það að með þessum hætti væri verið að koma í veg fyrir að aðrir en sérstakir fáeinir útvaldir fengju að fara úr landi ber að rifja það upp að á sínum tíma felldi þessi ríkisstjórn niður 10% skatt af gjaldeyri á ferðamenn en það hlýtur að hafa leitt til þess að auðveldara var fyrir fólk að ferðast úr landi. Það hafa auðvitað ýmsir smáskattar hækkað. Það er eðlilegt til samræmis við aðrar verðhækkanir. Þeir hafa þó hækkað mismunandi mikið og þeir einna mest sem eru sjaldan lagðir á eða eru einungis gjöld fyrir þjónustu.

Einn skattur hefur þó hækkað einna mest en það er gjald fyrir að stunda fasteignasölu. Það gjald hækkaði úr 1600 kr. í 24 300 kr. til samræmis við leyfi til annarrar umboðssölu og vonast ég til þess að hv. þm. Svavar Gestsson kvarti ekki mikið undan þeim skatti. (SvG: Nei, ég studdi hann.) Ég þakka hv. þm. stuðninginn og vona að ég megi eiga hann vísan á fleiri sviðum. (Gripið fram í.)

Þegar litið er til fjármála ríkisins er það alveg rétt sem hér hefur verið rætt, og reyndar hefur það komið fram í fréttatilkynningu frá fjmrn., að ríkissjóður var rekinn með verulegum halla á s.l. ári vegna þess að gjöld hækkuðu verulega umfram verðlagsbreytingar og vegna þess einnig að tekjur urðu ekki eins miklar og verðlagsbreytingum nam.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á því sérstaklega að á milli áranna 1984 og 1985 hækkuðu húsnæðismál, framlög úr ríkissjóði, um 167%, Lánasjóður ísl. námsmanna, framlög úr ríkissjóði, um 109%, vaxtagreiðslur hækkuðu um 107% en launaútgjöld um 44%. Þetta held ég að sé ástæða til þess að minna hv. þm. á. Það er hins vegar alveg út í bláinn þegar hv. þm. stjórnarandstöðunnar koma hér upp og segja að ríkisstj. sé að ráðast á sjúka og aldraða. Hér hefur verið talað um sjúklingaskatta og í raun hefur hæstv. forsrh. fjallað nokkuð um það mál. Ég vil aðeins láta þetta koma fram:

Á undanfórnum þremur árum hefur það gerst - svo að ég taki dæmi úr heilbrigðis- og tryggingamálum annars vegar og félagsmálum hins vegar, og ég vel þá málaflokka sérstaklega vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. fór með þessa málaflokka í síðustu ríkisstjórn - að útgjöld ríkisins til heilbrigðis- og tryggingamála hafa aukist um 10% á föstu verðlagi á síðustu þremur árum og að útgjöld til félagsmála hafa tvöfaldast á sama tíma. Þetta er nú niðurskurðurinn til félagsmála og til heilbrigðis- og tryggingamála, þegar ég lýsi því ástandi sem nú ríkir og ber það saman við það ástand sem ríkti þegar hv. 3. þm. Reykv. sat yfir þessum tveimur málaflokkum. Það er ástæða fyrir því, herra forseti, að þessar upplýsingar komi nú fram.

Um Lánasjóð ísl. námsmanna, herra forseti, ætta ég ekki að fjalla. Um hann verður rætt á fimmtudaginn n.k. og mun þá hæstv. menntmrh. sitja fyrir svörum.

Ég get þó ekki hjá því komist að ræða lítillega um Seðlabankann, einkum og sér í lagi vegna orða hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar í gær, þar sem hann kallaði þetta elliheimili stjórnmálamanna og fór niðrandi orðum um þá menn sem þar starfa. Reyndar bætti hv. þm. Sighvatur Björgvinsson dálítið um fyrir honum með því að þakka Geir Hallgrímssyni, fráfarandi utanrrh., fyrir góð og drjúg störf í þágu íslenskra stjórnmála og íslensks þjóðfélags.

En lítum aðeins betur á þetta. Hvar eru fyrri foringjar Alþfl.? Hvert fóru þeir eftir að þeir voru leystir frá störfum? Ég veit ekki betur en að Benedikt Gröndal hafi farið í utanríkisþjónustuna. Sama gildir um Guðmund Í. Guðmundsson og Haraldur Guðmundsson var einnig sendiherra. (Gripið fram í: Og Stefán Jóhann.) og að ógleymdum Stefáni Jóhanni Stefánssyni. Það er nefnilega einu sinni þannig að sú reynsla sem fæst í stjórnmálum getur víða reynst gagnleg, m.a. í utanríkisþjónustunni og einnig í Seðlabankanum. Og ég segi það að þegar fyrrv. forsrh., sem hefur haft mikil afskipti af efnahagsmálum, gefur kost á sér til þess að verða seðlabankastjóri þá ber að fagna því.

Herra forseti. Fram undan er mikið starf hjá hæstv. ríkisstj. Stjórnarflokkarnir ætla sér hér á Alþingi að koma fram nokkrum mjög mikilvægum stjórnarfrv. Ég vil hér minnast á seðlabankafrv. sem þarf að komast fram. Í því frv. er gert ráð fyrir því að viðskiptabankarnir fái meira frelsi en nú er til vaxtaákvarðana. Í öðru lagi vil ég minnast á sjóðafrv. sem hæstv. forsrh. hefur sagt að hann muni leggja fram nú á næstu dögum. Í þriðja lagi vil ég benda á að fyrirhugað er að þingið afgreiði frv. um virðisaukaskatt og gerðar verði jafnframt breytingar á tollalöggjöf og löggjöf um vörugjald sem stóð til að gera á s.l. hausti en hætt var við eins og öllum er kunnugt.

Það eru ýmis fleiri járn í eldinum. Við megum búast við því að á þessu þingi verði fjallað um hugsanlegan samning við erlendan aðila vegna kísilmálmvinnslu á Austurlandi og auðvitað verða málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna rædd hér og væntanlega lagt fram lagafrv. Það skiptir mestu máli að ríkisstjórnin haldi áfram að reyna að ná jafnvægi annars vegar í ríkisfjármálum og hins vegar í peningamálum þjóðarinnar. Að því ber að vinna. En umfram allt skiptir máli um þessar mundir að vel takist til í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Í þeim kjarasamningum verður að tryggja kaupmátt án þess að verðbólgan fari af stað aftur af fullum krafti. Á þessu er skilningur meðal flestra fulltrúa verkalýðsins í landinu. Ég vonast til þess að það sé enn fremur skilningur á þessum málum hjá forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Auðvitað eru erfiðleikar á því að koma kjarasamningum saman, einkum og sér í lagi vegna þess að á milli áranna 1984 og 1985 hækkuðu atvinnutekjur landsmanna um 3-4% án þess að kaupmáttur kauptaxta hækkaði nokkuð. M.ö.o. þeir sem ekki eru bundnir af kauptöxtum en taka laun sín samkvæmt öðrum samningum, samningum beint á milli launþega og vinnuveitenda, hafa fengið a.m.k. 5-6% launahækkun á meðan þeir sem eru á kauptöxtum hafa enga launahækkun fengið. Það er þetta misræmi sem veldur því að nú er erfitt að takast á við þetta mál. Ég legg mikla áherslu á það að ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir skoði þetta mál með tilliti til framtíðarinnar, ekki með tilliti til þess að nú í vor fara fram kosningar til sveitarstjórna.

Mér er það auðvitað ljóst að það er ótti í stjórnarandstöðuflokkunum. Það er skiljanlegur ótti þegar haft er í huga að í skoðanakönnunum, m.a. einni sem birtist í dag, skuli stjórnarandstöðuflokkarnir tapa fylgi en stjórnarflokkarnir vinna á. (GA: Nei, ekki allir.) Að vísu er það með fáeinum undantekningum sem nú skal getið því að Kvennalistinn fór verulega upp á við. Má telja að hann hafi í þeirri sveiflu tekið nokkuð af því sem Alþb. hefði annars fengið. En þessi ótti má ekki verða til þess að menn missi sjónar á því að við verðum sem ábyrgir stjórnmálamenn að takast á við þann vanda sem þjóðin stendur nú frammi fyrir, en það er að ná jafnvægi í peningamálum, í ríkisfjármálum og í kjaramálum launþeganna sem nú eiga lausa samninga.

Herra forseti. Ég hef hér gert tilraun til þess að svara nokkrum spurningum, sem beint var til mín og hæstv. fjmrh. sem ekki getur verið hér í dag, og fjallað hér um örfá atriði sem fram komu í þessum umræðum og læt hér máli mínu lokið.