29.01.1986
Efri deild: 43. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

202. mál, verðbréfamiðlun

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Með þessu frv. er lagt til að lögfestar verði reglur um verðbréfamiðlun, en viðskipti með verðbréf hafa farið sívaxandi hér á landi á undanförnum árum. Markmiðið er að tryggja eftir föngum heilbrigða viðskiptahætti í þessari starfsemi þannig að frelsi manna til samninga fái sem best notið sín. Frv. er ekki beint að samningsfrelsinu heldur gegn misnotkun þess.

Frv. er samið af nefnd sem fyrrv. viðskrh. skipaði 15. febr. á s.l. ári. Sigurgeir Jónsson, aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum, var formaður þessarar nefndar, en aðrir nefndarmenn voru Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri, Eyjólfur Konráð Jónsson alþm., Gestur Jónsson hrl. og Markús Sigurbjörnsson borgarfógeti.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að nefndinni sé falið að semja reglur um meðferð og sölu skuldabréfa og sé til þess ætlast að nefndin athugi hvort rétt sé að binda starfsemi verðbréfamiðlara við sérstakt starfsleyfi svo og hvort ástæða sé til að herða á eftirliti með verðbréfaviðskiptum, m.a. með kröfu um nafnskráningu skuldabréfa og upplýsingaskyldu verðbréfamiðlara gagnvart almenningi og stjórnvöldum. Þá var þess óskað að nefndin athugaði skattalega meðferð skuldabréfa og gerði tillögur til úrbóta í því efni.

Með samningu þessa frv. og frv. til 1. um nafnskráningu skuldabréfa, sem einnig hefur verið lagt hér fram, hefur nefndin að verulegu leyti lokið störfum. Hún á þó eftir að leggja fyrir ráðuneytið tillögur um skattalega meðferð skuldabréfa.

Samkvæmt þessu frv. verður starfsemi verðbréfamiðlara framvegis háð leyfi viðskrh. og skal veita leyfið að fullnægðum fastákveðnum skilyrðum. Jafnframt er lagt til að í starfsemi þessari verði að fylgja ákveðnum grundvallarreglum sem í senn er ætlað að tryggja öryggi þeirra sem eiga viðskipti við verðbréfamiðlara og að eftirlit megi hafa með starfseminni. Skal ég nú víkja í örstuttu máli að einstökum ákvæðum þessa frv.

Í 1. kafla eru nokkur hugtök skilgreind sem máli skipta. Segir í 2. gr. að með verðbréfamiðlun sé átt við hvers konar milligöngu um kaup eða sölu verðbréfs, kaup eða sölu verðbréfs í annarra þágu og ráðgjöf sem veitt er gegn endurgjaldi um slík kaup eða sölu. Í þessu sambandi vekur það einkum athygli að veiting ráðgjafar um verðbréfaviðskipti gegn endurgjaldi fellur undir hugtakið „verðbréfamiðlun“. Það þykir eðlilegt að þessi þáttur verðbréfaviðskipta falli undir hugtakið og verði þar með háður veitingu starfsleyfis þar sem ráðgjöf í ágóðaskyni til annarra um kaup eða sölu verðbréfs getur eðli málsins samkvæmt verið ein þýðingarmesta ákvörðunarástæða kaupanda eða seljanda um viðskipti.

Í 2. gr. segir enn fremur að til verðbréfamiðlara teljist þeir menn sem hlut eiga að verðbréfaviðskiptum með þeim hætti að það falli undir hugtakið „verðbréfamiðlun“ eins og það er skýrt í ákvæðinu. Þá er skilgreint hugtakið „verðbréfasjóður“. Er með því átt við sérhvern aðila að lögum sem hefur það markmið að kaupa eða selja verðbréf í eigin nafni, en almenningur getur átt aðild að.

Í II. kafla er fjallað um leyfi til rekstrar verðbréfamiðlunar og verðbréfasjóðs. Er lagt til að óheimilt verði að hafa með höndum verðbréfamiðlun eins og henni er lýst fyrr nema að fengnu sérstöku leyfi ráðherra. Frá þessari meginreglu er þröng undantekning varðandi lögmenn og löggilta endurskoðendur. Það er gert ráð fyrir að leyfi verði persónubundið og er því ekki um það að ræða að félag eða stofnun fái leyfi þetta í eigin nafni heldur er ráðgert að slíkir aðilar verði að lúta stjórn manns sem leyfi hefur fengið að fullnægðum þeim skilyrðum sem sett eru í frv. Tilhögun þessi er lögð til í því skyni að tryggja að félag sem hefur verðbréfamiðlun með höndum sé ekkí selt til manna sem ekki fullnægja hæfnisskilyrðum ákvæðisins.

Þessi skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að maður geti leyst til sín leyfi, eru í fimm liðum:

Í fyrsta lagi er þess krafist að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari og heimilisfastur hérlendis, í öðru lagi að hann hafi óflekkað mannorð, í þriðja lagi að hann sé fjárráða og hafi aldrei verið sviptur forræði á búi sínu, í fjórða lagi að hann hafi lokið viðurkenndu prófi í hagfræði, lögfræði eða viðskiptafræði. Þó er viðskrh. heimilt að víkja frá skilyrði þessu eins og nánar er lýst í d-lið 1. mgr. 4. gr. frv. Í fimmta lagi setji umsækjandi bankatryggingu að fjárhæð 2 millj. til að standa straum af greiðslu skaðabóta sem honum kann að verða gert að greiða viðskiptamanni vegna starfsemi sinnar. Þá er einnig lagt til að óheimilt verði að stofna eða starfrækja verðbréfasjóð nema sá maður sem veitir sjóðnum forstöðu og hefur daglega stjórn hans með höndum fullnægi framangreindum skilyrðum og hafi öðlast leyfi ráðherra til starfseminnar. Viðskrh. er jafnframt heimilt að fella úr gildi leyfið missi leyfishafi einhver þeirra skilyrða sem að framan eru greind.

Um það kunna að vera skiptar skoðanir hvort almennt eigi að binda í lög að leyfis sé þörf til að leggja stund á verðbréfamiðlun. Sú leið hefur þó verið valin í frv. þessu og er þá einkum horft til hagsmuna þeirra sem leita eftir þeirri þjónustu sem verðbréfamiðlarar veita. Ljóst er að ráðgjöf um viðskipti á þessu sviði er vandasöm og þarfnast umtalsverðrar þekkingar, jafnt á hinni reikningslegu hlið viðskiptanna sem hinni lagalegu. Reynslan hefur sýnt að umtalsverðir fjármunir ganga manna í milli í þessum viðskiptum og er augljós sú hætta sem viðskiptamönnum getur verið búin af misferli eða mistökum milligöngumanns. Verður ekki séð að hagsmunum viðskiptamanna verði veitt nægileg vernd fyrir umræddum hættum öðruvísi en reynt sé að tryggja að milligöngumaður um viðskiptin fullnægi ákveðnum almennum kröfum varðandi mannorð, menntun og getu til að standa straum af greiðslu skaðabóta verði honum á mistök í starfi viðskiptamanni til tjóns.

Í III. kafla er fjallað um réttindi og skyldur verðbréfamiðlara. Þar er m.a. að finna ákvæði um upplýsingaskyldu verðbréfamiðlara gagnvart viðskiptamönnum. Einnig eru þar ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að verðbréfamiðlari mismuni viðskiptamönnum varðandi upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör verðbréfa. Þá er í þessum kafla ákvæði um framsal verðbréfa, þagnarskyldu verðbréfamiðlara og skyldu hans til að kunngera viðskiptamanni fyrir fram hverja þóknun hann muni áskilja sér fyrir þjónustu sína.

Í IV. kafla er fjallað um fjárhagslega ábyrgð verðbréfamiðlara gagnvart viðskiptamanni. Meginreglan í þeim efnum verður skv. frv. að almennar skaðabótareglur skuli gilda. Þó er um strangari sérreglur að ræða þegar heimildarskjal eða fjármunir glatast sem verðbréfamiðlari hefur í vörslum sínum í þágu viðskiptamanns eða verðbréf skortir einhverja þá kosti sem ætla má að áskildir hafi verið.

Samkvæmt V. kafla frv. er bankaeftirliti Seðlabankans falið að hafa eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfasjóðs og skal bankaeftirlitið tilkynna viðskrh. telji það starfsemi þessa brjóta í bága við ákvæði frv. eða eðlilega viðskiptahætti. Getur þá viðskrh. svipt hlutaðeigandi leyfi til verðbréfamiðlunar eins og nánar er lýst í V. kafla frv. um viðurlög við brotum. Í þessum kafla segir enn fremur að það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum hafi maður verðbréfamiðlun eða rekstur verðbréfasjóðs með höndum án tilskilins leyfis. Nú nýlega sendi Jónatan Þórmundsson lagaprófessor nokkrar ábendingar í ráðuneytið sem fjalla um refsiákvæði. Ég mun ekki gera þær að umræðuefni, en ráðuneytið mun senda nefndinni þær ábendingar þegar hún tekur frv. til meðferðar og umfjöllunar.

Lokakafli þessa frv. fjallar um gildistöku þess. Er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. mars 1986. Starfandi verðbréfamiðlurum við gildistöku laga þessara verður heimilt að halda áfram starfi sínu án leyfis viðskrh. til 1. maí á þessu ári. Þessar dagsetningar koma einnig mjög til álita og ekki óeðlilegt að þeim verði eitthvað breytt og fer það eftir því hve hratt gengur að afgreiða málið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir ákvæði frv. sem hér liggur fyrir og vil að öðru leyti vísa til ítarlegra athugasemda er fylgja frv. Það skal einungis áréttað að meginmarkmið frv. er að vernda almenning og viðskiptalíf gegn misnotkun á því samningsfrelsi sem almennt ríkir í viðskiptum hér á landi.

Að lokinni þessari umræðu er þess óskað að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og mun ráðuneytið kappkosta að koma á framfæri öllum þeim upplýsingum sem snerta efni þessa frv.