29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í þessa umræðu. Vegna þess að þeir sem hér hafa talað hafa vikið að Byggðastofnun og þeirri umfjöllun sem hún hefur fengið hér á þessum vetri vildi ég segja örfá orð. Þeir leiðrétta mig þá sjálfsagt félagarnir, sem hér hafa á undan mér talað, ef mig misminnir í þeim efnum.

Ég hefði gjarnan viljað spyrja þá að því, þessa fyrrverandi ráðherra, Sighvat Björgvinsson og Hjörleif Guttormsson: Hvaða stofnanir voru fluttar út á land í ráðherratíð þeirra? Ég hugsa að tíminn í dag endist okkur til þess að þeir telji þær upp fyrir okkur, svo margar held ég að þær hafi ekki verið.

Til að fyrirbyggja misskilning vegna þess sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði og orðaði svo, að því er ég tók best eftir, í tilefni þess að í Byggðastofnun væru menn að gera einhverja faglega úttekt, og að hann héldi að þeir hefðu falið Hagvangi að gera þessa úttekt. Ég held að hv. þm. hafi orðað þetta nokkurn veginn svo. Margar úttektirnar gerði þessi hv. þm. og ráðherra. Það verð ég að segja. Ég get sagt það hér að Byggðastofnun og starfsmenn Byggðastofnunar höfðu vissulega alla burði til þess og getu að gera þessa úttekt og athugun sem hér er verið að tala um. Við höfðum hina hæfustu menn til að gera það. Við töldum hins vegar að þeir mundu vart teljast hlutlausir í þeirri skoðun. Því var það niðurstaða okkar stjórnarmanna nýrrar Byggðastofnunar að reyna að finna hlutlausan aðila til að skoða þetta mál. Við ræddum við fleiri en eitt fyrirtæki, en niðurstaðan varð að þeim viðræðum loknum að við völdum fyrirtækið Hagvang til að vinna þessa úttekt fyrir okkur. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir, sem styttist óðum í, mun stjórn Byggðastofnunar byggja sína ákvörðun á þeirri niðurstöðu. Ég vildi að þetta kæmi hér fram.