24.10.1985
Sameinað þing: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

69. mál, framhaldsnám í sjávarútvegsfræðum á Höfn

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða sem meðflm. þessarar till. að taka undir hana efnislega og fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum til viðbótar við það sem frsm. og 1. flm. gerði.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að tengja nám okkar atvinnulífinu meir en verið hefur. Í raun hefur mikið verið rætt um það á undanförnum árum án þess að framkvæmdir fylgdu í þeim mæli sem þyrfti að vera. Ekki á þetta síst við um nám í sjávarútvegsfræðum og er það í rauninni undarlegt hvað því námi hefur verið lítill sómi sýndur miðað við að við lifum á sjávarútvegi og sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugreinin. Það er afar nauðsynlegt að skapa menntuðu fólki þar starfsvettvang.

Þessi till. kveður á um könnun og athugun á framhaldsnámi í sjávarútvegsfræðum á Höfn í Hornafirði. Við bendum á þennan stað sérstaklega vegna þess að þar er ákjósanlegt umhverfi fyrir nám í sjávarútvegsfræðum. Þar er einn öflugasti útgerðarstaður landsins. Við teljum því þessu námi vera vel fyrir komið þar. En till. kveður aðeins á um könnun í þessu efni og eins og frsm. kom hér inn á felum við það þeim sem gerst þekkja til þessara mála að skapa þá umgjörð sem hæfir.

Það hefur mikið gildi fyrir landsbyggðina almennt að efla framhaldsmenntun úti um allt land. Þar er fyrst að telja gildi menntunarinnar sjálfrar sem er mikið. Framhaldsmenntun úti um land skapar atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf í hinum einstöku landshlutum og aukin framhaldsmenntun úti um landsbyggðina heldur atgervisfólki í byggðunum og skapar því þar tækifæri.

Ég ætla ekki að orðlengja um þessa till. frekar. Ég óska þess að hún fái hér þinglega meðferð og verði afgreidd á þessu þingi. Það er því miður svo með margar till. til þál. að þeim er sópað undir stól eða niður í skúffu. En ég vildi fara fram á það að þessi till. fengi rækilega skoðun í nefnd og þinglega meðferð hér á hv. Alþingi.