24.10.1985
Sameinað þing: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

69. mál, framhaldsnám í sjávarútvegsfræðum á Höfn

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að í gildi er þál., orðin æðigömul, um áratugur síðan hún var hér samþykkt, um fiskiðnskóla í Siglufirði. Það er einmitt verið að athuga það mál nú og vonandi verða tekin þar fyrstu skrefin og að sjálfsögðu mjög æskilegt að þar komist á fót slíkt nám sem hér er nefnt, framhaldsnám í sjávarútvegsfræðum. Kannske er hugsunin eitthvað önnur hjá flm. þessarar till. en var hjá okkur, sem voru allir þm. beggja Norðurlandskjördæma, sem fluttum þessa till., sem samþykkt var á sínum tíma, um fiskiðnskóla í Siglufirði sem nú er verið að undirbúa eins og ég gat um áðan. En það er síður en svo að ég ætli að mæla gegn því að þessi athugun, sem till. sem hér er til umræðu fjallar um, fari fram. Það er alveg sjálfsagt að við snúum okkur að því að gera ráðstafanir til þess að ungir sem eldri geti öðlast meira nám og meiri þekkingu í sjávarútvegsfræðum. Ég er þess vegna ekki andvígur þessari till., en vek athygli á því að nærtækara er auðvitað að framfylgja þeirri till. sem í gildi er, enda er það nú í undirbúningi.