30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mér sýnist á öllu að fyrirmynd hæstv. menntmrh. í þessu máli sé John Wayne. John Wayne átti eitt kjörorð, sem var svona: Shoot first, ask questions later. Og fyrir þau mörgu átrúnaðargoð Johns Waynes, sem harma að hann er dauður, og Reagan orðinn heldur laslegur, þá hljóta þeir að anda léttar nú þegar þessi nýja stjarna er fædd, þessi íslenski hæstv. menntmrh., Sverrir Hermannsson. Hvert filmunafn hans verður í framtíðinni er óljóst, Cool Kid eða eitthvað svoleiðis, Buffalo Bill.

Ef við athugum feril þessarar ríkisstjórnar í menntamálum er hann mjög skrautlegur. Það var að sumu leyti dálítið svipað mál sem kom hérna upp um haustið þegar ríkisstj. tók sér fyrir hendur að bæta skólakerfið hvað varðaði kennara. Á örfáum vikum risu kennarar landsins í heild upp gegn ríkisstj., gegn þáv. hæstv. menntmrh. og þeim ráðum sem ríkisstjórnin taldi sig hafa til úrbóta. Nákvæmlega það sama gerist núna í sambandi við námsmenn. Reyndar núna á örfáum sólarhringum, á örfáum klukkustundum rísa námsmenn, íslenskir námsmenn hvar sem þeir eru staddir í heiminum, upp allir sem einn og mótmæla. Málið er nefnilega það að þessi ríkisstj. hefur enga stefnu í menntamálum. Það er nefnilega stefna í menntamálum að hafa stefnu í launamálum kennara og það tilheyrir stefnu í menntamálum að hafa stefnu í sambandi við lánamál námsmanna. En hvorugt hefur þessi ríkisstj. og ég held að það sé ekki nokkur ríkisstjórn sem á eins hörmulegan feril í afskiptum sínum af mennta- og skólakerfi þjóðarinnar og þessi. Síðan er þetta dulbúið með einhverjum loftkenndum yfirlýsingum um að það sé verið að skoða málin frá rótum. Það er skotið fyrst og spurt síðan spurninga síðar, alveg eins og John Wayne gerði.

Við, vænti ég, erum öll tilbúin til þess að athuga málin, fara ofan í kjölinn á þeim. Við erum til í að skoða námslánakerfið ef við fáum upplýsingar um að þar sé verulega ábótavant og að það þjóni alls ekki sínum tilgangi, hvort sem varðar það að skila íslensku námsfólki þannig fram að það verði þjóðinni til gagns eða hinu hlutverkinu að tryggja félagsleg réttindi og félagslegan jöfnuð. Það er alveg rétt að okkur hættir oft til að rugla saman markmiðum og þeim stofnunum sem eru settar á fót til þess að ná viðkomandi markmiðum. Við skulum hafa augun opin og vera tilbúin til að ræða þau mál hvenær sem er, en við skulum ekki ganga fram eins og kúrekar í því.

Menn geta sett sér ýmis markmið eins og um öryggi borganna heima fyrir. Menn hafa sett sér markmið um frið í heimi. Menn hafa sett sér markmið um heilsuhreysti og menn hafa sett sér mark um menntun. Svo hafa menn sett upp stofnanir. Menn hafa sett upp lögreglu til að ná öryggi. Menn hafa sett upp heri og hernaðarbandalög til að ná friði og menn hafa sett upp spítala til að ná heilsuhreysti og skóla og sjóði til að ná markmiðum í menntun. Svo gerist það oft að menn rugla saman þessum stofnunum og markmiðunum. Það gerist t.d. að efasemdum um lögreglu er snúið upp þannig að menn vilji ekki frið innanlands, eða að efasemdir um skólakerfi og efasemdir um námslán bendi til þess að menn meti ekki gildi menntunar og jafnræðis til náms. Við skulum alltaf vera tilbúin til þess að endurskoða hlutina og okkur ber skylda til þess, en við verðum að haga okkur eins og menn.

Það er í sannleika sagt alveg ótrúlegt, eins og ég sagði í byrjun, hvernig þessi ríkisstj. hefur komið að málum skóla og skólastofnana í þessu landi. Ég ætla aðeins að telja upp örfá mál. Fyrst voru það launamál kennara. Það sem gerðist þar var að það er flótti úr kennarastéttinni í landinu. Kennarar sitja við borð sín og kenna nemendum sínum, en eru með annað augað á smáauglýsingadálkum eða atvinnuauglýsingum blaðanna til þess að ná sér í annað „djobb“. Stéttin er auk þess reið og andsnúin þeim stjórnvöldum sem eiga að móta stefnu. Og það er illt.

Annað dæmi um stórkostlegan vilja þessarar ríkisstj. til átaka í skóla- og menntamálum er Tjarnarskóli. Það var sparkað út í loftið. Það var engin markmiðasetning. Þetta var fullkomin hentistefna og jafnvel segja sumir klíkuskapur. Þetta er ekki stefna í menntamálum.

Og nú er síðasta dæmið Lánasjóður ísl. námsmanna, þar sem menn eru að reyna að fá fólk til þess að rugla tvennu saman. Annars vegar er skapvonska menntmrh. sem hefur hvorki geðslag né kannske þolinmæði til þess að setja sig inn í málin og það er reynt að fá menn til þess að rugla því saman við einhverja djarfa framtíðarsýn og heildarstefnumótun og vilja til að endurskoða frá grunni. Ef slíkt væri þá værum við nú ekki að bíða eftir tillögum ráðherrans. Eins og ráðherrann marglýsti yfir hér áðan þá hefur hann engar tillögur. Ríkisstj. hefur engar tillögur. Hann á eftir að sýna sínum formanni þær, segir hann, og hann á eftir að sýna sínum flokki þær og sínum samstarfsflokki og svo náttúrlega Alþingi.

Það eru ekki nokkrar tillögur til og þess vegna er hérna alls ekki eitthvað á ferðinni sem er framtíðarsýn og heildarstefnumótun eða vilji til að endurskoða frá grunni. Þetta er bara skapvonska.

Við getum líka athugað sögu þessa máls. Til þess að reyna að færa þetta í málefnalegan búning er það t.d. dregið upp að áætlanir hafi verið ófullnægjandi. Því hefur verið svarað víða og oft. Það hefur verið útskýrt að það á sér skýringar að áætlanir hafi verið ófullnægjandi. Því hefur verið svarað víða og oft. Það hefur verið útskýrt að það á sér skýringar. Auðvitað er ekki gott að hafa lélegar áætlanir. En það hefur t.d. komið fram að sjóðurinn, væntanlega þá stjórn og framkvæmdastjóri, voru að vinna og hafa nú raunar komið upp eigin tölvu- og upplýsingakerfi, sem m.a. hefur kostað þessa miklu yfirvinnu, til þess að bæta úr upplýsingaþörf sjóðsins, til þess að bæta áætlanagerð. Það hafa komið yfirlýsingar um yfirvinnu og heimildarlausar stöður. Það hefur líka verið skýrt út, m.a. er skýringin þvergirðingsháttur stjórnvalda sem eins og ævinlega taka ekkert mark á þeim tillögum sem menn senda inn til þeirra og strika síðan með pennum sínum í bak og fyrir og taka geðþóttaákvarðanir.

Ég trúi varla að hæstv. ráðh. ætli að sjóðurinn hefði getað verið rekinn með sex manns. Það hefur komið fram að það hafi margsinnis verið óskað eftir fleira fólki til starfa. Annað sem er dregið upp eru yfirlýsingar um fólk sem fær gífurleg lán og aldrei greiðir aftur. Í fyrsta lagi er augljóslega, eins og hefur verið rakið hér í dag, um að ræða örfá tilfelli. Og það er ekki séð að það þurfi að gjörbylta öllu þessu kerfi, öllum lögunum til þess að koma í veg fyrir slíkt. Auðvitað á ekki að vera hægt að misnota þetta kerfi, frekar en öll önnur kerfi. Það má engin kerfi misnota. En það er ekki séð af þessum gögnum að það þurfi að taka þetta hreinlega allt upp á asnaeyrunum.

Það er líka eitt sem skiptir máli í þessu varðandi hina fáu einstaklinga sem hafa hin stóru lán, og það er það, að þeir einstaklingar sem halda áfram og fara í framhaldsnám, kannske eftir Bachelors-gráðu eða Mastersgráðu, fara í rannsóknarnám, t.d. til doktorsnáms, þeir skilja eftir sig gjarnan 8-10 ára nám. Og það er nú einu sinni svo að ef menn vilja skoða þetta allt í ljósi fjárfestinganna þá getum við bara sagt við okkur að við séum að setja þarna fram visst áhættufé. Það er nú einu sinni þannig að við borgum ekki okkar sérfræðingum, okkar vísindafólki, þannig laun að við getum gert neinar sérstakar kröfur til þess um að það borgi með fullri verðtryggingu og háum vöxtum til baka allan þann kostnað sem það verður fyrir vegna framfærslu, vegna skólagjalda og annars á tíu ára námsferli. En við viljum fá þetta fólk heim. Og við viljum veðja á það peningum, jafnvel þó ekki verði nema einn af hverjum fimm sem virkilega skarar fram úr, sem virkilega skilar sér.

Ég er ekki viss um að Einstein hefði þótt vera að fást við mjög gagnlega hluti á sínum tíma. Ég er ekki viss um að menn hefðu verið til í að lána honum stóra peninga til þess að liggja og grúska yfir einhverjum fáránlegum kenningum, fáránlegum hlutum, sem allir töldu bull.

Ef við lítum síðan á þetta kerfi eins og það er núna, jafnslæmt og menn segja að það sé, þá er þó staðreynd að níu af hverjum tíu krónum koma verðbættar til baka. Það skilar sér að talið er, ef ég man rétt, 87%. Það er nú bara ansi gott miðað við að þarna er sjóður sem á að gegna þessu tvíþætta hlutverki, annars vegar að gæta jafnræðis og hafa þetta félagslega hlutverk, og síðan að standa undir endurnýjun og fjárfestingu í fólki landsins.

Annað sem er dregið upp er brottrekstur framkvæmdastjóra með alls kyns dylgjum um vanrækslu. Það hefur samt komið fram að stjórn sjóðsins vann jafnt að þeim hlutum og ábyrgð stjórnarinnar er augljós. Í þokkabót, sem alls ekki kemur heim og saman við þessa miklu ábyrgð og ávirðingar framkvæmdastjórans, þá virðist manni komin sérstök traustsyfirlýsing til meiri hluta stjórnar sjóðsins, sem manni skilst að sé inni á teppum hjá ráðherrum, svo sem á hverjum degi til þess að móta stefnuna. Þeir ættu þó að bera fulla ábyrgð á rekstri, á áætlunum og annarri vinnu sem þarna hefur farið fram.

Maður getur spurt sig: Af hverju þurfti að ganga fram eins og Clint Eastwood eða John Wayne? Af hverju þurfti að skjóta fyrst og spyrja svo? Af hverju þurfti að reka? Og af hverju þurfti að æra alla námsmenn landsins og alla íslenska námsmenn heimsins upp - alveg eins og kennarana forðum? Ef þessi málstaður er svo góður, af hverju eru þá þessar aðferðir viðhafðar? Það er vissulega þörf úrbóta í sambandi við ýmis mál í Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég sagði reyndar ráðherra það á fundi í hv. fjh.- og viðskn. Nd., þar sem þessi mál voru rædd fyrir jól, að ég teldi fulla þörf á og mundi taka þátt í því að endurskoða þar ýmis mál, fara þar yfir. T.d. eins og mál sem varða afgreiðslu, mál sem varða mjög flókinn útreikning lána. Ég tel sjálfsagt mál að endurskoða lánsupphæðir, sem virðast býsna háar eftir þeim upplýsingum sem hafa komið fram, a.m.k. miðað við almenn lífskjör í þessu landi. Það er líklega rétt, það er líklega réttlátt og ekki vel siðferðilega verjandi að námsmenn fái með þessum neyslulánum betri lífskjör en fólkið í landinu verður að þola. Og þetta er allt hægt að gera án þess að skjóta menn.

Svo vil ég taka fram, í sambandi við þær miklu ofsjónir sem menn sjá í þessum mikla lífeyri sem námsmenn fá með þessum lánum, að þetta eru lán en ekki styrkir. Þetta eru lán en ekki styrkir. Og kannske er á endanum námsmönnunum sjálfum mestur ógreiðinn gerður með því að láta þá binda sér alla þessa miklu bagga. En alla þessa hluti er hægt að bæta án þess að fara offari á þennan hátt.

Annað líka sem er mjög athyglivert í þessu, og sem ég held að starfsfólk sjóðsins ætti að velta dálítið fyrir sér, en það er að það er alveg makalaust hvernig pólitíkusum, sérstaklega pólitíkusum í Sjálfstfl., hefur tekist að koma ávirðingum af þessu sem ég nefndi, eins og þessum háu upphæðum, afgreiðslumálum og þessu reiknikerfi, yfir á starfsfólkið. Starfsfólkið er að vinna eftir lögum og reglugerðum sem þeir, pólitíkusarnir, settu sjálfir. Og ef menn sjá einhverjum ofsjónum yfir þessu þá eiga þeir að líta í eigin barm. Þetta starfsfólk er líka að vinna við þær undarlegu aðstæður að það eru kannske tvö, þrjú reiknikerfi í gangi í einu vegna þess að þessum lögum og reglum hefur verið breytt, ekki af starfsfólkinu, heldur af pólitíkusunum sem sömdu lögin og sömdu reglurnar. En svo tekst með lymsku og með því að birta ýmiss konar línurit í ýmsum fjölmiðlum að koma þessu yfir á starfsfólkið! Ég hef m.a.s. horft upp á starfsfólk, m.a.s. fyrrverandi framkvæmdastjóra sjóðsins, þar sem mér sýndist hann hálfpartinn vera að bera í bætifláka fyrir þetta. Það er rangur skilningur. Starfsfólkið er þarna greinilega að vinna eftir reglum og lögum sem eru ákveðin af stjórnvöldum og þessu fólki er síðan falið að vinna eftir.

Það er svo sem lítið hægt að fara nákvæmlega ofan í saumana á því sem við á að taka í öllum þessum buslugangi. Þar hefur heyrst ýmislegt en ekkert verið birt. Hæstv. ráðh. segir sjálfur áðan að það séu óáreiðanlegar upplýsingar sem hafi fengist fyrir snuðr dagblaða og annarra fjölmiðla. Eitt atriði hefur þó verið mjög uppi og það er styrkjakerfi einhvers konar, sem menn eru að tala um að láta taka við, alla vega að einhverjum hluta. Mér virðist þetta styrkjakerfi á ýmsan hátt höfða til manna innan Sjálfstfl. Og það finnst mér alveg furðulegt að pólitíkusar sem hafa þó jafnoft notað tækifærin til þess að benda á að forsjá einstaklinganna, forsjá markaðarins sé þó sú sem sé skárri en stjórnskipaðra nefnda eða einhvers konar „apparata“ sem setjist niður og reyni að vega hluti og meta.

Við getum alveg ímyndað okkur hvernig það væri fyrir einhverja styrkjanefnd, sem ætti að fara að úthluta styrkjum til íslenskra námsmanna, hvernig það væri fyrir þá menn og hvernig þeim mundi farast úr hendi að meta hvað væri þjóðhagslega hagkvæmt. Við hvað á fólkið okkar að vinna eftir fimm eða tíu ár? Hverjir eru góðir námsmenn? Hverjir eru lélegir? Hverjir eru framsóknarmenn og hverjir eru sjálfstæðismenn? Ég held að þetta væri illt og gæti aldrei orðið til neinna bóta. Það er líka annað sem við mundum vita, að þegar menn færu að reyna að meta hlutina á þann hátt út frá einhvers konar hagrænum eða arðsemissjónarmiðum, þá kæmi náttúrlega í ljós að grundvallarrannsóknir, grundvallarstarfsemi, sem ekki hefur augljóst arðsemisgildi í augnablikinu, mundi auðvitað standa mjög höllum fæti.

Fyrir þá sem horfðu á Nóbels-spekingana í gær er það kannske fróðlegur þanki að minnast þess sem þeir sögðu um arðsemi og um grundvallarrannsóknir. Í hverju einasta landi t.d. á Vesturlöndum, Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem menn hafa vaknað upp og tekið eftir því hvað það kostar mikla peninga að halda uppi menntun, að gera fólki kleift að fara í skóla og halda uppi rannsóknarstarfsemi, þá hefur þessi sami þanki komið upp: Setjum þá í eitthvað arðbært. Og þetta hefur alltaf leitt til ófarnaðar. T.d. er nú svo komið að háskólamenn í Bretlandi telja að það muni taka 10-20 ár að bæta þann skaða sem Thatcherstjórnin, með forsjárhyggju af þessu tagi, hefur valdið skólakerfi Breta. Í fyrsta lagi með því að vera að reyna að stýra því hvert peningar í rannsóknir og nám fari, og í öðru lagi með því að gera námið svo dýrt, t.d. fyrir útlendinga, að þar hafi einungis örfáir útvaldir efni á. Um þetta ættu menn að hugsa þegar þeir setjast niður í Sjálfstfl. og þykjast ætla að fara að hugsa þetta mál upp frá grunni og þúa til eitthvað nýtt og gott kerfi.

Reyndar kom í ljós í niðurlagi ræðu ráðherrans að hann er orðinn beygður og hræddur. Hann vísaði til mannúðar og miskunnsemi og samvinnu í þessum síðustu orðum sínum. Það fór fyrir honum reyndar eins og Reagan, sem er kominn í þetta hlutverkið núna, að horfa votum augum framan í heiminn og höfða til mannúðarsjónarmiða. Þannig hörfar ráðherrann frammi fyrir hinni miklu fordæmingu sem þetta framferði hans hefur hlotið og þeim vanda sem það augljóslega skapar, vegna þess að það kann ekki góðri lukku að stýra að ganga um á þennan hátt. Það er reynt að láta líta svo út, eins og ég sagði áðan, að geðvonska og fákunnátta á fyrsta mánuði starfans sé nú vilji til þess að byggja upp og bæta og breyta.

Ég lýsi því yfir aftur - því hafa reyndar, held ég, allir ræðumenn lýst yfir - að menn eru tilbúnir til þess að skoða þessa hluti, taka þá upp á eyrunum, eins og sagt er, og fara ofan í saumana á þeim. En við verðum að spyrja fyrst og skjóta svo. Við verðum að fá á borðið fyrir framan okkur upplýsingar, við verðum að fá rökstuðning fyrir því að það þurfi að taka virkilega á þessu máli. Það er ekki nóg að segja okkur að þetta kosti peninga. Við vitum að þetta kostar peninga. Þetta hefur alltaf kostað mikla peninga. Alltaf. En við verðum að spyrja fyrst og skjóta svo. Annað er okkur ekki samboðið.