30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Hér hefur nú ýmislegt bæði margt og merkilegt komið fram en einnig að vísu mjög margt ómerkilegt. Ég verð þó að segja það alveg hreint eins og er að ræða hv. þm. Ingvars Gíslasonar opnaði augu mín fyrir því að e.t.v. leynist með honum sá neisti að hann, eins og hann reyndar sagði sjálfur, ætlaði ekki að kyngja þessu bulli, sem oltið hefur hvað eftir annað upp úr hæstv. menntmrh., og að hann mundi ekki samþykkja lagabreytingu. En markmið laga um námslán, þeirra sem nú eru í gildi, er að gera öllum kleift að stunda nám, að afla sér menntunar. Það er sem sagt markmiðið að stuðlað verði að jafnrétti til náms.

U.þ.b. 40% þeirra sem eiga rétt á námslánum hér á landi sækja um námslán. Þannig er staðan í dag. Það væri út af fyrir sig áhugavert verkefni og verðugt að kanna þann hóp fólks sem rétt á til láns en sækir ekki um. Hæstv. menntmrh. hefur með afskiptum sínum af námslánakerfinu öllu, með brottrekstri framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna, með afnámi reglugerðar um námslán og með flausturslegum vinnubrögðum og yfirlýsingum reynt að telja þjóðinni trú um að með námslánin sé bruðlað. Að með þau sé mikið bruðlað. Námsmenn eru útmálaðir sem afætur á kerfinu, fólk sem dundi sér, sér og sínum til yndis, við það að sitja á skólabekk á kostnað - já, á kostnað þessa lands.

Ég vil segja að þó ekki kæmi neitt annað til þá virkar allt þetta upphlaup ráðherrans rétt eins og vantraust á störf fyrrverandi menntmrh. Vantraust vegna þess að hún hafi látið viðgangast alla þessa óráðsíu hjá Lánasjóði ísl. námsmanna, og að hún skyldi ekki hafa tekið til hendinni og sópað út eins og hæstv. menntmrh. taldi rétt að láta verða eitt sitt fyrsta verkefni í embætti. Og eins og hann réttilega gat um áðan að þar vantaði aga. Það er sá agi sem hún greinilega hefur látið eiga sig að sýna. Þess vegna er það að þessar yfirlýsingar hæstv. menntmrh. eru í raun vantraustsyfirlýsingar á hæstv. fyrrv. menntmrh.

Hæstv. menntmrh. hefur á afar kæruleysislegan hátt dregið fram tölur úr gögnum Lánasjóðs ísl. námsmanna sem hafa að hans mati átt að sýna fram á sældarlíf námsmanna. T.d. að þeir hafi fengið yfir 2,5 millj. kr. sem þeir þurfi ekki að greiða til baka. Það er þá meira sældarlífið. Til samanburðar má geta þess að það er nákvæmlega sama upphæð sem nýjasti ráðherrabíllinn kostaði, eða 2,5 millj. kr. Ef haft væri fyrir því að sýna slíkt fordæmi af hálfu ríkisstjórnarinnar að eftir væri tekið og talið til eftirbreytni þá væri hálfur sigur.unninn í því efni að boða niðurskurð.

Þá hafa starfsmenn Lánasjóðs ísl. námsmanna orðið fyrir ómaklegum aðdróttunum á svipaðan hátt. Tíundaðar hafa verið yfirvinnustundir eins starfsmanns sjóðsins í einn mánuð. Og með ofurháum tölum um laun þessa eina manns, þennan eina mánuð, hefur hæstv. menntmrh. talið þjóðinni trú um að það sé verið að bruðla með opinbert fjármagn. Staðreyndir þessa máls um Lánasjóð ísl. námsmanna eru að öllum líkindum víðs fjarri því sem ráðgjafar hæstv. ráðh. halda að honum. Ætla má að með eftirliti um framvindu náms og með tekjueftirliti því, sem starfsmenn Lánasjóðs ísl. námsmanna sinna, sparist 2-300 millj. á hverju ári. Hæstv. menntmrh. einblínir hins vegar á óeðlilega yfirvinnu starfsfólksins. Þetta allt heldur hæstv. ráðh. áfram að nota sem röksemd þrátt fyrir að margsinnis hafi verið reynt að skýra út fyrir honum og ráðgjöfum hans að við stofnunina hefur verið unnið að tölvuvæðingu á upplýsingagögnum og afgreiðslugögnum, sem m.a. hefur gert það að verkum að um hefur verið að ræða feiknamikið starf hjá starfsmönnum sjóðsins. Enda hefur það óðum verið að koma í ljós við þá úthlutun sem nú á sér stað úr sjóðnum að sú vinna er að skila sér í bættum afköstum sem m.a.. kemur fram í hraðvirkari afgreiðslumáta en áður hefur tíðkast og verið hægt að veita. Þrátt fyrir þetta þrástagast hæstv. menntmrh. á þessari útslitnu tuggu um óeðlilega yfirvinnu starfsfólksins.

Þess vegna hvarflar það óneitanlega að manni að miklu líklegra sé að fyrir ráðgjöfum hæstv. ráðh. menntamála - sem áðan voru nú kallaðir héðan úr ræðustól púkar á öxlum hans - vaki það fyrst og fremst að losa ríkið við námsmenn. Með öðrum orðum að hrekja fólk frá lánasjóðnum, að það sé álit þeirra að allt of margt fólk sæki um námslán. Ég vil í því sambandi vitna í fréttaskýringu sem birtist á síðum Morgunblaðsins í dag. Af innlendum vettvangi, heitir það eftir Óla Björn Kárason, en hann vitnar í drög að frv. að lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem þm. hafa nú ekki fengið að sjá enn þá en eru honum greinilega mjög vel kunn. Með leyfi herra forseta:

„Þá er einnig bent á mikilvægi þess að sjóðurinn verði fjárhagslega, sjálfstæður þ.e. endurgreiðslur standi undir útlánum.“ Og síðar segir: „Vegna þess að hagur þjóðfélagsins af háu menntunarstigi er mikill, er talið rétt að námslán beri lægri vexti en markaðsvexti þannig að þau séu ætíð í hópi hagstæðustu lána. Undir þessi síðustu orð skal tekið, en jafnframt er dregið í efa að markmiðið með 3% raunvöxtum náist, þ.e. draga úr eftirspurn eftir lánum.“

Herra forseti. Hér er þeirri fréttaskýringu beitt að tilgangurinn sé að draga úr eftirspurn eftir lánum og dæmi svo hver fyrir sig.

Önnur röksemd hæstv. ráðh. og mikilvægt veganesti er sú skoðun fylgisveina hans að námslán beri að greiða að fullu til baka. Er þá aftur gripið til dæma, sem eru algerar undantekningar, með því að benda á þá námsmenn sem skulda allra mest og ekki greiða nema hluta námslánanna til baka á þeim 40 árum sem þeim er gert að greiða lánið til baka. Staðreyndirnar eru allt aðrar en þessi undantekning. Langflestir námsmanna munu greiða lán sín að fullu til baka samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru. Sé miðað við allan þann hóp sem tók lán eftir 1982 er gert ráð fyrir því að endurgreiðslan nemi 85-90% af upphaflegu námslánunum með vísitölu ofan á. Í dag nemur endurgreiðsluupphæðin 3,75% af heildartekjum einstaklinga eins og þær eru eða verða að afloknu námi. Það lætur nærri - og ég bið hv. þm. að veita orðum mínum vel athygli - að þetta sé sama upphæð og ef tekjuskattur þessa fólks yrði hækkaður um 50%. Og þá er miðað við ástandið eins og það er í dag. Þetta er hin margfræga greiðslubyrði eða öllu heldur það sem úthrópað hefur verið sem gjöf samfélagsins til námsmanna. Þetta samsvarar því að tekjuskattur meðalskattgreiðanda hækkaði um 50%. Og þá reikna ég með því að tekið sé mið af þeim forsendum, sem í gildi eru, eða þeirri staðreynd að að meðaltali greiða menn 7-8% af brúttótekjum sínum í tekjuskatt. Endurgreiðsluupphæðin nemur sem sé 3,75% af heildartekjum einstaklinga eins og þær eru eða verða að afloknu námi. Það má þess vegna segja að það jafngildi því að tekjuskattur þessa fólks yrði hækkaður um 50%.

Nei, því miður bera vinnubrögð hæstv. menntmrh. þess ekki vott að skynsamlega sé á málum haldið. Getgátur um velsæld námsmanna og ómaklegar árásir á starfsfólk Lánasjóðs ísl. námsmanna er engum til sóma. Í fyrsta lagi skulum við vera þess minnug að ganga má út frá því sem vísu að lánskerfið hefur að öllum líkindum gert fleirum en ella kleift að stunda nám. Ef ekki nyti við þessara lána gætu hinir fjölmörgu námsmenn, sem í dag leita til Lánasjóðs ísl. námsmanna, alls ekki stundað nám. Svo einfalt er það nú.

Það á ekki með undantekningardæmum að brjóta niður námslánakerfið eins og nú virðist ætlun yfirvalda. Þetta kerfi, eins og það er uppbyggt í dag, stuðlar að jafnrétti til náms. Inn í umræðuna um námslánin hafa blandast vangaveltur um það hvort það sé hlutverk námslánakerfisins að framfleyta fjölskyldum sem tryggingar og almannasjóðir ættu í reynd að styrkja. U.þ.b. 400 börn einstæðra foreldra sem eru í námi fljóta hér með. En samtals munu um 3000 börn vera í fjölskyldum námsmanna sem njóta námslána. Samanburður er gerður á dagvinnutöxtum verkafólks og námslánum. En því miður er það nú svo að þessi umfjöllun öll og samanburður er okkur til háborinnar skammar. Lágtekjufólkið, sem býr í leiguhúsnæði eða er að berjast við að koma yfir sig eigin húsnæði, hefur smánarkjör og lifir ekki af þeim. Það sama gildir um námsmenn sem hafa þunga framfærslu. Við leysum hins vegar engan vanda með því að útiloka þetta fólk frá námi með skertum námslánum.

Síðustu tilkynningar hæstv. ráðh. menntamála þjóðarinnar hljóða upp á það að í framtíðinni skuli styrkja þá til náms sem koma þjóðinni að gagni. Eða eins og það hefur verið orðað: „Fyrir efnilega stúdenta í þjóðhagslega hagkvæmu námi.“ Hver skyldi nú eiga að beita þeirri mælistiku? Og hvort skyldi nú verða notast við kvarða Framsfl. eða Sjálfstfl.? Þetta yrði líklega eitt deilumálið enn milli þessara ríkisstjórnarflokka. Sjálfsagt vakir fyrir hæstv. ráðh. að þeir njóti styrkja sem hyggja á nám sem fleyta muni þjóðinni fram á við - hvað sem það nú annars þýðir og hver sem á að meta hvort svo er. Þannig munu t.d. þeir sem leggja stund á andleg fræði einskis njóta. Það var minnst hér áðan á Einstein og það sem hann var að dútla við og hversu mikla styrki hann hefði fengið. En tökum eitt dæmi: Fyrir stuttu síðan andaðist einn af mestu andans mönnum þessarar þjóðar, Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Dettur einhverjum í hug að hann nyti eins eða neins úr forðabúri frjálshyggjunnar hefði hann verið að hefja nám á þessu herrans ári 1986, í svo vitagagnslausum fræðum sem íslensk fræði hljóta að vera samkvæmt skilgreiningu ráðherrans: Fyrir efnilega stúdenta í þjóðhagslega hagkvæmu námi?

Því miður. Aðgerðir hæstv. ráðh. hafa að undanförnu verið með þvílíkum endemum að engu tali tekur, enda tekur því varla að tíunda síðustu afrekin er reglugerð var afnumin, síðan endurvakin og með viðbót sem kostar ríkið 150 millj. kr. í ofanálag við 600 millj. kr. gat sem var í fjárlögum fyrir árið 1986, miðað við áætlanir Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er auðvitað sjálfsagt að endurskoða og endurskipuleggja allar stofnanir og kerfi sem sett hafa verið á stofn, og ekki síður þetta heldur en önnur. En það má bara ekki byrja á öfugum enda vegna þess að slíkt leiðir ekki ætíð góðs.

Herra forseti. Það reynir á stjórnarsamstarfið í þessu máli. Hér takast á nýhyggjusjónarmið frjálshyggjunnar í Sjálfstfl. og verndun jafnréttis til náms. Greinilegt er að þar eru sem betur fer samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn ekki sammála og hv. þm. Ingvar Gíslason er sammála mér og fleirum um það að niðurrif námslánakerfisins leiðir til ójöfnuðar í þjóðfélaginu. Og svo er vonandi farið um sem flesta hv. þm.

Herra forseti. Við erum þó alltént að tala um okkar eigin börn og möguleika þeirra til náms í framtíðinni. Ég vonast til að við berum gæfu til að vera skynsöm og sýna skilning og þá sanngirni, sem leiða muni til farsældar fyrir framtíð þessa lands, sem, hvernig sem á málið er litið, hlýtur m.a. að vera það unga fólk sem leggur það á sig að stunda nám við þær aðstæður sem því eru búnar.