30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það vakti athygli mína í málflutningi hv. 4. landsk. þm., og hefur gert það reyndar áður, hversu hetjusagnir hans úr bernsku og frá unglingsárum virðast allar vera sóttar í hugmyndaheim vestur til Ameríku. Hetjur hans eru einhverjir náungar sem heita Jón hinn hégómlegi eða Vísunda Billi eða aðrir slíkir, en mér hefur heyrst á sveitunga mínum frá Djúpi, hæstv. menntmrh., að hans hetjur væru kannske meira sóttar í sögur eins og Fóstbræðrasögu, af þeim görpum Þormóði og Þorgeiri. Kannske væri nær að líkja samskiptum hæstv. menntmrh, við hinn brottrekna framkvæmdastjóra lánasjóðsins við samskipti garpsins Þorgeirs Hávarssonar þegar hann á suðurleið sá karl húka fram á staf og stóðst ekki freistinguna að láta höggið ríða af því að hann lá svo vel við höggi. (Gripið fram í: Það var á Hvassafelli.) Var það á Hvassafelli? Jæja.

Það vakti líka athygli mína að hv. 1. þm. Norðurl. e., hæstv. fyrrv. menntmrh., kvaðst ekki haldinn neinum skörungskomplexum og beindi því til eftirmanns síns að láta nú skörungsskap sinn koma annars staðar niður heldur en í umræddum lánasjóði, svo sem eins og þegar þeir félagar tóku til hendinni á námsárum sínum í galeiðuþrældómi á togurum, skildist mér, eða í steypuvinnu sem þeir hefðu auðvitað ekki gert nú samkvæmt núgildandi reglum eða hvað, hæstv. ráðherrar núverandi og fyrrverandi?

Ég nenni ekki að þæfa þetta mál lengi af þeirri einföldu ástæðu að þótt sveitungi minn hæstv. menntmrh. hafi ekki staðist freistinguna að láta höggið ríða hefur hann margtíundað það að hann hafi engar tillögur fram að færa. Hann hefur að vísu haft uppi stór orð um þennan sjóð, bágborinn rekstur hans, ábyrgðarleysi, vitlausa áætlunargerð, lélega nýtingu fjármuna, en honum er eiður sær að hann hafi uppi nokkrar tillögur og allsendis ótímabært að ræða þær eða kynna þær. Hann hefur ekki kynnt þær. Hann hefur ekki mátt vera að því að ræða þær við formann í eigin flokki. Hann hefur ekki, þrátt fyrir góðan vilja, mátt vera að því að ræða þær við forvera sinn og „samstarfsflokk svokallaðan“, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. kallaði það, samstarfsflokk svokallaðan. Hann hefur reyndar ekki séð þessar tillögur og og varla séð þessa nefnd sem er að vinna að tillögunum. Meðan svo er er auðvitað öldungis ótímabært að við stjórnarandstæðingar séum að láta einhver orð falla um eitthvert slúður úr blöðum, einhverjar tillögur einhverrar leyninefndar sem hvergi er neitt að sjá um nema þá í slúðurdálkum blaða.

Hitt er auðvitað gamanmál þegar hæstv. ráðherra gerir það að forsendu sinni fyrir brottvísan starfsmanns að hann sé bágborinn áætlunarmaður. Þegar við ræddum hér fjárlög fyrir jól urðu ýmsir til þess að rifja upp árangurinn af áætlunargerð hins opinbera. Reyndar minni ég á að við þær umræður rifjaði ég upp og vitnaði í formann Sambands ungra sjálfstæðismanna sem hafði í ágætu erindi hjá Hagfræðingafélaginu farið í gegnum reynsluna af áætlanagerð fjmrh. s.l. áratug eða svo og fjmrn. þar sem skakkaði aldrei minna en nokkrum þúsundum milljóna á því hversu mikið áætlanir þeirra voru út í bláinn. Reyndar hélt hann því fram að öll fjárlagagerð ríkisins væri tóm della, þ.e. tekjuöflunin byggð á mjög veikum forsendum, útgjaldaáætlanir allar byggðar á tilbúnum forsendum, vanáætlanir stórkostlegar, enda skemmst að minnast reynslu hæstv. fyrrv. fjmrh. sem lagði hér fram fjárlagafrv. þar sem gert var ráð fyrir 700 millj. kr. hagnaði og endaði með tæplega 3 milljarða dúndrandi halla. Þetta er svona dæmigert fyrir áætlunargerð ríkisins í fjármálum.

Sennilega er þeim einhver vorkunn þarna uppi í sjóði. Í fyrsta lagi var það ekki framkvæmdastjórinn sem bar ábyrgð á þessari áætlunargerð. Óvissuþættirnir hjá þeim eru fleiri. Þeir þurfa að spá í gengi, þeir þurfa að spá í verðbólgu, þeir þurfa að spá í fjölda námsmanna, þeir þurfa að spá í ýmsa hluti sem þeim í fjmrn. hefur illa tekist að spá í. Kannske er þetta bara eins og með hann Þorgeir Hávarsson; kannske ekki mjög skynsamlega að farið að byrja á því að reka þennan framkvæmdastjóra, hengja kannske bakara fyrir smið áður en hæstv. ráðh. er farinn að leggja niður fyrir sér hverju hann vill breyta. Hann er gagnrýninn á sukk og óstjórn en ekki búinn að leggja niður fyrir sér hverju hann vill breyta. Hann er búinn að magna upp draug, þ.e. allt slúðrið í blöðunum. Það er búið að eigna honum ákveðnar tillögur og hann er búinn að magna upp óvild og fjandskap og geðshræringar þúsunda námsmanna. Honum hafa láðst þau hyggindi að ræða svolítið við svokallaðan samstarfsflokk og hefur stefnt málinu yfirleitt í þá stöðu að það er allsendis óvíst að nauðsynlegar breytingar á þessum nefnilega ágæta sjóði nái fram að ganga vegna vinnubragðanna.

Ég er annars hingað kominn fyrst og fremst til þess að svara einni fsp. frá hæstv. ráðh. Mig undrar það nefnilega að hæstv. stjórnarandstæðingar hafa ekki virt hæstv. ráðh. svo mikils að svara þessari spurningu hans. Þó hann hafi sjálfur engar tillögur fram að færa um það hvernig hann ætli að breyta þessum sjóði eða reglum hans spurði hann: Hverjar eru tillögur stjórnarandstæðinga um það hvernig eigi að mæta þeirri fjárþörf, sem nú liggur fyrir frá þessum sjóði, umfram það sem heimilað var í fjárlögum, 450-500 millj.?

Rifjum aðeins upp: Við fjárlagaafgreiðsluna samþykktum við 865 millj., ef mig minnir rétt, í framlögum frá ríkissjóði. Í lánsfjárlögum var af báðum svokölluðum samstarfsflokkum samþykkt 400 millj. kr. erlend lántaka, dollaralán, gengistryggð, á 9% raunvöxtum til endurlána vaxtalaust. Síðan segir hæstv. ráðh.: Til viðbótar vantar 450-500 millj. Og hvað leggur stjórnarandstaðan til? Hvar á að sækja þá peninga? Hann spyr: Á að sækja þá í vasa skattgreiðenda eða á að bæta þeim við þessar 60-70 þús. millj. kr. sem við þegar höfum tekið í langtímalánum erlendis frá? Og hverjir eiga svo að borga það þegar þar að kemur?

Ég ætla að svara þessari spurningu fyrir mitt leyti. Ég ætta nefnilega að rifja það upp fyrir hæstv. ráðh. hvað gerðist við fjárlagaafgreiðslu. Þá gerðist það m.a. að því er varðaði lánsfjárlög að sá sem hér stendur lagði það til að heimildir Lánasjóðs ísl. námsmanna til erlendrar lántöku yrðu minnkaðar um helming úr 400 millj. í 200 millj. og hefði náttúrlega verið æskilegast að þurrka þær út með öllu því það er frámunaleg heimska að ætla að reka slíkan sjóð með erlendum lántökum. En okkar tillaga var sú að lækka þær alla vega um 200 millj.

Í annan stað fluttum við við fjárlagaafgreiðslu tillögur um að auka framlög ríkisins um 200 millj. og bæta þar með lánagetu sjóðsins um meira en sem því svarar vegna þess að vaxtabyrðin og vaxtabilið milli lántöku og útlána hefði þá orðið miklum mun minna.

Og það var ekki bara þetta. Við lögðum raunverulega fram önnur fjárlög sem svara fullnægjandi fsp. hæstv. ráðh. Við lögðum fram fjárlagatillögur þar sem við gerðum ráð fyrir því að minnka útgjöld ríkisins um rúmlega 2000 millj. Við lögðum fram tillögur um það að fækka ríkisstofnunum. Við lögðum fram tillögur um það að hætta að gefa atvinnurekendum og samtökum þeirra þjónustu á vegum hins opinbera heldur ætlast til þess að atvinnuvegirnir greiði sjálfir þessa þjónustu. Við lögðum til að velferðarkerfi fyrirtækjanna, upp á 3 milljarða, yrði aflagt af fjárlögum. Við lögðum til með þessum hætti að ný erlend lán ríkissjóðs og ríkisgeirans yrðu minnkuð um 1700 millj. Jafnframt tókst okkur að koma hlutunum þannig fyrir að greiðsluafgangur ríkisins hefði verið meiri á þessu ári heldur en áætlaður var af stjórnvöldum.

Svör okkar við fsp. hæstv. ráðh. eru mjög skýr. Við erum algjörlega andvígir því að Lánasjóður ísl. námsmanna verði rekinn á erlendum lánum, algjörlega. Í annan stað: Við gerðum tillögur um gjörsamlega breytt tekjuöflunarkerfi ríkisins sem gæti skilað ríkissjóði auknum tekjum, en lánasjóðinum upp á kannske 1-2 þús. millj. verður ekki haldið uppi nema með skattlagningu. Honum verður ekki haldið uppi með erlendum lánum. Það er dálítið athyglisvert að enginn af stjórnarandstæðingum skyldi hafa vikið að þessu einu einasta orði, ekki einu einasta orði. Og það er dálítið merkilegt að stjórnarliðar, sem sjálfir gengu frá kolvitlausum fjárlögum, sem munu bregða sem svarar svona 3000 millj. frá því sem þeir samþykktu núna fyrir jól og þangað til þau fjárlög verða gerð upp um áramót - það er dálítið skondið að stjórnarliðar sjálfir með hæstv. menntmrh. í fararbroddi eru að spyrja stjórnarandstöðuna um slíkar tillögur. Sjálfir tóku þeir þátt í því að leggja þær byrðar á þennan lánasjóð að taka 400 millj. kr. af erlendu fé í þennan sjóð og ráku þó allt á dúndrandi halla, allan ríkisgeirann, byggðu alla þessa draumóra sína í hinum opinbera geira á lántökuþörf upp á 12 300 millj. og gerðu ráð fyrir því að taka ný erlend lán upp á 8300 millj. Hvílík speki, þvílík fjármálasnilld, þvílík fyrirmynd til handa hinum ungu mönnum í lánasjóðnum.

Það má bæta við: Er sá sem hér stendur reiðubúinn að lýsa því yfir að hann sé ánægður með núverandi skipan lánasjóðsins? Vil ég óbreytt lög og óbreyttar reglur? Mitt svar við því er nei. Og hvers vegna ekki? Hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti hér mjög þekkilega ræðu, húmaníska og góða ræðu sem var honum til sóma og ánægjulegt að heyra hana. Hann sagði, ef ég skildi hann rétt: Hér á engu að breyta. Þetta eru góð lög, þetta eru réttlát lög, þetta eru lýðræðisleg lög og í guðanna bænum, hæstv. menntmrh., firr okkur skörungsskap þínum og láttu lögin í friði.

Nú er spurningin: Er það virkilega svo að þetta séu svo góð lög? Hvað hef ég við þau að athuga? Það er tvennt eða þrennt. Árið 1983 kom til valda ríkisstjórn sem báðir þessir heiðursmenn styðja, annar sem ráðherra og hinn sem stuðningsmaður óbreyttur, en áhrifamaður í sínum þingflokki, skulum við segja. Fyrsta verk og reyndar eina verk þessarar ríkisstjórnar, sem máli skiptir, var það að afnema vísitölukerfi launa. Laun höfðu áður verið tengd framfærsluvísitölu. Munurinn á launum eftir það og lánum til námsmanna er sá að lánin til námsmanna voru áfram vísitölutengd, þ.e. þau eru byggð á framfærslu og hækka með framfærslukostnaði og það gerist á nokkurra mánaða fresti reglulega. Hver er niðurstaðan? Ef við tökum nóvemberverðlag er niðurstaðan sú að fólk á vinnumarkaðinum, t.d. einhleyp kona með tvö börn sem vinnur í BÚR, fær fyrir sína vinnu 16 þús. kr. á mánuði, einstæð kona með tvö börn. Hæstv. ráðh. var að upplýsa það hér áðan að einstæð kona við nám með tvö börn fengi í lánasjóði lán sem gæti verið á bilinu 50-60 þús. kr. Þetta sagði hæstv. ráðh. Með öðrum orðum: munurinn á launum hinnar einstæðu konu í BÚR og þá þeim lánum sem hin konan, samkvæmt upplýsingum ráðherra, ætti að geta fengið er ekki smálítill, 16 þúsund í samanburði við 50-60 þús. Ef menn hins vegar rengja þessar tölur þá geri menn það. Ég er að vitna til orða ráðherrans sjálfs.

Spurning: Er þetta réttlátt, er þetta sanngjarnt, er þetta eðlilegt, eigum við að styðja þetta? (Gripið fram í.) Er þetta satt? Já. Ef það er satt er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé sanngjarnt, réttlátt og eðlilegt. Af hverju ekki? (Gripið fram í.) Vel má vera að það þurfi ekki að breyta lögunum. Það er hins vegar sjónarmið ef ég les rökstuðning málsvara lánasjóðsins, sbr. þessa bók, Upplýsingar um Lánasjóð ísl. námsmanna - sjónarmið þeirra að það sé lögbrot ef Alþingi skerðir framlög til sjóðsins þannig að hann geti ekki úthlutað samkvæmt óbreyttum lögum og reglum, þ.e. á grundvelli hækkandi framfærslukostnaðar, samkvæmt áætlunum sjóðsins. Því er haldið fram að það sé lögbrot og krafan er sú að Alþingi sjái til þess að framkvæmdavaldið standi við lög. En ég endurtek: Munurinn er þessi, ef upplýsingar ráðherrans eru réttar, á nóvemberverðlagi 16 þúsund á móti 50 til 60 þús.

Hverjir borga þennan mun? Þetta er auðvitað millifærslukerfi í þjóðfélaginu og það er greitt af sköttum. Hverjir borga skatta á Íslandi? Það ættu hv. alþm. að vera farnir að vita. Þeir sem borga skatta á Íslandi eru hinir efnaminni, fyrst og fremst, það eru launþegar í landinu og hinir efnaminni. Hverjir borga ekki skatta á Íslandi eða hafa sjálfdæmi um skatta? Það eru hinir efnameiri. Er þá þetta kerfi tekjujafnandi og er það réttlátt? Er það réttlátt að af skattpeningum launþega á Íslandi hverra launum er með lögum stjórnvalda búið að þrýsta niður á þetta stig - og um leið greiða þeir af þessum hungurlaunum skatta sína og útsvör - sé greitt með þessum hætti til námsmanna? Menn svari hver fyrir sig. Mitt svar við því er að þetta geti ekki staðist.

Því er haldið fram, og það er staðfest hér á skýrslum, að námsaðstoðin hér sé rausnarleg í samanburði við aðrar þjóðir. Því er t.d. haldið fram að hún sé talsvert ríflegri en Danir telja sig hafa efni á, eða sem svarar, miðað við 1983-verðlag, 26% hærri, og hærri en Svíar telja sig hafa efni á. Það er upplýst, a.m.k. að því er varðar Svía, að vextir séu greiddir af slíkri námsaðstoð.

Spurningin er: Þjóðfélag eins og okkar, sem er í djúpri efnahagslegri kreppu, fyrst og fremst af mannavöldum, af völdum heimskulegrar og lélegrar hagstjórnar, ekki bara þessarar ríkisstjórnar heldur ríkisstjórna þar á undan: á hverju hefur það efni? Hefur það efni á því að gera þannig upp á milli manna að ætla einstæðri móður á vinnumarkaðinum 16 þús. kr., en ætla kynsystur hennar í svipaðri aðstöðu með jafnmörg börn á framfæri 50-60 þús. skattfrjálst?

Mál númer tvö: Er það eðlilegt kerfi og eigum við að leggja blessun okkar yfir það að námslánin séu með einum eða öðrum hætti vinnuletjandi, þ.e. að menn séu ekki hvattir til þess að afla tekna eftir því sem þeir geta vegna þess að það bitni á þeim, mönnum sé refsað fyrir það að afla tekna? Flestir mundu nú svara því á þann veg að það væri ekki æskilegt og mjög margir nemendur, mjög margir stúdentar, taka undir það að þessu þurfi að breyta. Þetta kann að vera erfitt í framkvæmd, og það kom fram í máli eins ræðumanns að ef þessu væri breytt mundi það þýða að hundruð námsmanna, sem nú hafa of miklar tekjur og sækja ekki um, mundu sækja um slíkt lán. Þá svara aðrir: Mundu menn gera það ef þessi lán bæru 1% vexti, ef þetta væru m.ö.o. lán? Og ef endurgreiðslan væri ekki skert, miðað við eitthvert hlutfall af tekjum, heldur væru lánin meðhöndluð eins og hver önnur lán sem menn yrðu að greiða aftur til baka, a.m.k. verðtryggð, hugsanlega með 1% vöxtum, alla vega greiða til baka? Þetta kann að vera erfitt í framkvæmd.

Þriðja atriðið, sem verður að fást upplýst ef á að taka einhverja afstöðu í þessari umræðu, er þetta með endurgreiðslurnar. Menn spyrja: Er það rétt, sem hér hefur verið haldið fram af hverjum ræðumanni á fætur öðrum, að þetta sé lánakerfi? Eru lán í reynd endurgreidd? Hvert er þetta endurgreiðsluhlutfall? Ég ætlast til þess að hæstv. menntmrh. gefi upplýsingar um það.

Ég hef hér í höndum skýrslu um Lánasjóð ísl. námsmanna sem tekin var saman fyrir fyrrv. menntmrh. af fyrirtæki sem heitir Könnunarstofan hf.,

Rannsóknir og kannanir - Ráðgjöf um rekstur og stjórnun. Dagsett 5.3. 1984. Í þessu riti er því haldið fram, fullum fetum, að áætlanir frá 1976 og 1982 um endurgreiðsluhlutfall, 66% og 88%, séu fjarri öllum sanni, standist engan veginn. Í raun og veru er því haldið fram að endurgreiðsluhluttallið að því er varðar fyrri spána, 66%, megi áætla á bilinu 46 til 55 og að því er varðar seinni spána, 88%, geti það að líkindum orðið einhvers staðar í kringum 75%, ef ég man rétt. En það er ekki öll sagan sögð með því. Hér eru birtar töflur yfir tímabilið 1971-1983 þar sem rakið er hvað framlag ríkissjóðs er hátt hlutfall af ráðstöfunarfé lánasjóðsins, allt á verðlagi 1983. Framlag ríkissjóðs er sem hlutfall af ráðstöfunarfé yfirleitt á bilinu frá því um 50% upp í 70, 80 og 90% framan af en síðan svona á bilinu 60 til 70% seinni árin. Tekin lán voru framan af í hófi en einkum eftir árið 1979-1980 fóru þau vaxandi. Erlend lán sem uppruni ráðstöfunarfjár eru þetta á bilinu frá 27 og upp í 35%. Síðan kemur heil tafla yfir endurgreiðslur, afborganir og vexti af fyrri lánum sem hlutfall af ráðstöfunarfé og það er á árabilinu 1971-1983 og það er upp að telja: 3%, 2,3%, 2,1%, 2,7%, 1,9%, 2,8% og síðan áfram upp í 4,5%, 4,4%, 5,6%. Í þessari sömu könnun segir svo, með leyfi forseta:

„Á árabilinu 1971-1983 nemur framlag ríkissjóðs til LÍN 2482 millj. kr. Þetta framlag eykur höfuðstól sjóðsins aðeins um 1,1 milljarð kr. rúmlega. Mismunurinn, 1334 millj., er horfinn. Á þá upphæð má líta sem kostnað við lánsfjármagnið og rekstur sjóðsins.“

Árið 1976 var tekin upp verðtrygging. Samt sem áður eru þessar tölur birtar og ég vek athygli á því að aðalböl þessa sjóðs er það að einkum og sér í lagi eftir 1979 var hann rekinn á erlendum lánum, sem þýðir að uppbygging á eiginfjárstöðu sjóðsins fram í tímann var eyðilögð rétt eins og gert var við Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna af sömu ríkisstj. og sömu ráðamönnum, m.a. af flokki þess manns, Alþb., sem hóf þessa umræðu hérna áðan. Eru menn kannske eitthvað ósammála þessari athugasemd? Nei. Í þessari skýrslu sérfræðings sjóðsins segir svo í grg. eftir Guðmund Sæmundsson á bls. 2, með leyfi forseta:

„Frá árinu 1979 hefur sú vonda venja verið tekin upp að láta sjóðinn taka stórar fúlgur að láni. Í upphafi var þetta gert vegna þess að fjárframlög nægðu ekki og er þá fyllt upp í skarðið með lántökuheimild. Síðan varð þetta að venju, þ.e. að gera frá upphafi ráð fyrir að greitt yrði of lítið fé til sjóðsins á fjárlögum en bæta svo við með lántökum. Ljóst er að þetta er slæm ráðstöfun og ákaflega óhagkvæm, bæði fyrir sjóðinn og ekki síður fyrir stjórnvöld og þjóðina alla því að auðvitað þarf að greiða öll þessi lán.“

Svona fjármálastjórn á ekkert skylt við tilraun til að byggja upp félagslegt tekjujöfnunarkerfi. Þetta er ábyrgðarlaus stjórnsýsla manna sem hreinlega vita ekkert hvað þeir eru að gera eða gefa skít í það hvaða afleiðingar þetta hefur, vegna þess að þetta þýðir að svo langt sem litið verður fram í tímann, 10 ár fram í tímann, þá mun endurgreiðsluhlutfall þessa sjóðs ekki lagast að ráði. Fyrir því hef ég orð sérfræðinga sem eru þaulkunnugir þessum málum.

Menn geta ekki gert ráð fyrir því miðað við t.d. hvort tveggja, fyrirsjáanlega fjölgun lántakenda í sjóðnum og takmörkun endurgreiðslu. Fjölgunin er núna ekki eins og áætlað var hér 3% á ári heldur 20% á næsta ári.

(Gripið fram í: Á hvaða ári?) Ég er að tala um áætlun um fjölgun nemenda, þ.e. fjölgun lántaka sjóðsins. Þar eru mínar upplýsingar þær að í starfi nefndarinnar, sem vann að undirbúningi löggjafarinnar 1982, hefur verið gert ráð fyrir því að lánþegum mundi fjölga milli áranna 1983 og 1984 að meðaltali um 3%. Staðreyndin varð aftur á móti sú að fjölgunin varð 20,6%. Þar munar langmest um gífurlega fjölgun nemenda í sérskólum hér innanlands sem varð 49%.

Af því að hæstv. fyrrv. menntmrh. vitnaði í líkanið góða sem á að vera inni í menntmrn. verður að geta þess að þessi tala, áætlunartala um 3% fjölgun nemenda, er í því ágæta líkani alveg eins og áætlanirnar um endurgreiðsluhlutfallið. Munurinn er sem sé á þessu árabili, 1983-1984, orðinn 17% að því er varðar áætlaða fjölgun nemenda og ef upplýsingarnar eru réttar, sem hér er að finna í þessari skýrslu, þá eru spárnar um endurgreiðsluhlutfallið líka ákaflega tvísýnar.

Ég hef gert hér þrennt að umtalsefni, herra forseti:

1. Samanburðurinn milli námsstyrkja og lána á vinnumarkaðinum.

2. Efasemdirnar eða spurningarnar um hvert endurgreiðsluhluttallið er og hvert það getur orðið.

3. Spurningin um hvernig kerfið virkar að því er varðar hvatningu manna til að afla tekna jafnhliða námi.

Þetta eru kannske að mínu mati stærstu efasemdirnar um núverandi kerfi. Hins vegar er aðalspurningin þessi, svo að ég dragi þetta allt saman í eina spurningu: Er núverandi kerfi raunverulega tekjujafnandi? Menn halda enn í dag að skattakerfið á Íslandi sé tekjujafnandi. Það er það ekki. Það er mismunandi vegna þess að íslenska skattakerfið flytur tekjur frá hinum efnaminni til hinna efnameiri. Menn héldu að húsnæðislánakerfið væri tekjujafnandi. Það er það ekki. Það er stórkostlegur fjármagnstilflutningur frá hinum efnaminni og einkum og sér í lagi leigjendum og öðrum skattgreiðendum til þeirra sem eru að byggja villur, svo að ég ekki segi félagsheimili, yfir sjálfa sig og fjölskyldur sínar.

Spurningin er: Hvernig virkar þetta kerfi? Mér finnst að það vanti alla vinnu, allar upplýsingar sem máli skipta á borð þm. áður en við getum svarað þeirri spurningu óyggjandi.

Auðvitað eru kjör þeirra sem stunda nám gífurlega ólík innbyrðis. Auðvitað eru til nemendur, einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, sem stunda nám í Háskóla Íslands og eru frá bjargálna heimilum, geta búið heima hjá sér og stundað nám með tiltölulega mjög litlum kostnaði. Það er dýrara fyrir nemendur utan af landi að sækja nám. Námskostnaður manna, sem stunda nám erlendis, er mjög mismunandi.

Það liggur fyrir að stór hluti nemenda við Háskóla Íslands tekur ekki námslán. Það liggur líka fyrir sem staðreynd, þó að erfitt sé að upplýsa, að umtalsverður hópur nemenda er ekki svo vitlaus að hann neiti sér um að taka þessi lán þó að hann þurfi ekki á þeim að halda vegna þess að staðreyndin er sú að þetta eru hagkvæmustu lán sem fáanleg eru á markaðinum fyrir utan kannske byggðastofnunarlánin í tíð hæstv. fyrrv. kommissars Sverris Hermannssonar. Þetta eru einhver hagstæðustu lán á markaðinum.

Ég er ekkert að liggja á því að ég veit af tilviljun um hóp nemenda í námi í viðskiptadeild sem tók ekki námslánin fyrstu árin, þurfti ekkert á þeim að halda. En þegar þeir sáu að þeir gátu fengið þessi lán, fullnægðu þessum skilyrðum, og að þeir gátu ávaxtað þessi lán á íslenska verðbréfamarkaðinum með raunvöxtum umfram verðbólgu upp í 17% stóðust þeir náttúrlega ekki þessa freistingu.

Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta eru einstök dæmi. Ég veit einfaldlega að vaxtapólitíkin á Íslandi er orðin þannig að þess eru mörg dæmi að menn eru hættir að stunda atvinnurekstur vegna þess að þeir geta ávaxtað sitt fé miklu betur í spekúlasjón í pappír. Það liggur fyrir að menn, sem eru að stunda sitt nám í viðskiptafræði og hafa kannske einn hóp til að kanna mismunandi vaxtakjör á Íslandi, sjá sér leik á borði í að fá þarna ódýr lán til að forvalta með verulegum og dægilegum hagnaði.

Þetta er að sjálfsögðu ekki nægilegt dæmi til að fordæma heilt kerfi. En þessi dæmi, sem ég er búinn að nefna, eru næg til þess að varpa fram spurningum. Er þetta kerfi óumbreytanlegt? Er nákvæmlega þetta kerfi, þessi lög og þessar reglur það eina sem til greina kemur? Má ekki hugsa sér að breyta þessu kerfi á ýmsan hátt? Það verður ekki gert í ræðustól á Alþingi og það verður ekki gert á fjöldafundum og það verður ekki gert með þeim aðferðum sem hæstv. menntmrh. hefur notað, ekki með því að kasta fram sprengjum, vekja upp deilur, tortryggni og segja seinna: Við skulum svo skoða tillögurnar síðar meir. Þetta er mikið verk, það krefst mikillar vinnu. En við skulum engan veginn slá því föstu að það kerfi, sem við nú búum við, sé heilagt, hafið yfir gagnrýni, ekki út frá sjónarmiðum nemenda sjálfra heldur.

Það er erfitt að breyta þessu kerfi snögglega. Það er mjög mismunandi hvaða breytingar menn geta hugsað sér til skamms tíma og hvað væri til lengri tíma. Ég held t.d. að til lengri tíma sé mjög nauðsynlegt að því er varðar þróun stofnana, bæði Háskóla Íslands og annarra sérskóla hér í Reykjavík, að leggja á það áherslu að koma upp ódýru leiguhúsnæði fyrir stúdenta. Það gerist ekki nema á löngum tíma, byggja m.ö.o. fleiri stúdentagarða, tryggja mönnum aðstöðu til náms í ódýru húsnæði. Það væri ekki lítil búbót.

Það væri meiri háttar breyting til bóta - en það verður ekki gert á skömmum tíma - að lækka stúdentsprófsaldur á Íslandi og endurskipuleggja allt skólakerfið miðað við það að ná því markmiði að menn hefji sérhæft framhaldsnám fyrr en þeir gera nú. Við erum allt of gamlir þegar við byrjum þetta.

Venjur Íslendinga eru að verulegu leyti aðrar en með öðrum þjóðum, þ.e. menn byrja hér kannske fyrr að stofna til fjölskyldu og barneigna en með ýmsum öðrum þjóðum. Það gerir mönnum erfitt fyrir í námi.

Ég er ekki tilbúinn að vísa hugmyndinni um að veita óafturkræfa styrki í sumum tilvikum alfarið á bug, t.d. hugmyndinni um að styrkja menn til náms að því er varðar ferðastyrki til útlanda og frá eða að veita sérstökum styrkjum að því er varðar mjög sérhæft nám erlendis eða - eins og gert var áður um áratuga skeið - að veita styrki til afburðanemenda þó að það verði væntanlega ekki nema í tiltölulega fáum tilvikum. Þetta þarf ekkert að vera forkastanlegt og gæti verið að sumu leyti mjög æskilegt.

Ég held líka að það sé mjög skynsamlegt að gera greinarmun á því hvað er styrkur og hvað er lán.

Sjálfsagt er að reyna að leita lausna á því að námslánaeða námsaðstoðarkerfið verði ekki vinnuletjandi. Eitthvert samræmi verður að vera á milli þess sem menn taka í laun fyrir vinnu sína hér á vinnumarkaðinum og þeirrar námsaðstoðar sem í boði er. Það getur ekki staðist og er óæskilegt að hægt sé að halda því fram með rökum gagnvart vinnandi fólki að það sé verið að leg ja á það óbærilegar byrðar.

Ég vil engan veginn færast undan því að ræða þessi mál málefnalega. Ég tek að sumu leyti undir gagnrýni á núverandi kerfi. En þess er enginn kostur að taka skilmerkilega afstöðu til neinna sérstakra tillagna, sem fram hafa komið, vegna þess að þær eru engar. Málið er alls ekki á því stigi. Innanhússnefnd ráðherrans er kannske búin að gera eitthvað, það vitum við ekki um. Hann er ekki farinn að sjá þær tillögur og við vitum ekkert hvaða tillögur hann ætlar að koma fram með. Ef hv. 1. þm. Norðurl. e. er talsmaður síns flokks spáir það ekki byrlega um að þær tillögur komist í gegnum þetta stjórnarsamstarf.

Sennilega er þetta allt saman stormur í tebolla. Einu skulum við þó ganga út frá sem gefnu. Ég trúi því og treysti því, sem hæstv. ráðh. sagði í upphafi þegar þessi mál komu til umræðu við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jól, að hann muni undir engum kringumstæðum koma aftan að námsmönnum, undir hans forustu verði það ekki gert að reglum verði breytt þannig að stúdentar, sem nú eru í námi á miðju námsári, standi frammi fyrir því að þeim upphæðum, sem þeir höfðu gert ráð fyrir að fá í sinn hlut samkvæmt óbreyttu kerfi, að því verði breytt afturvirkt. Það er alla vega krafa sem ég held að allir taki undir. Og ég slæ því föstu að hæstv. ráðh. muni standa við það og tek þá sérstaklega eftir því þegar hann segir að frystingin skv. reglugerðinni frá 3. janúar sé til bráðabirgða meðan leitað sé annarra úrræða.

Að öðru leyti er öllum aðilum hollt að ræða þessi mál málefnalega. Ég vara sérstaklega við því að sú staða komi upp að allur þorri vinnandi fólks í landinu geti með réttu gagnrýnt það að þetta kerfi sé einhvers konar forréttindakerfi reist á þeirra herðum og sé gersamlega úr takt við það sem vinnandi fólk í landinu verður að sætta sig við í sínum kjörum. Það verða stúdentar að skilja og virða líka að sínu leyti.

Hins vegar er æskilegt að vinna að þessum málum þannig að það samkomulag, sem hefur verið um það að nauðsynlegt sé að hafa ákveðið kerfi til námsaðstoðar, verði sem mest. Það má helst ekki halda þannig á málum að það veki upp hugmyndafræðilegt stríð milli stjórnmálaflokka þar sem málið er málað svörtum og hvítum litum. Slíkt samkomulag hefur verið bærilegt.

Auðvitað er hægt að finna leiðir til að lagfæra vankantana á núverandi kerfi án þess að hleypa öllu í bál og brand. Til þess þarf kannske dálítið önnur vinnubrögð en hæstv. menntmrh. hefur slysast til að taka upp nú. En það er enn ekki of seint að reyna að bæta fyrir það.