30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér duttu í hug hendingar úr kveðskap þegar hv. síðasti ræðumaður var að tala um að leggja á djúpið. Ætli það sé ekki sálmur, virðulegur forseti, sem byrjar einhvern veginn svona:

Legg þú á djúpið, þú sem enn ert ungur,

og æðrast ei þó straumur lífs sé þungur o.s.frv

(ÁJ: Hann var ekki saminn til marhnúta.) Mér finnst þessi sálmur út af fyrir sig eiga ágætlega við. Þetta eru hvatningarorð Sjálfstfl. til unga fólksins sem er að leggja út í lífið núna. Það er reyndar athyglisvert það andlit sem Sjálfstfl. sýnir ungu fólki á Íslandi í dag í gegnum grímuna á Sverri Hermannssyni. Það verður ef til vill einhverjum ungum kjósendum að umhugsunarefni - þeir verða fleiri við næstu kosningar en nokkru sinni fyrr - það andlit sem þessi flokkur sýnir með þessum hætti.

En ég mun með tilliti til aðstæðna, virðulegur forseti, stytta mál mitt sem kostur er megi það verða til þess að við getum lokið þessari umræðu á þessum fundi án þess að gera á honum hlé, en það tel ég vera vilja forseta.

Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl, e. fyrir greinargóða og merkilega ræðu sem hér var flutt og hefði ég talið að þá væri fullmælt fyrir Framsfl. í raun þá hann hafði talað þó að ég ætli ekki að lasta hina þá ágætu ræðumenn sem lögðu einnig til málsins af hálfu Framsfl. En mér fannst í raun allt koma fram sem segja þurfti í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e.

Hann hefði reyndar að mínu viti mátt svara nokkuð fyrir hæstv. fyrrv. menntmrh. svo ómaklega sem hæstv. núv. menntmrh. hefur ráðist að þeim í dag sem og í öllu þessu máli. Það er reyndar óvenjulegt mjög og með endemum að heyra einn ráðherra tala þannig um ástand mála hjá forvera sínum og það jafnvel flokksbróður eða systur eins og hæstv. síðasti fyrrv. menntmrh. var. Það hefur ekki verið glæsileg aðkoman ef marka má orð hæstv. menntmrh. Öðru nær. Það hefur verið ljóta ástandið sem hann stóð þarna frammi fyrir þegar hann kom þarna til starfa. Og hverjum er það að kenna? Jú, væntanlega fyrrv. hæstv. menntamálaráðherrum, flokkssystur hans Ragnhildi Helgadóttur og e.t.v. einnig Ingvari Gíslasyni og öðrum sem gegnt hafa embætti á undan honum.

En þeir sjálfstæðismenn hafa kosið að svara hér litlu til og í þeim hópi er hæstv. heilbrrh. Ég tel það rétt naumlega með þó að hv. 3. þm. Suðurl. hafi haldið hér nokkurt ræðukorn. Hann er að vísu í Sjálfstfl., en einhvern veginn fannst mér ekki skýrast mikið afstaða þess flokks til málsins þó að hann héldi stutta tölu. Hann var þó helst bandamaður hæstv. ráðh. af þeim sem talað hafa hér í dag nema ef nefna skyldi hv. formann Alþfl., hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Það er þá orðið ágætis tríó og dálaglegt, þeir kumpánar, hæstv. menntmrh. og þessir ágætu hv. þm.

Það mætti ýmislegt um þetta mál segja, herra forseti. Ég hefði gaman af því að fara yfir þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. menntmrh. og þau rýru svör sem við þeim komu, en það hefur kannske ekki mikið upp á sig. Eins og menn heyrðu, eins og þingheimur og áheyrendur fengu að heyra er hæstv. ráðh. nú í mikilli nauðvörn, siglir lens undan vondum málstað og slakri framkomu og framgöngu í þessu máli. Ég hirði ekki um sérstaklega að hrekja hann á flóttanum meira en ástæða er til.

Það er þó eitt sem ég held að sé rétt að allir glöggvi sig á. Það er að þær breytingar sem hæstv. ráðh. hefur uppi áform um að gera til að mynda á endurgreiðslureglum námslána eru breytingar fyrir framtíðina. Það er verið að ákvarða greiðslukjör barnanna okkar, ef svo má að orði komast, og þær breytingar munu að öðru óbreyttu ekki hafa nein teljandi áhrif á fjárhag Lánasjóðs ísl. námsmanna á næstu árum og áratugum. Það verður komin ný öld, herra forseti, áður en frumvarpsdrög hæstv. ráðh. eru farin að hafa veruleg áhrif á afkomu sjóðsins að öðru óbreyttu. Það er vegna þess, sem allir mega skilja sem gefa sér tíma til að hugsa um þessi mál augnablik, að fjárhagur sjóðsins og tekjur hans í dag eru fyrst og fremst afleiðing af endurgreiðslureglum sem í gildi voru fyrir árið 1976 og að hluta til fyrir árin 1976-1982, þó í mjög litlum mæli enn þá, þannig að í þessu kerfi er mikið bil milli þess að menn taki lán og þangað til þeir hefja að borga af þeim að einhverju marki. Þetta mega allir skilja sem gefa sér tíma til að hugleiða málið þó að hæstv. menntmrh. virðist ekki hafa gert það. Annaðhvort hefur hann skort tímann til þess eða einhverjar aðrar efnislegar ástæður liggja því að baki að hann hefur ekki glöggvað sig á þessu.

Það er sem sé þannig að hæstv. ráðh. breytir ekki fjárhag og afkomu lánasjóðsins með þessum breyttu endurgreiðslureglum. Ætli hann að gera þar róttækar og snöggar breytingar þarf að gera þær með öðrum hætti og þá fyrst og fremst að skera lánin niður við trog. Það er væntanlega það sem til stendur.

Það má svo hugleiða stöðu og örlög þeirrar kynslóðar sem mundi bera greiðslubyrðina af þessum nýju reglum í augnablik. Það er kannske allt í lagi að þingheimur sem hér situr og hæstv. ríkisstj., sem hefur verið að auka erlendar skuldir þjóðarinnar, sem hefur byggt upp ákveðið neyðarástand í húsnæðismálunum, hugleiði augnablik að það er sama unga fólkið sem mundi greiða þessi dýru námslán til baka og borga af þeim vexti og á væntanlega að borga niður erlendu skuldirnar sem ríkisstj. er að safna og á að koma inn á húsnæðismarkaðinn eins og hann nú er. Við getum hugleitt augnablik ástandið hjá fjölskyldu, kannske þessari frægu fjölskyldu sem fær 50 þús. kr. sem standa þvert í hálsinum á hv. þm. Árna Johnsen. (ÁJ: Hver segir það?) Taki fjölskylda slík lán í fimm ár eða þar um bil má ætla að skuldir hennar verði á þriðju milljón kr. og með 3% vöxtum væri greiðslubyrðin af því láni, vextirnir einir saman, orðin á milli 60 og 70 þús. kr. á hverju ári. Menn geta sjálfir sagt sér hvernig aðkoman væri fyrir það unga fólk úti á til að mynda húsnæðismarkaðnum eins og hann væri í dag með þá skuld á bakinu og greiðslubyrðina sem þessu nemur þar að auki. Það svaraði til þess að þetta unga fólk hefði þegar á bakinu greiðslubyrðina af einni íbúð þegar það kæmi út á vinnumarkaðinn.

Menn virðast ekki heldur hafa gert sér grein fyrir því hvers vegna velta Lánasjóðs ísl. námsmanna er jafnmikil og raun ber vitni nú á þessum árum. Það hefur enginn maður nefnt það í þessari umræðu að það eru stærstu árgangar Íslandssögunnar sem eru að fara í gegnum skólakerfið núna, árgangarnir um og upp úr 1960. Það hefur enginn nefnt að þegar gerðar voru breytingar á lánasjóðslögunum síðast voru teknir inn ýmsir nýir aðilar sem urðu lánshæfir, sérskólar og aðrir slíkir, og þetta allt saman hefur valdið því, til viðbótar því að nú fara fleiri að hlutfalli í nám en áður gerðu, að velta sjóðsins hefur aukist mjög hratt á undanförnum árum. Við erum því að brúa ákveðið erfitt tímabil í sögu námslána á Íslandi. Við erum að brúa það tímabil þegar stærstu árgangar Íslandssögunnar koma á markaðinn, þegar ákveðin sprengja varð í framhaldsnámi á Íslandi og þegar verið er að taka upp nýjar og hertar endurgreiðslureglur og verðtryggingu lána án þess þó að það sé farið að skila sér í tekjum sjóðsins. Þetta mun breytast og breytast mikið eftir fáein ár og þá munu rauntekjur sjóðsins aukast mjög og hann verða tiltölulega peningalega sjálfstæður fái hann tóm til þess. Að vísu gæti vaxandi tilhneiging stjórnvalda til að láta hann byggja fjárhag sinn upp með lántökum spilað þarna inn í eins og öllum má ljóst vera.

Það mætti, herra forseti, segja nokkur orð um þá hræsni og þann tvískinnung sem kemur fram í máli þeirra manna hér sem nú hafa allt í einu svo mikla samúð með láglaunafólkinu á Íslandi að þeir nærri því tárfella í ræðustólnum þegar þeir tala um hin kröppu kjör launafólksins. Menn sem standa að ríkisstj. sem hefur skorið lífskjör þessa sama fólks niður við trog eru nú allt í einu fullir mærðar og samúðar og halda langar tölur um hversu launin séu óbærilega lág hjá þessu fólki. Og hvaða aðferðir eru þá notaðar við samanburðinn? Jú, það eru teknir lægstu finnanlegir kauptaxtar og bornir saman við hæstu möguleg námslán. Það er samanburðarfræðin hjá þessum herrum, hv. skrifara þingsins m.a. Auðvitað er hægt að fá óhagstæða útkomu með þessu móti. En mér er sem ég sjái hæstv. forsrh. koma í stólinn og tala um lægstu kauptaxtana og vorkenna fólkinu fyrir þá, taxta sem hvergi eru í raun og veru til lengur, eru ekki greiddir. Það eru ekki einu sinni notuð lágmarkslaunin. Það er verið að tala hér um kauptaxta sem eru ekki til á vinnumarkaðnum í dag, neðan við allt sem borgað er. Þetta er samanburðarfræðin.

Síðan eru teknir tveir námsmenn sem búa saman, báðir í fullu námi og hafa börn á framfæri, og það er notað í samanburðinum. Bara með því að taka meðaltalslán til sömu hópa, til einstæðra foreldra eða til hjóna í námi og bera það saman við ráðstöfunartekjur eins og þær eru gefnar upp af Alþýðusambandi Íslands gerbreytist þessi samanburður. Og vegna þess að nafni minn og hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hefur nánast gert ráðstöfunartekjurnar heilagar í ræðum sínum á Alþingi undanfarið ætla ég að nota þær einnig. Þá kemur t.d. út að einstætt foreldri með eitt barn fær í hámarkslán á Íslandi í nóvember s.l. 29 þús. kr. rúmar, meðallán til þessa hóps, einstæðra foreldra með eitt barn, eru 24 500 kr. En hverjar eru heimilistekjur láglaunafólks í Alþýðusambandi Íslands samkvæmt könnun frá sama tíma? Þær eru þó 35 327 eða rúmum 10 þús. kr. hærri en meðallánin til sama hóps. Það er líka hægt að taka þennan samanburð. Og svo væri líka hægt að taka samanburð af launum bankastjóra Seðlabankans eða ráðstöfunartekjum forstjóra álversins og bera þær saman við lánin til einstæðra foreldra t.d. Og hvað kæmi þá út? Hvað eru 10 þús. dollarar í dag borið saman við lán til einstæðrar móður eða til fjölskyldu á stærð við þá sem forstjóri álversins hefur? Svari hver sjálfum sér. Og ekki hafa þó námsmennirnir þau fríðindi önnur sem þessir hátekjumenn í íslenska þjóðfélaginu hafa. Því má ekki bera einu sinni kjör námsmanna saman við þessa hópa?

Hæstv. menntmrh. hefur í raun reist allan sinn málflutning og alla sína framgöngu í þessu máli á því fyrst og fremst að það sé sukk og óráðsía hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Aftur og aftur fer hann í það að reyna að réttlæta gerðir sínar með því að þar sé með endemum illa að hlutunum staðið og hafi verið og það sé alveg fortakslaust hvernig þeir menn hafi leyft sér að skrá á sig yfirvinnu og ráða fólk sem ekki séu heimildir til í störfum. Ég taldi í ræðu minni áðan, herra forseti, að þá væri ástæða til að láta ýmis höfuð fjúka ef slæm áætlanagerð væri orðin svo saknæm í íslenska þjóðfélaginu.

Ég ætla þá að víkja að öðru sem hæstv. menntmrh. hefur iðulega nefnt. Það er að hjá lánasjóðnum hafi verið fólk í störfum sem ekki hafi verið stöðuheimildir fyrir. Ég ætla að taka dæmi úr íslensku fjárlögunum, þeim nýjustu og næstu þar á undan, um hvernig ráðdeildin er á sumum öðrum bæjum. Það er fjárlagaliður 211-237, Embætti sýslumanna og bæjarfógeta. Hvernig halda menn nú að ráðdeildarsemin við reksturinn og aðhaldið hafi verið á þeim bæ og hversu vel halda menn að virtar hafi verið þær stöðuheimildir sem þar hafa verið á undanförnum árum? Jú, það kemur í ljós að í fjárlögum ársins 1985 þurfti að taka upp 73 nýjar stöður hjá þessum embættum, ekki vegna þess að ný störf væru að koma þar fram, ekki vegna þess að álagið hefði sérstaklega aukist á embættunum. Nei, heldur þótti rétt að reyna að leiðrétta fyrir störfum sem hafa verið unnin inni í þessum embættum um árabil af fólki sem ekki hafa verið til stöðuheimildir fyrir. Það segir í grg. með fjárlagafrv. frá 1985 um bæjarfógeta og sýslumenn, með leyfi forseta: „Föstum stöðugildum fjölgar verulega frá því sem nú er eins og meðfylgjandi yfirlit ber með sér. Hér er þó ekki um raunverulega fjölgun stöðugilda að ræða.“ M.ö.o.: þessi störf voru unnin og það var fólk í störfunum fyrir. 73 nýjar stöður voru teknar upp hjá þessum embættum einum saman á árinu 1985, á því ári þegar naumast nokkur staða fékkst annars staðar, nýjar stöðuheimildir.

Þá eru það gildandi fjárlög fjárlagaársins 1986. Sami fjárlagaliður heitir enn þá Embætti sýslumanna og bæjarfógeta. Og hvað gerðist þarna annað árið í röð? Jú, með leyfi forseta:

„Frekari skoðun í ljósi fenginnar reynslu hefur leitt í ljós að fjárveitingar voru naumt skammtaðar í nokkrum tilvikum. Er leitasat við að lagfæra það sem á við og skýrir það hækkun fjárframlaga umfram það sem almennt gerist. Hér fer á eftir yfirlit yfir nýjar stöður hjá embættunum. Athuga ber að þessar stöður hafa verið setnar undanfarin ár þótt ekki hafi verið tekið tillit til þeirra við fjárlagagerð. Hér er því ekki um eiginlega aukningu umsvifa að ræða.“

M.ö.o.: hér hafði verið fólk í störfum í stórum stíl sem ekki voru stöðuheimildir fyrir og 20 nýjar stöður í viðbót voru teknar upp á þessu ári hjá þessum embættum. Mér er spurn, herra forseti: A ekki yfirmaður dómsmála í landinu að láta nokkur höfuð fjúka? Hvers konar frammistaða er nú þetta ef við notum vinnureglu hæstv. menntmrh.? Hvers konar reiður hafa eiginlega verið í þessu kerfi undanfarin ár? Ég bendi á að hefði ég náð mér í fjárlög frá fyrri árum hefði mátt finna þar svipuð dæmi enn þá lengra aftur, svo lengi hefur það staðið að menn hafa verið að reyna að leiðrétta fyrir stöðum sem verið hafa hjá þessum embættum langt umfram heimildir á fjárlögum.

Ég vona að þetta eitt dæmi hafi skýrt það nokkuð að ef menn eru að fara út í þetta á annað borð má víða finna brotinn pott í þessum efnum. Ég leyfi mér reyndar að fullyrða að óvíða hafi þörfin fyrir nýjar stöður verið meiri en hjá lánasjóðnum á undanförnum árum, enda hefur margoft verið beðið um fjölgun á starfsfólki þar.

Vandræði sjóðsins og þær slæmu reynslusögur sem menn hafa hér rakið stafa, eftir því sem ég best veit, einmitt af því í mörgum tilfellum að þarna hefur verið undirmannað og það hefur í raun ekki verið starfsfólk til að sinna öllum þeim störfum sem þarft hefði verið og skylt hefði verið.

Það kemur einnig úr hörðustu átt þegar hæstv. menntmrh. ætlar að nota klögumál gegn þessari stofnun til að klekkja á henni. Ég veit það og fullyrði það hér að yfirgnæfandi meiri hluti umkvartana íslenskra námsmanna vegna lánasjóðsins stafar af því að námsmenn eru óánægðir og telja að þeir hafi ekki fengið jafnmikið fé í hendur og þeim bar og ber samkvæmt lögum. Það er vegna þess að starfsfólk lánasjóðsins hefur á undanförnum árum reynt að gæta hagsmuna sjóðsins og halda þar aftur af útgjöldum með öllum tiltækum ráðum að námsmenn hafa í ýmsum tilfellum verið að kvarta undan þessari stofnun. Svo kemur þessi hæstv. ráðherra, sem ættar að auka sparnað og ætlar að auka ráðdeildarsemi, og sakfellir menn einmitt fyrir þetta tiltekna atriði. Ja, heyr á endemi ! Þvílík framkoma hæstv. ráðh. Ég held að hann hefði átt að kynna sér hvað liggur að baki þessum umkvörtunum í langflestum tilfellum.

Herra forseti. Það mætti ýmislegt fleira um þetta segja eins og ég hef reyndar áður sagt. Hér væri hægt að halda langar ræður og hafa fullt tilefni til. En þetta er líklega að verða nóg að sinni. Það mál vel vera og er ekki ólíklegt að málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna beri aftur á góma á þessu þingi, e.t.v. vegna þess að hæstv. ráðh. þumbast við og kemur fram einhverri frumvarpsnefnu, hvort sem það verður nú stjfrv. eða eitthvað annað, eitthvert einkaframtak af hans hálfu. En hann virðist helst til liðfár orðinn þegar samstarfsflokkurinn hefur neitað að styðja hann í þessu og menn úr hans eigin flokki hafa jafnvel lýst gagnrýni sinni á þessar hugmyndir.

Ég segi það, og það má öllum vera ljóst, að ég tel íslenska námslánakerfið eins og það er vera gott. Ég tel það að mörgu leyti vera réttlátt og sanngjarnt kerfi og vel hafi verið til ess vandað á sínum tíma þegar þessi löggjöf var sett. Ég er þar með ekki að segja að ekki sé sjálfsagt mál að endurskoða það. Auðvitað er það þannig með allar mannlegar gerðir að þær hljóta að koma til endurskoðunar á breyttum tímum. Það er þó langt í frá rétt, eins og oft er haldið fram, að við Íslendingar gerum svo vel við okkar námsmenn að hvergi finnist dæmi um annað eins og að námsmenn lifi hér í einhverjum sérstökum lúxus umfram aðrar stéttir þjóðfélagsins. Ég get nefnt sem dæmi að upplýsingar hef ég um það frá Bandaríkjum Norður-Ameríku að aðstoð alríkisstjórnar Bandaríkjanna við námsmenn beint nemur 15 milljörðum dala. Þar fyrir utan eru, eins og menn vita, allir aðrir styrkir og framlög til menntunar í Bandaríkjunum sem eru af fjölmörgu tagi, bæði frá háskólunum sjálfum, frá fylkjum og frá fleiri aðilum. Þessi upphæð svarar til að höfðatölureglunni 630 millj. kr. íslenskum. Það er hærri upphæð, mun hærri upphæð en raunframlag íslenska ríkisins til lánasjóðsins er á hverju ári undanfarin ár vegna þess að lánveitingarnar allar í heild sinni eru auðvitað ekkert raunframlag ríkisins til náms á Íslandi. Það er eingöngu sá hluti sem ekki greiðist aftur og þeir styrkir sem greiddir eru eins og ferðastyrkir og aðrir slíkir. Það lætur nærri að það séu um 340 millj. kr. á síðasta ári. Raunframlag íslenska ríkisins er næstum því helmingi lægra en framlag alríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum einnar saman, fyrir utan allt annað sem þar er lagt til menntunar.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég þakka forseta fyrir að leyfa þessa umræðu og fyrir skörulega fundarstjórn og ég þakka enn fremur þeim þm. og hæstv. ráðh. sem hér hafa tekið þátt í umræðunni.

1