03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

199. mál, alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Hér er frv. til l. um breytingu á lögum frá 1975 um heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó. Með lögunum frá 1975 var ríkisstj. heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd þessar alþjóðareglur og þær síðan auglýstar eins og lög gera ráð fyrir.

Í samræmi við 6. gr. samþykktarinnar hefur verið unnið á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að breytingum á alþjóðasiglingareglum sem samþykktinni fylgja. Með ályktun frá í nóvember 1981 samþykkti þing stofnunarinnar ýmsar breytingar á reglunum. Er hér um minni háttar breytingar að ræða sem taldar eru æskilegar með tilliti til fenginnar reynslu þann tíma sem reglurnar frá 1972 hafa verið í gildi.

Í samræmi við 4. tölul. 6. gr. samþykktarinnar tóku breytingar þessar gildi 1. júní 1983 gagnvart samningsaðilum eins og um getur í grg. með frv., þ.e. þeim sem mótmæltu þeim ekki fyrir þann tíma. Hlutaðeigandi stjórnvöld hér á landi töldu rétt að Ísland gerðist aðili að umræddum breytingum og fyrir því er þetta frv. hér flutt.

Meðfylgjandi er fskj. þar sem koma fram þær reglur sem gilda frá 1972 ásamt og með þeim breytingum sem gerðar voru 1981.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. allshn.