03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

163. mál, fóstureyðingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. hefur nú flutt þetta mál enn einu sinni í hv. deild. Hann hefur flutt fyrir sínu máli eins og hans er von og vísa glögga ræðu ákveðinna viðhorfa sem við mörg könnumst mætavel við. Þær skoðanir þessa mæta hv. þm. virði ég svo sannarlega þó ég hafi áður lýst því yfir og sé þeim enn ósammála, eins og margoft hefur komið fram í umræðum hér áður.

Ég vil þó taka það skýrt fram út af síðustu orðum hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um að hann óski sérstaklega eftir því að hv. heilbr.- og trn. afgreiði þetta frv. frá sér, skili áliti um það, að ég hef setið í þessari nefnd áður og það hefur aldrei staðið á mér að skila áliti um þetta mál út úr nefnd og mun heldur ekki verða svo nú.

Þó að ég hafi lýst yfir andstöðu við það meginefni sem við hér erum að ræða vil ég þó ekki láta hjá líða að taka sérstaklega undir með hv. 1. flm., sem hann kom hér inn á, þá miklu áherslu sem hann lagði á aukningu félagslegrar samhjálpar, aukna nauðsyn aðgerða þar á öllum sviðum, því að þær eru svo sannarlega knýjandi og betur vildi ég að það sæist í verki hjá hæstv. núv. ríkisstj., sem hv. flm. fylgja, að það væri gert, m.a. í þeirri andhverfu sem við sjáum í því atriði, sem hv. flm. lagði mikla og réttilega áherslu á, aukinni þörf fyrir fleiri dagvistarrými.

Ég segi líka að það frv. til l. sem er fylgifrv. þessa um breytingu á lögum um almannatryggingar varðandi hækkun mæðralauna væri vissulega góðra gjalda vert. Ég hlýt hins vegar að spyrja hv. flm. að því í framhaldi af þeirri stórhækkun sem þar er gert ráð fyrir og þá alveg sérstaklega með mæðralaunum til þeirra mæðra sem eru með eitt barn hvort þetta frv. eða þau útgjöld sem því tengjast og eru forsenda þessa máls að nokkru leyti hafi stuðning þess þingflokks sem þessir hv. þm. tilheyra og hvort hæstv. núv. fjmrh., sem þetta heyrir nú helst undir, sé sammála því að hér verði um þessa hækkun mæðralauna að ræða. Það er nauðsynlegt að fá það fram vegna þess að við vitum að þar væri um býsna mikla stökkbreytingu að ræða, býsna þung útgjöld einnig. Þá vaknar þessi spurning eðlilega vegna þess að ef horft er til síðustu fjárlagagerðar og til áforma núv. ríkisstj. í þessum efnum hlýtur maður að efast nokkuð um að þetta hafi jafneinróma stuðning og annars mætti vænta hjá þingflokki hv. flm. og hjá fjmrh. þeirra hæstv. alveg sér í lagi.

Að sjálfsögðu get ég tekið undir þær breytingar sem þar eru til hækkunar og kannske alveg sérstaklega breytingu sem þyrfti að verða, svo sannarlega, á árlegum mæðralaunum með einu barni sem nú eru í hróplegu ósamræmi við það sem þó gildir um tvö börn eða fleiri.

Ég skal hafa um þetta fá orð nú. Ég hef svo margrætt það og áður átt í orðræðum um þetta mál, að ég hlýt að vísa til þess sem ég hef áður sagt þar um. Ég bendi aðeins á að löggjöf sú sem hér um ræðir var sett í tíð hæstv. ráðh. Matthíasar Bjarnasonar sem heilbr.- og trmrh., sem hefur nú fyrir stuttu látið af því starfi, og sú löggjöf var vel undirbúin í hvívetna. Ég hygg að hæstv. ráðh. hafi þá gert þá málamiðlun sem flestir gátu sætt sig við.

Það hefði verið forvitnilegt nú þegar við erum að fjalla um þessi mál að vita hver skoðun hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. væri á þessu máli. Hæstv. ráðh. er nú fjarri vettvangi, en það gefst eflaust tími til þess síðar og tækifæri að spyrja hæstv. ráðh. hver hans skoðun sé á þessu máli. Ég veit alveg hver skoðun hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. var á þessu. Hann taldi að menn hefðu náð þeirri málamiðlun í þessu efni sem væri affarasælust. Ég held að ástand mála þá hafi einmitt knúið á um ákveðnar breytingar og ég man eftir því úr ræðum hæstv. ráðh. Matthíasar Bjarnasonar þá að hann vék rækilega að því og það gerðu fleiri í umræðunum.

Aðeins skal nú minnt á tvennt sem mér er þar minnisstætt. Annars vegar ólöglegar fóstureyðingar og hins vegar fóstureyðingar erlendis hjá þeim sem höfðu efni á. Það var ekki síður notað sem rök þá en nú og skal ekki fjölyrt um frekar. Ég ítreka enn þá meginskoðun mína, sem ég hlýt að gera að helstu röksemd minni gegn breytingum á löggjöfinni, því trausti og trú sem ég hef á dómgreind íslenskra kvenna til að fara með þetta vald. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að minna enn og aftur á forsendurnar varðandi ráðgjöf og aðstoð alla, sem óneitanlega þarf að stórauka, svo og alla fræðslu almennt um kynlíf og barneignir. Ég skal játa að þessi þáttur, sem átti að vera mjög samhliða þeim breytingum sem þarna voru gerðar, hefur legið eftir og ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það, en þá þarf þar fyrst og fremst úr að bæta í stað þeirra breytinga sem hér eru lagðar til.

Ég fullyrði enn og aftur að fóstureyðing er ævinlega nauðvörn, neyðarúrræði sem til er gripið í allra síðustu lög. Ég þekki slík dæmi. Ég þekki einnig gagnstæð dæmi þar sem sú leið var af móður eða mæðrum valin að eiga börnin. Ég þekki nokkuð til þess hversu örðug og átakanleg hin fyrri ákvörðun er og var. Ég veit að ráðgjöf og þjónusta var ekki slík sem skyldi og er ekki slík sem skyldi. En ég tel það hins vegar ekki röksemd fyrir því að breyta um áherslur og fella hinar félagslegu ástæður út.

Það er vissulega rétt að hér er allt of margt ógert og þarf virkilega úr að bæta. Ég held líka að allir talnaleikir í sambandi við þetta, bæði varðandi ólöglegar fóstureyðingar og fóstureyðingar erlendis, sem mjög hefur verið vitnað til, miðað við þær tölur sem nú eru, allir slíkir talnaleikir séu ómarktækir að miklu leyti þegar lögin voru þrengri og farið var á bak við þau og leitað til útlanda. Ég hef a.m.k. á því fullan fyrirvara að þær tölur sem þar hafa verið hafðar uppi eigi við rök að styðjast.

Ég segi það líka að ég harma hversu stór og þung orð hafa verið látin falla í garð þeirra íslensku kvenna sem af einhverjum ástæðum hafa neyðst til að grípa til þessa ráðs. Þar hefur ákæran verið óvægin og hörð og komið frá þeim sem síst skyldi, m.a. frá kirkjunnar mönnum, og engum til sæmdar að taka svo til orða sem allt of oft hefur heyrst varðandi þetta.

En lokaorð mín skulu þau sem ég hef áður gert að mínum: Nauðsyn krefur að lögunum í heild sé framfylgt svo vel sem kostur er, en fyrst og síðast ber að virða rétt konunnar og ákvörðunarvald hennar set ég sem áður öllu ofar.