03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

163. mál, fóstureyðingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð út af þeirri ræðu sem hv. þm. Eiður Guðnason hélt áðan. Það var að vísu ræða af þeim toga að ég tel fæst í henni vera svaravert, en hins vegar vil ég láta það koma hér fram þannig að á því leiki enginn vafi að með því fæðingarorlofsfrv. sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan fylgir annað frv., það er á þskj. 206, 181. mál þessa þings, þar sem gert er ráð fyrir sérstakri fjáröflun til að standa straum af þeim kostnaði sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér. Það frv. mun, ef að lögum yrði, ná inn í ríkissjóð rúmlega 2/3 þess kostnaðar sem lenging fæðingarorlofs hefði í för með sér.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og eins það að ég tel það heyra til undantekninga á Alþingi Íslendinga að menn flytji fjáröflunarfrv. með sínum kostnaðarfrv. Orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar voru því að öllu leyti ómakleg.

Einnig taldi hann mig vilja meina að börn hér á landi og væntanlega þá öll mannanna börn væru eingetin. Það hef ég vitaskuld aldrei sagt. Hins vegar hef ég stundum rætt um að það eru konur sem fæða börnin og bera þau undir brjósti. Ég er farin að halda að það atriði sé orðið hv. þm. nokkuð þungbært.