03.02.1986
Neðri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

196. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskipulagningu stjórnkerfisins til þess að gera það virkara og betra. Er það sérstaklega tekið fram að lagt verði fyrir Alþingi frv. að nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands. Fyrir þessu frv: mæli ég nú.

Ég skipaði, í samræmi við þessa ákvörðun, nefnd hinn 18. ágúst 1983 til að vinna að undirbúningi þessarar löggjafar. Nefndin skilaði drögum að frv. til laga um Stjórnarráð Íslands. Þau drög hafa í nokkrum atriðum tekið breytingum í meðferð ríkisstjórnarinnar. Þó er í meginþáttum á þeim byggt í því frv. til laga um Stjórnarráð Íslands sem ég nú mæli fyrir.

Lög sem nú gilda um Stjórnarráð Íslands eru nr. 73 frá 28. maí 1969. Fram til þess tíma var löggjöf um stjórnarráð mjög í molum og að stofni til byggð á lögum um aðra skipan á æðstu umboðsstjórn Íslands, eins og svo var nefnt, frá 3. október 1903, sem gildi tók hinn 1. febrúar 1904. Þau voru um stofnun Stjórnarráðs Íslands eftir að innlendur ráðherra hafði verið skipaður. Þeirri löggjöf var breytt 1917 er ráðherrum var fjölgað úr einum í þrjá. Þá var breyting á gerð 1938 þegar ákveðið var að skrifstofustjórar, nú ráðuneytisstjórar, í Stjórnarráði Íslandsskyldu vera fjórir í stað þriggja, og var þá sett á stofn sérstök utanríkismáladeild, eða ráðuneyti utanríkismála, til viðbótar gömlu ráðuneytunum þremur, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Þótt ekki væri breytt lögum fyrr en með gildandi lögum frá 1969 þróuðust ýmsar breytingar í tímans rás án lagasetningar, m.a. var ráðuneytum fjölgað um sjö. Öll þau ráðuneyti voru stofnuð samkvæmt ákvörðunum hlutaðeigandi ríkisstjórnar á hverjum tíma og liggja yfirleitt ekki fyrir skriflegar upplýsingar um stofnun þeirra, hvorki forsetaúrskurðir, ráðherrabréf né aðrar hliðstæðar heimildir. Fjárveitingar til hinna nýju ráðuneyta voru þó teknar upp í fjárlög og lagði löggjafarvaldið á þann hátt blessun sína yfir stofnun þeirra. Þegar gildandi stjórnarráðslög voru sett var því orðið mjög tímabært að taka af skarið og ákveða að ráðuneyti mætti hvorki setja á stofn né leggja af nema með lögum. Síðan hefur ráðuneytisskipting verið ákveðin í lögum og í þessu frv. er lagt til að svo verði áfram, en hins vegar gert ráð fyrir að kveðið verði á um skiptingu ráðuneyta í skrifstofur og starfsdeildir í reglugerð um framkvæmd laganna.

Ég held að menn greini ekki á um það að lögin frá 1969, þar sem steypt var saman í ein lög fyrirmælum um skipulag og starfshætti í Stjórnarráði Íslands, hafi verið mjög til bóta. Hafa þau á margan hátt reynst vel þótt nú þyki svo komið vegna breyttra aðstæðna og viðhorfa í þjóðfélaginu, m.a. í stjórnun, að ástæða sé til að gera ákveðnar breytingar á æðstu stjórnarstofnun ríkisins. Mun ég nú fara nokkrum orðum um meginatriði frv.

Í fyrsta lagi er áréttuð sú meginregla íslenskrar stjórnskipunar að einstakir ráðherrar fari með æðsta stjórnvald í málefnum sem undir þá heyra og beri jafnframt ábyrgð á stjórnarathöfnum á því sviði. Regla þessi er sérstaklega áréttuð m.a. með því að auka fjárhagslega ábyrgð hvers ráðuneytis. En því er ekki að leyna að mönnum finnst sem í æ ríkari mæli hafi gætt tilhneigingar til þess að draga úr ábyrgð einstakra ráðuneyta í þeim efnum og flytja til fjármálaráðuneytis. Er gert ráð fyrir að í hverju ráðuneyti starfi sérstakur starfsmaður eða starfsdeild beinlínis að undirbúningi fjárlagatillagna ráðuneytisins og stofnana þess, annist eftirlit með fjárreiðum og vinni að hagræðingu í ríkisrekstri sem undir það ráðuneyti fellur.

Er það auðvitað augljós starfsskylda hvers ráðherra að reyna að halda ríkisútgjöldum niðri og gera rökstuddar tillögur um fjárþörf og úttekt á nýtingu fjárveitinga til ráðuneytisins og stofnana þess. Eftir sem áður yrði samræmingar- og hagsýslustarfsemi innt af höndum í fjármálaráðuneytinu í samráði við þann starfsmann eða starfsdeild hvers ráðuneytis sem það starf annast. Hygg ég að menn séu nokkuð á einu máli um nauðsyn þess að bætt sé aðstaða ýmissa ráðuneyta í þessu tilliti. Má raunar benda á að í menntmrn. hefur sérstök deild eða skrifstofa sinnt þessum þætti og hefur það þótt gefa góða raun. Með því að kveða á um þetta atriði í frv. er leitast við að styrkja stöðu einstakra ráðuneyta út á við, ekki síst í skiptum við þær stofnanir sem undir þau heyra.

Í frv. kemur fram skilgreining á hlutverki ráðuneytis, þ.e. að framkvæma stefnu ráðherra, hafa eftirlit með þeim stofnunum sem undir ráðuneytið heyra og sinna þeim verkefnum öðrum sem því eru falin í lögum.

Á síðustu árum og áratugum hefur færst í vöxt að ráðuneytin tækju við ýmiss konar afgreiðslumálum sem orðið hafa æ fyrirferðarmeiri í stjórnarráðinu. Nauðsynlegt er að spornað sé við þessari öfugþróun og stjórnarráðinu gert kleift að beita sér að þeim meginhlutverkum sínum að hafa með höndum æðstu stjórn í íslenskri stjórnsýslu og að hafa eftirlit með því að ríkisstofnanir fari í hvívetna að lögum.

Meðal þeirra ákvæða frumvarpsins, sem ætlað er að auðvelda ráðherrum að móta stefnu í einstökum málaflokkum og hrinda henni í framkvæmd, er ákvæði 8. gr., þar sem ráðherra er heimilað að ráða til starfa í ráðuneyti sérstakan ráðherraritara sem gegni starfi svo lengi sem ráðherra kýs, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur. Er svo kveðið á að ráðherraritari geti ritað undir stjórnvaldserindi og hafi boðvald gagnvart öðrum starfsmönnum ráðuneytis en ráðuneytisstjóra. Þó getur ráðherra ákveðið að fela ráðherraritara stjórn ráðuneytis undir yfirstjórn sinni. Í gildandi stjórnarráðslögum er réttarstaða aðstoðarmanna ráðherra mjög óljós og hefur m.a. verið litið svo á að þeir hefðu ekki heimild til þess að undirrita stjórnvaldserindi. Hefur það valdið því að störf þeirra hafa í mörgum tilvikum verið fjarri því að nýtast sem skyldi. Ég hygg að orð Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, í framsögu fyrir gildandi stjórnarráðslögum, þar sem hann fjallaði um aðstoðarmenn ráðherra, séu enn í fullu gildi, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Hér hafa ráðherrar lengi orðið varir þessarar þarfar. Það hefur stundum verið bætt úr því með því að menn hafa ráðið eins konar bráðabirgðamenn sér til aðstoðar. Í öðrum tilfellum og kannske oftar hefur lausnin verið sú að ráðherrar hafa tekið inn nýja fasta starfsmenn sem þeir hafa talið sig sérstaklega hafa aðgang að. En hitt verða menn að skilja að það er eðlilegt að þegar menn koma að nýjum störfum í ráðuneyti, þar sem þeir eru öllum mönnum ókunnugir og e.t.v. flestir eða allir starfsmenn skipaðir af andstæðingum þeirra, óski þeir eftir að hafa einhverja sérstaka trúnaðarmenn. Starfskraftar ráðherra og ráðuneyta í heild notast mun betur ef þessi háttur er hafður á.“

Þörfin fyrir sérstaka trúnaðarmenn ráðherra í ráðuneytum var því ljós þegar fyrir gildistöku núverandi stjórnarráðslaga. Hins vegar hefur reynslan því miður oft orðið sú að ekki hefur reynst unnt að nýta þá til fulls vegna óvissrar réttarstöðu þeirra. Er að því stefnt að bæta nú úr í því efni. Rökin að baki tengjast líka augljóslega þeim meginhugmyndum frv. að auka áhrif og jafnframt ábyrgð einstakra ráðherra og auðvelda þeim að hrinda stefnu sinni og ákvörðunum í framkvæmd. Ráðherraritara er fyrst og fremst ætlað að aðstoða ráðherrann við að móta stefnu sína og hrinda henni í framkvæmd en ekki að fara með daglega stjórn ráðuneytis. Það hlutverk verður eftir sem áður í höndum ráðuneytisstjóra. Engum ætti að vera það ljósara en þm. að ráðherra þurfi að verja verulegum hluta starfs síns utan ráðuneytis ekki síst vegna setu á Alþingi. Jafnframt þurfa ráðherrar auðvitað að halda sambandi við eigin þingflokk og kjósendur í kjördæmum sínum. Hlýtur því að teljast eðlilegt að þeir geti falið nánum samherja sínum að stýra ráðuneytum á meðan þeir eru sjálfir fjarverandi ef þeir kjósa að gera svo. Ætti það að vera til þess fallið að auka virk áhrif ráðherra á stjórnarstörf.

Á hitt ber að leggja áherslu að samkvæmt frv. er það ráðherra sjálfum sem heimilt er að ráða sér ráðherraritara sem sinn eigin trúnaðarmann. Þingflokkunum eða þeim aðila sem ábyrgð ber á ráðherrunum er ekki ætlað að ráða vali ráðherraritara, enda er ekki um að ræða aðstoðarráðherra, heldur sérstaka trúnaðarmenn ráðherranna sjálfra. Er sú leið sérstaklega til þess fallin að leggja áherslu á ábyrgð ráðherra, að þeir fái sjálfir að ráða næstráðendum sínum í ráðuneyti. Eiga þeir að sjálfsögðu mikið undir því að velja sér við hlið hina hæfustu menn sem færir eru um að axla þá ábyrgð sem ráðherrariturum er ætluð. Það skal tekið fram að ekkert er því til fyrirstöðu að ráðherraritari sé úr hópi starfsmanna ráðuneyta enda vafalítið oft að finna þar menn sem búa yfir þeirri reynslu og þekkingu sem sóst væri eftir hjá ráðherraritara.

Ég hef heyrt nokkuð rætt um þetta heiti á stöðunni, þ.e. ráðherraritari, og þá á þann veg að það kunni að vera villandi og valda misskilningi vegna þess að auðvitað eru starfandi í ráðuneytunum ritarar, m.a. ritarar ráðherra. Út af fyrir sig finnst mér ekki skipta höfuðmáli hvaða nafn þessum nýja starfsmanni er gefið. Nefnd sú sem vann að þessu frv. vísaði til þess að í stjórnskipunarlögunum, sem gildi tóku 1. febr. 1904, var ákvæði um landritara sem var yfirmaður stjórnarráðsins, gekk næst ráðherranum og var staðgöngumaður hans í fjarveru hans. Þangað er fyrirmyndin að nafninu sótt og finnst mér þessi nafngift betri en aðstoðarmaður ráðherra þótt út af fyrir sig skipti hún ekki höfuðmáli eins og ég hef áður sagt. Rétt er að leggja áherslu á að gert er ráð fyrir að dagleg stjórn verði í höndum ráðuneytisstjóra og hann og aðrir embættismenn muni starfa áfram í ráðuneytunum óháð ráðherraskiptum og skapa þá kjölfestu sem er nauðsynleg.

Ég mun nú í nokkrum orðum útskýra þær reglur sem er að finna í 10. gr. frv., um tímabundna ráðningu í störf í stjórnarráðinu. Ég tel næsta víst að hér á þinginu sé yfirgnæfandi fylgi við að afnema beri æviráðningu embættismanna, enda má segja að hún standi nútímastjórnunaraðferðum að ýmsu leyti fyrir þrifum. Er hér lagt til að í stöður embættismanna í stjórnarráðinu verði ráðið til allt að sex ára í senn. Enn fremur verði meginreglan sú að maður geti ekki gegnt embætti í sama ráðuneyti lengur en 12 ár samfellt. Þó er ráðherra heimilað að framlengja þann tíma um allt að 6 ár til viðbótar ef sérstakar ástæður mæla með því.

Sú regla að maður megi ekki gegna embætti í sama ráðuneyti meira en að hámarki 18 ár kann að vera umdeild. Ég held þó að ekki verði hjá slíku ákvæði komist ef menn vilja tryggja vissan hreyfanleika í stjórnsýslunni og raunar fremur að þessi tími sé of langur heldur en of stuttur. Ef þetta er ekki gert er sú hætta fyrir hendi að menn væru nánast sjálfkrafa endurráðnir í lok hvers ráðningartímabils, annað kynni t.d. að þykja særandi fyrir hlutaðeigandi starfsmann.

Menn verða að gera sér grein fyrir að í stjórnarráðinu er að finna æðstu stjórn í íslenskri stjórnsýslu og auðvitað er það svo að eftir höfðinu dansa limirnir. Það er því ekki einungis æskilegt heldur nauðsynlegt að stjórnarráðsmenn séu sem hæfastir, og það sem meira er, frjóir og hugmyndaríkir svo að forustan og frumkvæðið komi í auknum mæli úr stjórnarráðinu. Með því að afnema æviráðningu hjá stjórnarráðsmönnum og ráða þá til starfa tímabundið er leitast við að koma í veg fyrir stöðnun í stjórnarráðinu, án þess þó að varpa fyrir róða þeim stöðugleika sem þar er nauðsynlegur.

Með hliðsjón af stjórnunar- og eftirlitshlutverki stjórnarráðsins hljóta starfsmenn þess öðru fremur að verða að búa yfir almennri menntun og reynslu, en síður sérþekkingu þar sem hennar má ætíð leita hjá sérfræðingum í öðrum stofnunum. Æskilegt er að í stjórnarráðinu starfi menn með sem víðtækasta reynslu og þekkingu t.d. úr atvinnulífinu. Þess vegna er nauðsynlegt að opna leiðir til þess að menn sem starfað hafa annars staðar en í ráðuneytum geti komið þar til starfa. Og jafnbrýnt er að embættismenn úr stjórnarráðinu geti horfið til annarra starfa.

Ég held að sú venja sem skapast hefur, að menn starfi í sama ráðuneyti áratugum saman og allan sinn starfstíma jafnvel, sé ekki til þess fallin að tryggja þann ferskleika og frumkvæði sem á að einkenna æðstu stjórnsýslu ríkisins. Nú er það jafnvel svo að það er litið hornauga ef menn, sem ekki hafa áður starfað í ráðuneyti, eru ráðnir þangað í góð embætti og þá gjarnan talað um að gengið hefi verið fram hjá starfsmönnum með lengri starfsreynslu. Þennan hugsanagang tel ég af hinu illa, ekki aðeins fyrir hlutaðeigandi starfsmenn, heldur fyrir starfsemi stjórnsýslunnar og þar með alla þjóðina.

Markmiðið með þessu ákvæði 10. gr. er að stuðla að hreyfanleika í stjórnsýslunni þannig að þeir, sem æðstu störfum gegna, búi yfir sem margvíslegastri reynslu t.d. úr öðrum ráðuneytum; hafi t.d. verði deildarstjóri í einu ráðuneyti, skrifstofustjóri í öðru, og verði svo ráðuneytisstjóri jafnvel í því þriðja, eða hafi að baki stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu.

Menn hafa borið því við að með þessu nýja kerfi væri verið að svipta starfsmenn stjórnarráðsins því öryggi sem þeir hafa búið við og því væri vafasamt að hæfir menn fengjust til starfa. Mitt sjónarmið er að svo sé alls ekki. Hæfir starfsmenn eiga það tryggt að geta verið alla sína starfsævi innan stjórnarráðsins eða stofnana þess þó að það feli ekki í sér að þeir verði allan þann tíma í sama ráðuneyti. Gert er ráð fyrir að í reglugerðarákvæðum verði stuðlað að því að slíkir menn gangi fyrir störfum sem losna í stjórnarráðinu eða við opinberar stofnanir.

Ég hef líka þá trú að ungu, dugmiklu fólki finnist það jafnvel kostur við starf að það sé tímabundið, vitneskjan um að ný viðfangsefni taki við að tilteknum tíma liðnum virki hvetjandi á það en ekki letjandi.

Nú mun ég víkja að einstökum greinum frv. eftir því sem tilefni er til. Um fyrstu grein vil ég segja þetta:

Í 2. málsgr. 1. gr. eru gerðar breytingar á orðalagi til að leggja sérstaka áherslu á að hver ráðherra fari með æðsta stjórnvald í þeim málum sem undir hann heyra og beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum í þeim málaflokki. Sú tilhneiging sem vart hefur orðið, að leggja málefni undir fleiri en einn ráðherra, jafnvel ríkisstjórnina í heild, er aðeins til þess fallin að gera málsmeðferð þyngri í vöfum og draga úr ábyrgð einstakra ráðherra á stjórnarstörfum. Hins vegar geta flokkar sem mynda með sér ríkisstjórn auðvitað gert með sér samkomulag, t.d. í stjórnarsáttmála, um tiltekin málefni og afgreiðslu þeirra.

Í annarri grein eru talin upp viðfangsefni ráðherrafunda og kemur þar m.a. fram að stefnumótun ríkisstjórnarinnar skuli tekin fyrir á ráðherrafundum. Að öðru leyti kemur fram í greininni efni 17. gr. stjórnarskrárinnar. Í upptalningu á viðfangsefnum ráðherrafunda kemur óbeint fram að ráðherra verður ekki atkvæðum borinn í máli sem undir hann heyra nema hann kjósi það sjálfur. Hins vegar liggur í hlutarins eðli að ráðherra er bundinn af pólitískri stefnumótun þeirrar ríkisstjórnar sem hann tekur þátt í, sem og af stjórnarsáttmála og öðrum hugsanlegum samningum stjórnarflokka.

Fjórða grein er að mestu óbreytt að því undanskildu að Hagstofa Íslands er ekki talin meðal ráðuneyta. Gert er ráð fyrir að Hagstofan verði framvegis sjálfstæð stofnun og verður á næstunni lagt fram frv. þess efnis. Sú skilgreining á starfi ráðuneyta, sem fram kemur í 6. gr. þessa frv., leiðir sjálfkrafa til þess að Hagstofan telst ekki lengur ráðuneyti þar sem hún hefur ekki með höndum stjórnunar- eða eftirlitsstörf með sama hætti og ráðuneyti.

Ég get ekki leynt því að ég hefði gjarnan kosið að í þessari grein frv. yrði gerð tillaga jafnvel um róttæka breytingu á því hvernig stjórnarráð skiptist í ráðuneyti. Um það varð því miður ekki samstaða. Ég gæti t.d. vel hugsað mér að stjórnarráðið skiptist í eftirtalin tíu ráðuneyti: Forsætisráðuneyti, utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðismálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti - þar með talin verslun - og efnahags- og þróunarráðuneyti. Samkvæmt slíkri hugmynd tæki nýtt atvinnumálaráðuneyti við meginverkefnum iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyta, að auki mundu málefni verslunar heyra undir það. Með slíkri skipan væri leitast við að stuðla að meiri samræmingu milli hinna einstöku atvinnugreina og draga úr hugsanlegum árekstrum og tortryggni þeirra á milli. Undir efnahags- og þróunarráðuneyti féllu efnahagsmál, sem nú heyra undir forsætisráðuneyti og ýmis ráðuneyti önnur, svo og málaflokkar á borð við nýsköpun í atvinnulífi, orkumál og vísindarannsóknir. Utanríkisráðuneytið færi einnig með utanríkisviðskipti og félagsmálaráðuneyti með tryggingamál.

En eins og ég sagði náðist ekki samstaða um breytingu á núverandi skipan að þessu sinni. Reyndar voru þar ýmsar hugmyndir reifaðar. Hins vegar tel ég það ekki vera meginbreytinguna sem þörf er á í stjórnarráðsfrumvarpi, heldur hin ákvæðin þar sem gert er ráð fyrir hreyfanleika í stjórnsýslunni og betri möguleikum ráðherra til þess að koma stefnu sinni í framkvæmd eins og ég hef þegar rakið.

Í fimmtu grein er það aðeins ítrekað, sem í gildi er, að hvert ráðuneyti skuli óskipt lagt til eins og sama ráðherra þótt orðalagi hafi verið breytt til að taka af öll tvímæli.

Um sjöttu grein er ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum enda ræddi ég um grunnhugmyndir að baki henni áður.

Í sjöundu grein er kveðið á um að verkaskipting milli ráðuneyta skuli ákveðin í reglugerð á sama hátt og nú er. Mun slík reglugerð fylgja strax í kjölfar nýrra laga um þetta efni og er gert ráð fyrir að á undan fari ítarleg úttekt á starfsemi allra ráðuneyta. Þá er gert ráð fyrir því að framvegis verði í reglugerð kveðið á um skiptingu ráðuneyta í skrifstofur og starfsdeildir en samkvæmt gildandi lögum getur hver og einn ráðherra ákveðið skiptingu ráðuneytis í starfsdeildir. Hefur starfsdeildum og deildarstjórum í ráðuneytum enda fjölgað ört á síðustu árum. Er þetta ákveðið í því skyni að fjölda skrifstofa og starfsdeilda verði haldið í skefjum. Ástæða er til þess að leggja á það áherslu að aðeins er gert ráð fyrir að heimildin til þess að skipta ráðuneytum upp í skrifstofur verði notuð í stærstu ráðuneytunum. Skrifstofustjórar verða þá aðeins starfandi í þeim ráðuneytum sem skipt er upp í skrifstofur. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að ráðuneytisstjórar fari með daglega stjórn og deildarstjórar verði aðeins yfir raunverulegum deildum sem starfræktar verði innan ráðuneyta.

Um áttundu grein frv. hef ég fjallað hér á undan og tel að hún útskýri sig að öðru leyti sjálf.

Í níundu grein er að finna ákvæði um embætti ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra í ráðuneytum. Samkvæmt frv. yrðu ráðuneytisstjórar áfram æðstu embættismennirnir sem ekki hyrfu úr starfi við ráðherraskipti. Skrifstofustjórar yrðu jafnmargir og skrifstofur ráðuneytis en sé ráðuneyti lítið verður ekki skipt í skrifstofur og því enginn skrifstofustjóri starfandi. Sama á við um fjölda starfsdeilda og deildarstjóra í hverju ráðuneyti. Þó skal tekið fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að sami deildarstjóri stjórnaði fleiri deildum en einni ef slík skipan þætti henta.

Áður hefur verið fjallað um grundvallarhugmyndir sem fram komu í 10. gr. og ekki er þörf endurtekninga. Þó skal tekið fram að það liggur í hlutarins eðli að ákvæði greinarinnar um tímabundna ráðningu til allt að sex ára taka ekki til ráðherraritara þar sem hann er ráðinn með þeim kjörum að hann hverfi úr starfi þegar ráðherra þóknast og geti aldrei gegnt því lengur en sá ráðherra sem réði hann. Þá eru ákvæði um að menn sem gegnt hafa embætti í stjórnarráðinu í samfellt sex ár eða lengur skuli njóta biðlauna í þrjá mánuði hverfi þeir úr starfi. Þykir það sanngjörn regla. Það skal tekið fram, herra forseti, að í athugasemdum virðist hafa orðið prentvilla, þar sem talað er um biðlaun eftir 10 ára samfellt starf. Bið ég nefndina að taka það til athugunar.

Herra forseti. Ég hef leitast við að skýra aðalákvæði og megintilgang þessa frv. Ég dreg ekki dul á að ég tel þörf breytinga í íslensku stjórnkerfi og tel ástæðu til þess að stíga fyrsta skrefið efst í stjórnkerfinu því þaðan á stjórnunin og eftirlitið að koma.

Ég vil taka það fram að hér er ekki um flokkspólitískt mál að ræða og óska því eftir sem bestri samvinnu við stjórnarandstæðinga um meðferð málsins. Þetta mál hefur tekið töluvert langan tíma í undirbúningi, m.a. vegna þess að ég lagði áherslu á að samband yrði haft við fulltrúa þingflokka og sömuleiðis við starfsmenn stjórnarráðsins, og það hefur tekið töluverðan tíma. Aðalatriðið er að úr þessu verði lög er sem flestir alþm. og starfsmenn stjórnarráðsins geti vel við unað.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.