03.02.1986
Neðri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

196. mál, Stjórnarráð Íslands

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð í sambandi við það sem hér hefur komið fram, sérstaklega hjá hv. 4. þm. Reykv. sem vék að sameiningu viðskrn. og utanrrn. Þessi hugmynd hefur verið á dagskrá og enn sem komið er hafa þeir aðilar sem um þessi mál hafa fjallað ekki talið rétt að slíkt yrði gert.

Þegar unnið var að undirbúningi þessa frv. var leitað álits hjá útflytjendum, sem að sjálfsögðu hafa hér mestra hagsmuna að gæta, og þeir töldu svo til allir að óskynsamlegt væri að gera eitt ráðuneyti úr þessum tveimur ráðuneytum þannig að utanrrn. færi með viðskiptamálin alfarið.

Auðvitað eru allar hugmyndir til þess að skoða þær. Þar sem hv. þm. benti á að rétt væri að við virtum fyrir okkur hvernig þessum málum væri háttað hjá okkar nágrönnum, þeim sem við erum í samstarfi við, er rétt að minna á að fyrir fjórum árum, þegar mynduð var ný ríkisstjórn í Svíþjóð, sameinaði þáv. forsrh. og núv., Olof Palme, utanrrn. og viðskrn. Sú sameining hafði ekki staðið nema í einn og hálfan mánuð þegar hann skipaði sérstakan utanríkisviðskiptaráðherra. Dæmið var þá orðið þannig að utanrrn. var ráðuneyti með pólitískri deild og viðskiptadeild og þar voru tveir ráðherrar og hafa verið. Þannig er það einnig í Finnlandi. Fyrirkomulag Norðmanna er líkara okkar fyrirkomulagi. Þar hafa einnig verið uppi hugmyndir um sameiningu, en þær hafa mætt mikilli andstöðu.

Ef við aðeins virðum fyrir okkur hvernig uppbygging viðskrn. er fer þar saman útflutningurinn, gengismálin, fjármögnun framleiðslunnar, þ.e. peningamálin, innflutningurinn og verðlagsmálin. Það að sameina þessi mál, þ.e. verðlagsmálin, innflutningsmálin og bankamálin, í einu ráðuneyti er nokkuð sérstætt. Hjá Norðmönnum, Svíum og Finnum hafa þeir ráðherrar sem fara með viðskiptamálin aðeins með utanríkisviðskiptin að gera en ekki aðra þá málaflokka sem hér eru í viðskrn.

Ég vildi láta þetta koma fram. Ég vil gjarnan líka láta koma fram að mjög náið samstarf verður að sjálfsögðu að vera á milli útflytjenda, viðskrn. og utanrrn. Þar gegna sendiráðin þýðingarmiklu hlutverki. Auðvitað er hægt að efla þá starfsemi, skapa meira frumkvæði hjá þeim aðilum. Við fjöllum vonandi innan tíðar um frv. til l. um útflutningsráð þar sem gert er ráð fyrir að útflytjendur sameinist til átaka í útflutningi og um fyrirkomulag útflutningsmála í samráði við viðskrn. og utanrrn. Ég lét þess getið þegar ég tók við störfum utanrrh. að ég vildi beita mér fyrir því að þessi starfsemi yrði efld. Ég á ekki von á öðru en það verði í mjög nánu samstarfi við viðskrn. og samtök útflytjenda. Það er auðvitað þýðingarmest að gert sé eins og þeir óska eftir og telja að geti orðið til árangurs.

Allar hugmyndir eru til þess að skoða þær. En ég vildi í þessari umræðu aðeins láta þessi sjónarmið koma fram.

Umr. frestað.