03.02.1986
Neðri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

207. mál, lántökur ríkissjóðs

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breytingu á lögum nr. 103 frá 1. des. 1974, um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér 1. gr., en hún hljóðar svo:

„Síðasti málsliður f. gr. laganna svohljóðandi: „Heimilt er þó að stofna til skulda í tengslum við kaup á fasteignum, enda séu fasteignakaupin samþykkt af fjmrn.“ falli niður.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hér er ekki neitt stórmál á ferðinni hvað orðafjölda snertir. Hér er aftur á móti á ferðinni stórt mál hvað það snertir hvort Alþingi Íslendinga þurfi að samþykkja kaup á fasteignum, veita til þess leyfi í fjárlögum eða hvort hægt sé að standa þannig að slíkum kaupum að ráðherra einhvers fagráðuneytis geti með blessun fjmrh. ákveðið að kaupa einhverja eign, fá andvirðið allt að láni og binda framtíðinni þá bagga sem slíkt hefur í för með sér. Þetta er raunverulega heimild, eins og þetta er í lögunum, fyrir ráðherra til að ráða fjárlögum eftir nokkur ár án þess að þingið geti rönd við reist, þ.e. Alþingi stendur frammi fyrir gerðum hlut. Það er búið að gera kaupin. Til þess að forðast skaðabætur er ekki um annað að ræða en að samþykkja á fjárlögum að veita greiðslur eins og samningar hljóða upp á.

Ég tel að með þeirri framkvæmd á þessum lögum á þann hátt sem ég hef hér lýst hafi upprunalegur andi laganna verið mistúlkaður, en hann ætla ég að hafi verið sá að hafi Alþingi veitt heimild til kaupa á einhverri fasteign hafi fjmrh. verið ætlað það rými að þó að upphæðin sem Alþingi veitti til þessara hluta dygði ekki væri heimild til að semja um að eitthvað af andvirði fasteignarinnar yrði fengið að láni í tengslum við kaupin.

Það er augljósara en um þurfi að ræða að ef þessi heimild er inni eins og hún hefur verið eru fjárlögin á Íslandi opin. Þau eru ekki samþykkt af þinginu fyrir framtíðina. Þau eru samþykkt fyrir hvert ár. En með því að hafa þau opin á þennan veg geta ráðherrar ráðskast með fjárlögin fram í tímann eins og þeim sýnist. Og þá skulum við hugleiða í fúlustu alvöru hverjir það eru sem líklegir eru til að hafa áhrif á ráðherrana í þessu skyni. Annars vegar eru það aðilar sem stjórna stofnunum ríkisins, sem oft og tíðum eru í húsnæðishraki eins og við vitum öll, og hins vegar aðilar sem þurfa að selja ákveðna eign, annaðhvort vegna fjárfestingar sem þeir hafa farið út í eða vegna fjármálalegrar stöðu þeirra sem einstaklinga eða fjármálalegrar stöðu fyrirtækis.

Mér er ekki að fullu ljóst hvor hópurinn sækir fastar á ráðherra að taka ákvarðanir um kaup á eignum, stjórnendur ríkisfyrirtækja eða hinn hópurinn sem vill selja. En hitt blasir við að ef stjórnandi ríkisfyrirtækis finnur aðila sem vill selja og sá aðili er ráðherra mjög þóknanlegur er með þessu móti búið að útbúa leið fyrir ráðherra til þess að ráðskast með upphæðir eins og honum sýnist án samþykkis Alþingis. Alþingi kemur hvergi til sögunnar fyrr en eftir á. Ég tel að stjórnarskráin skipti valdinu í þessum efnum mjög eðlilega á milli framkvæmdavaldsins og þingsins og ég tel óeðlilegt að þingið afsali sér í almennum lögum því valdi sem það hefur í stjórnarskránni í þessum efnum. Ég tel það sjálfsagðan hlut að mál séu það vel undirbúin varðandi kaup á fasteignum að þau komi inn í heimildargrein fjárlaga á hverjum tíma en ekki sé hægt að sigla slíkum fjármálaviðskiptum fram hjá Alþingi með þeim hætti að öll kaupin eru gerð í skuld.

Ég tel að erfið staða ríkissjóðs nú á dögum hljóti að undirstrika að það er ekkert sem mælir með því að hafa í lögum heimild eins og þá sem hér getur um. Hún býður hættunni heim. Hún býður heim hættu á misnotkun. Hún býður heim hættu á vaxandi halla á fjárlögunum og er þó ekki á bætandi.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.

Umr. (atkvgr.) frestað.