04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

183. mál, eiginfjárstaða ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þeim umræðum sem fram hafa farið á hv. Alþingi, bæði á þessu og síðasta þingi, hefur mikið verið rætt um svokallaða bankaleynd og hvernig haldið hefur verið frá Alþingi upplýsingum um stöðu og hag bankanna sem óskað hefur verið eftir að fá fram hér á hv. Alþingi. Ég minni á í því sambandi að á síðasta Alþingi óskaði ég eftir að fá upplýsingar um heildarfyrirgreiðslu banka og sparisjóða til fimm stærstu lántakenda. Við þeirri spurningu fengust engin svör og var borið fyrir sig bankaleynd og að bönkum væri óheimilt að veita upplýsingar er snerta hag viðskiptamanna bankans. Að því var einnig látið liggja að verið væri að biðja um nöfn á stærstu lántakendum bankanna sem þó var alrangt.

Ég tel, herra forseti, að atburðir síðustu vikna staðfesti hvað nauðsynlegt er að Alþingi hafi greiðari upplýsingar að öllu er snertir hag ríkisbankanna og það sé í raun óþolandi að Alþingi sé meinað að fá upplýsingar til að það geti á virkan hátt gegnt sínu aðhalds- og eftirlitshlutverki með ríkisstofnunum og á ég þar ekki síst við ríkisbankana.

fsp. sem hér er fram borin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvert var hlutfall heildarfyrirgreiðslu af eigin fé Útvegsbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands til fimm stærstu lántakenda hvers um sig í árslok 1983, 1984 og 1. des. 1985?

2. Er í einhverju tilfelli um að ræða lántakendur, einn eða fleiri, sem eru svo fjárhagslega tengdir öðrum lántakendum stofnunarinnar að skoða beri heildarfyrirgreiðslur til þeirra í einu lagi?

3. Getur viðskiptaráðherra staðfest að fullnægjandi tryggingar séu fyrir ofangreindum lánafyrirgreiðslum?

4. Hver var eiginfjárstaða ríkisbankanna í árslok 1983, 1984 og 1. des. 1985?"

Þessi fsp. er m.a. fram borin vegna þess að það er ekkert ákvæði í bankalöggjöfinni sem tryggir að viðskiptabankar láni ekki einum viðskiptaaðila svo mikið fé að það stofni hag og afkomu bankans í hættu. Slík ákvæði eru þó fyrir hendi í okkar nágrannalöndum, enda er hér um grundvallaratriði að ræða til að tryggja hag banka og innistæðueigenda og sem tryggja á að mikil og óeðlileg lánafyrirgreiðsla til eins og sama aðila stofni ekki öllum bankarekstri og innistæðum sparifjáreigenda í stórfellda hættu.

Málefni Hafskips og Útvegsbankans eru ótvíræð staðfesting á því hve mikilvægt er að slík ákvæði séu í okkar bankalöggjöf. Meðan svo er háttað að ekkert slíkt ákvæði er fyrir hendi og bankarnir hafa í raun frjálsar hendur með alla lánafyrirgreiðslu er eðlilegt að slík fsp., sem ég hef hér fram borið, komi fram á Alþingi.

Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. veiti skýr svör við þessari fsp.