04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

183. mál, eiginfjárstaða ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég spurði um afstöðu hæstv. viðskrh. til þeirra upplýsinga sem hann gefur Alþingi hér um hlutfall heildarfyrirgreiðslu til fimm stærstu lántakenda. Þó hæstv. ráðh. hafi ekki beint svarað því var það ljóst af ummælum í síðustu ræðu hans að hann hefur verulegar áhyggjur af þeirri þróun sem orðin er að því er varðar lánveitingar bankanna. Ég fagna því, sem fram kom í ræðu hans, að hann hafi hug á að leggja hér fram frv. með ákvæðum sem setji bönkunum ákveðnar skorður varðandi fyrirgreiðslu til lántakenda.

Ég minni á að slíkt ákvæði bar ég fram við afgreiðslu á lögum um viðskiptabankana og það var fellt. Ég kynnti það hér fyrir jólaleyfi þm. að ég mundi leggja slíkt frv. fram. Ég taldi það brýnt í ljósi þess sem fram hafði komið í Hafskipsmálinu, en það mál er ég með í undirbúningi og mun leggja það fram næstu daga.