04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

227. mál, skipun formanns stjórnar Ferðamálaráðs

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það vill nú svo til að formaður stjórnar Ferðamálasjóðs var skipaður með bréfi ráðuneytisins dags. 29. janúar s.l. eða degi áður en fsp. hv. þm. kom fram. Formaður stjórnarinnar er Hólmfríður Árnadóttir viðskiptafræðingur, en aðrir í stjórninni, sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu ferðamálaráðs, eru Ágúst Hafberg framkvæmdastjóri og Sigurður Skúli Bárðarson hótelstjóri.

Að beiðni formanns Ferðamálasjóðs er stjórnin skipuð frá og með 15. febrúar vegna þess að hún fékkst ekki til að taka við skipun vegna anna annars staðar. Ástæðan fyrir því að ekki var skipað á áramótum í stjórnina var að ég vildi fá yfirlit yfir stöðu Ferðamálasjóðs þannig að þeir aðilar sem tækju við stjórninni vissu nokkurn veginn hvernig Ferðamálasjóður stæði. Þannig er háttað um áramót að Ferðamálasjóður var í vanskilum við Framkvæmdasjóð sem nemur 14,5 millj. kr. og samþykktar umsóknir fyrrv. stjórnar ferðamálaráðs voru upp á 15 millj. kr. þannig að tæpum helmingi af ráðstöfunarfé sjóðsins á þessu ári er búið að ráðstafa í umsóknir um lán eða þá að hann fer upp í vanskil við Framkvæmdasjóð.

Ég hygg að það muni vera þrjár formlegar umsóknir sem liggja fyrir það er ég veit um. Þessar umsóknir verða vafalaust ekki teknar til endanlegrar afgreiðslu mjög fljótt, ekki fyrr er búið er að sjá fyrir því að tekjur séu komnar inn til þess að greiða út lánsloforð frá fyrra ári. Ég sá enga ástæðu til annars en að væntanlegur formaður Ferðamálasjóðs vissi nokkurn veginn stöðu mála þegar hann tæki við og það fólk sem ég ræddi við í þessu sambandi taldi allt sjálfsagt að þær upplýsingar lægju fyrir. Þessar upplýsingar fékk ég 20. janúar svo að það var ekki lengi beðið eftir skipun formanns í sjóðsstjórnina.

Hitt er svo önnur saga, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, skerðing á tekjum þessa sjóðs eins og fleiri sjóða. En það hefur verið háttur allmargra ríkisstjórna að undanförnu að skerða lögboðin framlög til sjóða. Þá má leita nokkuð langt aftur í tímann. Hér er því ekki um neitt nýtt að ræða hvað þetta snertir þó að það sé hábölvað að mínum dómi.