04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

227. mál, skipun formanns stjórnar Ferðamálaráðs

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég vil taka fram að ég aflaði mér upplýsinga hjá þeim sem gerst vissu samdægurs og ég lagði fram þessa fsp. og þá vissi enginn maður til þess að hæstv. ráðh. hefði skipað formann sjóðsstjórnar og voru margir orðnir langleitir mjög.

Ég tel að ástæður þær sem hæstv. ráðh. færði hér fram skýri að vísu hvers vegna honum tókst svo til, en ég tel það þó engan veginn réttlæta þá miklu töf sem þarna varð á. Ég bendi hæstv. ráðh. á að hann hefði getið skipað formann stjórnar löngu fyrr án þess að það þýddi sjálfkrafa að sá formaður tæki til við að ausa út fé, sé það af skornum skammti, og það dreg ég reyndar ekki í efa. Sá formaður hefði þó a.m.k. getað komið þeirri sjóðsstjórn saman eins og lögin gera ráð fyrir og hún hefði þá getað gefið þeim sem til sjóðsins leituðu einhver svör, a.m.k. þau svör sem hæstv. ráðh. hefur nú gefið þingheimi.

Það sem ég gagnrýni fyrst og fremst er að ferðamálaráð skipaði sína fulltrúa þegar fljótlega eftir að ný lög höfðu tekið gildi, en það hefði hæstv. ráðh. einnig getað gert að mínu mati þó að hann hefði farið þess á leit við nýja stjórn að hún tæki ekki til við að úthluta fyrr en fjárhagsstaða sjóðsins lægi endanlega og skýrt fyrir og er það út af fyrir sig skiljanlegt. En að láta þessi lög taka gildi og síðan líða marga mánuði áður en sjóðsstjórnin er fullskipuð er heldur klén frammistaða, leyfist mér vonandi að segja, herra forseti. (Samgrh.: Það eru 29 dagar en ekki mánuðir.) Ég geri ráð fyrir því að hæstv. samgrh. viti hvenær lögin tóku gildi og ég geri einnig ráð fyrir því að hæstv. samgrh. viti hvenær ferðamálaráð skipaði sína fulltrúa. Hann getur svo borið saman það vinnulag sem haft var á þessum tveimur bæjum og haft um það sínar meiningar eins og honum sýnist fyrir mér, en ég stend við þá skoðun mína að ferðamálaráð og stjórn Ferðamálasjóðs hefði betur verið fullskipuð þegar og eins fljótt og kostur var eftir að ný lög tóku gildi.