04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

111. mál, raforkuverð til álversins í Straumsvík

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. iðnrh. fyrir stuttorða og greinargóða skýrslu sem hann mælti hér fyrir áðan. Ég þarf ekki að fara mjög löngum orðum um þessa skýrslu, það kemur ekkert í henni mér á óvart. Ég vil vekja athygli á því að þó að hv. síðasti ræðumaður hafi vitnað til bjartsýnna spáa, sem settar voru fram um orkuverð þegar málið var til meðferðar á þinginu í fyrra, þá var það ekki svo með alla stuðningsmenn ríkisstj.

Ég ætla að leyfa mér að vitna til nál. á þskj. 195 frá síðasta þingi sem er flutt af 1. minni hl. iðnn., okkur hv. þm. Ingvari Gíslasyni. Við leggjum í upphafi til að frv. verði samþykkt, þ.e. að staðfestur verði samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium. „Þrátt fyrir þessa afstöðu okkar," segjum við síðan, „höfum við undirritaðir ýmsar athugasemdir að gera varðandi þetta mál í heild. Þótt atvik og aðstæður í málinu leiði til þeirrar niðurstöðu að rétt sé að staðfesta fyrirliggjandi samning með lögum fer því fjarri að aðrar eða víðtækari ályktanir sé hægt að draga af því um ágæti samskipta Íslendinga við svissneska auðhringinn Alusuisse í fortíð, nútíð og framtíð.

Aðalsamningurinn frá 1966, sem er grundvöllur allra viðskipta Íslendinga við Alusuisse, er þess eðlis að ekki er að vænta góðrar samningsstöðu um breytingar Íslendingum til hagsbóta. Á þetta að sjálfsögðu við um samninginn í heild en þó helst um þau ákvæði sem fjalla um orkuverð, skatta og meðferð deilumála fyrir dómstólum. Hafa öll þessi ákvæði reynst þung í vöfum og óhagstæð Íslendingum, seinvirk og afar kostnaðarsöm.

Miðað við anda og efni aðalsamningsins frá 1966 var því ekki að vænta meiri árangurs en fram hefur komið í starfi samninganefndar Íslendinga við Alusuisse um þann ágreining sem uppi hefur verið síðustu tvö, þrjú ár um skattamál, orkuverð og ýmis önnur atriði í samskiptum aðila. Aðalsamningur verndar Alusuisse og Íslenska álfélagið í bak og fyrir um flest þau atriði sem mestu skipta.

Þá kemur það til, sem ekki hefur bætt aðstöðu samninganefndar iðnrh. þegar til kastanna kom, og á þetta leggjum við undirritaðir mikla áherslu, að orkuverð til álbræðslna hefur verið að lækka að undanförnu í heiminum og er enn lækkandi og ríkir alger óvissa um hvort eða hvenær það kynni að hækka í framtíðinni.

Ástæðan til þess að orkuverð fer lækkandi er augljós. Áliðnaður er í lægð og óálitlegur atvinnuvegur eins og stendur og framtíð áliðnaðar getur ekki talist ákaflega björt heldur hið gagnstæða. Að vísu hafa gestir iðnn. kynnt nm. svo kallaðar „spár“ erlendra ráðgjafarfyrirtækja sem gera sér það að atvinnu að spá um framtíðarhorfur í áliðnaði, þ.e. hvenær líkur séu fyrir því að hagur áliðnaðar taki að vænkast, en um það eru spámenn þessir nú spurðir.

Undirritaðir nm. telja varhugavert að gera mikið úr slíkum spám og vona á þær, ekki af því að spámennirnir kunni ekki vel til verka svo sem verða má, heldur vegna þess að hér er um þess háttar líkindareikning að ræða sem háður er mikilli óvissu og spá af þessu tagi er fjarri því að vera óskeikul. Allt eins má hugsa sér að álkreppan eigi eftir að vaxa enn og vara lengur en séð verður.“ Kemur þá í ljós að við hv. þm. Ingvar Gíslason reyndumst meiri spámenn en Chase Econometrics of Research Statistics í Bandaríkjunum og James King í Bretlandi. Ekki sendum við þó ráðuneytinu reikning fyrir þessar ráðleggingar, enda var ekki farið eftir þeim.

Síðar í nál. segjum við: „Með tilliti til þessa tvenns sem hér hefur verið rakið, í fyrsta lagi óhagstæðs aðalsamnings frá 1966 og í öðru lagi kreppu í áliðnaði, teljum við undirritaðir að samningsaðstaða Íslendinga við Alusuisse um hækkað raforkuverð hafi ekki verið góð. Því teljum við að ekki sé ástæða til að vanmeta þá niðurstöðu sem fyrir liggur um raforkuverðið. Sé málið virt í heild var naumast við betri kjörum að búast. Íslendingar eru og verða heftir af grundvallarsamningi um álbræðsluna í Straumsvík frá 1966. Af þeim samningi hljóta Íslendingar að súpa seyðið til loka samningstímabilsins. Telja verður þó að miðað hafi í rétta átt um endurbót á aðalsamningi að því leyti að bætt hefur verið í hann nýju ákvæði um endurskoðun raforkuverðs á fimm ára fresti.“

Í niðurlagi nál. segjum við, með leyfi forseta: „Þrátt fyrir þessar almennu athugasemdir og fyrirvara um einstök atriði, sem tengjast þessu máli, teljum við þá hækkun orkuverðs, sem um er samið, mikilvæga úrbót miðað við þau óviðunandi kjör sem Íslendingar hafa búið við skv. núgildandi orkusamningi og mælum því með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.“

Þetta var undirritað á Alþingi 27. nóv. 1984.

Ég leyfi mér að efast um að við næðum þessu verði núna þótt við sendum okkar dýrustu sérfræðinga til samninga og ég fullyrði að niðurstaða okkar Ingvars Gíslasonar reyndist hárrétt. Við gerðum okkur engar gyllivonir um að í þessum samningi fælist eitthvað annað og meira en þar stóð. Það er sannarlega skárra að veita viðtöku 12,5 millum, eins og við fáum nú, en því orkuverði sem skv. gamla samningnum mundi vera greitt okkur ef ekki hefði fengist fram þessi hækkun og væri líklega talsvert neðan við 10 mill og gilti í ráðherratíð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Niðurstaða okkar hv. þm. Ingvars Gíslasonar hefur reynst rétt og ég vil í allri hógværð láta það koma hér fram.