28.10.1985
Neðri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að taka þátt í umræðu um þetta mál hér í deildinni að þessu sinni, en vegna þess sem hér hefur komið fram sé ég ástæðu til þess.

Í fyrsta lagi vil ég minnast á það sem hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson sagði um ákvæði þessa frv. til laga um sveitarstjórnir sem eru til umræðu. Hann ræddi um Ill. kafla frv., sem fjallar um kosningar til sveitarstjórna, og gerði þann kafla sérstaklega að umræðuefni. Ég vildi benda á að sá kafli í frv. er nánast unninn á ábyrgð hv. þm., en hann var félmrh. þegar endurskoðunarnefndarfrv. svokallaða var samið og þessi kafli var sendur ráðherra sérstaklega til umfjöllunar á sínum tíma. Ætti þm. þess vegna að kannast við þennan kafla alveg sérstaklega.

Varðandi hins vegar þau atriði sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom hér inn á og varða þriðja stjórnsýslustigið vil ég minna á að í allri umræðu um frv. að nýjum sveitarstjórnarlögum hefur verið lögð megináhersla á að efla sveitarfélögin. Síðan hefur komið upp í umræðu undansláttur, má segja, í þessu máli, undansláttur sem er fólginn í því að menn hefja umræðu um þriðja stjórnsýslustigið. Ég tel að tillögur um millistig séu fyrst og fremst til þess fallnar að koma í veg fyrir þá mikilvægu lagasetningu sem frv. að nýjum sveitarstjórnarlögum er. Ég tel að með millistigi verði komið í veg fyrir eflingu sveitarfélaganna og þess vegna get ég ekki mælt með því. Það fylgir því nokkur þversögn að mæla gegn sameiningu sveitarfélaganna, en leggja til millistig sem væntanlega tæki verulega völd af sveitarfélögum því að með millistigi yrði væntanlega fært vald bæði frá sveitarfélögum og ríki til þessa nýja stjórnsýslustigs. Þetta vildi ég að kæmi fram í þessari umræðu.

Að öðru leyti vil ég segja að frv., sem hér er til umfjöllunar, er svo sem fram hefur komið að nokkru frábrugðið tillögum endurskoðunarnefndar. Það var ekki við öðru að búast. Það olli mér verulegum vonbrigðum þegar frv. félmrh. kom fram og 5. gr. hljóðaði svo sem hún hljóðar, gerir ráð fyrir að lágmarksíbúatala sveitarfélaga sé 50. Um það ætla ég ekki að fjalla sérstaklega hér enda ljóst að 100 íbúa markið er umdeilt.

Ég vil einnig nefna IX. kaflann sem fjallar um lögbundið samstarf sveitarfélaga. Ég tel að sá kafli geti ekki verið með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir og tel fullvíst að sjálfstæðismenn muni leggja áherslu á breytingar á þeim kafla og jafnvel að hann verði felldur niður í þeirri mynd sem frv. gerir ráð fyrir honum.

Ég ætla ekki að fjalla nánar um frv., en legg áherslu á að það fái afgreiðslu með breytingum á þessu þingi og verði afgreitt þannig að hægt verði að kjósa til sveitarstjórna í vor á grundvelli nýrra sveitarstjórnarlaga.