04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

111. mál, raforkuverð til álversins í Straumsvík

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að nokkrar stuttar og tiltölulega hógværar athugasemdir séu gerðar við þá staðlausu stafi og þau gífuryrði sem fólust í ræðu hv. 5. þm. Austurl. hér áðan í þessum ræðustól vegna fyrirspurnar og skýrslu hæstv. iðnrh. um raforkuverð til álversins í Straumsvík skv. beiðni nokkurra þm. Alþb.

Þeim ágæta þm. fór líkt og fyrri daginn þegar málefni álverksmiðjunnar í Straumsvík eru á dagskrá og samskipti og samningar við Alusuisse að hið sjúklega hatur þm. á þessum aðilum blindar svo dómgreind hans að varla var mark takandi á nokkru orði sem hann sagði í sinni ræðu hér áðan.

Það sem um er að ræða, og ákaflega skýrt kemur fram í svari hæstv. iðnrh., er það að niðurstaðan hvað raforkuverðið varðar til Landsvirkjunar frá álverinu í Straumsvík á árinu 1985 er 12,5 mill á kwst. en ekki, eins og spádómar stóðu til og upplýst var í álitsgerð forstjóra Landsvirkjunar þegar þessir samningar voru á döfinni, 13,8 mill fyrir árið 1985.

Með frv. því, sem lagt var fyrir Alþingi 1984 um lagagildi viðaukasamningsins, þ.e. breytingarnar á rafmagnssamningnum milli ÍSALs og Landsvirkjunar sem gerðar voru með því frv., fylgdi fskj. sem inniheldur umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðar breytingar á rafmagnssamningnum. Í þeirri umsögn forstjóranna er vikið að áætlun um framtíðarorkuverð sem þeir byggja sínar spár á. Sérstaklega byggja þeir sínar spár á grundvelli spáa sem þrjú sérfræðifyrirtæki erlend höfðu gert að þeirra beiðni, þ.e. Chase Econometrics og sérfræðinganna James King og Robin Adams, en allt eru þetta þekkt ráðgjafarfyrirtæki á sviði álviðskipta og álframleiðslu.

Það var á grundvelli þessara spáa hinna erlendu þriggja sérfræðifyrirtækja sem forstjórar Landsvirkjunar gáfu út álit sitt og umsögn sem er fskj. I með frv. frá 1984. Þessi sjónarmið og þessar niðurstöður kynnti ég iðnrh. þáv. og aðrir ræðumenn sem þátt tóku í þessum umræðum og vitnuðu til þessara upplýsinga.

Nú ætlar allt um koll að keyra í huga hv. 5. þm. Austurl. vegna þess að þessar spár, sem hv. þm. Páll Pétursson gerði einnig að umtalsefni áðan, hafa ekki fyllilega staðist, á þeim er u.þ.b. 8 eða 9% munur. Af hverju er þessi tiltölulega mjög litli munur? Vegna þess að eins og allir vita er ákaflega erfitt að spá og um framtíðina sér í lagi! Skýringuna á því er greinilega að finna í svari hæstv. iðnrh. sem liggur hér á borðum þm. í Sþ. í dag.

„Sé miðað við þessar forsendur," segir hér orðrétt í umsögninni, „er heildarlækkun á verðgildi dollarans vegna gengisbreytinga og verðbólgu rétt um 10% á tímabilinu.“ Það kemur heim og saman að hér er um þennan mismun að ræða. Ástæðan er lækkun - hér er ég að tala um lækkun á raungildi raforkuverðsins á árinu 1985 - vegna lækkunar bandaríkjadollarans gagnvart alþjóðlegum gjaldmiðlum og vegna alþjóðlegrar verðbólgu. Það er vegna þessa, eins og segir hér orðrétt í svarinu, sem ráðuneytið leitaði til Seðlabanka Íslands og er svar bankans birt í sérstakri töflu sem með þessari skýrslu fylgir. Þar kemur fram að heildarlækkun á verðgildi dollarans er um 10% á þessu tímabili.

Ég held að málið liggi alveg ljóst fyrir. Menn sáu ekki fyrir þá verulegu lækkun á raunverði dollarans sem síðan átti sér stað og kom í ljós.

Það getur vel verið að hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hafi haft einhverjar einkaupplýsingar um að slík mundi verða gengisþróun dollarans. Hafi hann haft þær upplýsingar komu þær ekki fram í ræðu þessa hv. þm. 1984 þegar þessi mál voru til umræðu í Nd. Alþingis.

Hér er um atriði að ræða sem mjög erfitt er að segja fyrir um og spá fyrir um. Það vita allir að eitt af því erfiðasta sem menn taka sér fyrir hendur að segja fyrir um er gengisþróun, bæði íslensks en þó fyrst og fremst erlendra gjaldmiðla. Þess vegna hafa vitanlega allir slíkir fyrirvarar verið hafðir á þessum spám.

Hv. þm. reynir að gera sem allra mest úr því að hér er munurinn á verðinu sá að í stað þess að skv. spádómunum var gert ráð fyrir 13,8 millum er það ekki nema 12,5. Út af þessu leggur hann á þann hátt að hér hafi samninganefndarmenn og hæstv. þáv. iðnrh. verið vísvitandi að blekkja þingbræður sína og hér hafi verið hraklega að málum staðið. Þetta eru svo fáheyrð gífuryrði að þau eru vitanlega ekki svaraverð.

Þegar maður heyrir slíkar fullyrðingar er kannske ekki úr vegi að víkja að því hver er hagurinn að þessu samkomulagi fyrir Landsvirkjun, fyrir íslensku þjóðina í heild. Þá erum við ekki að byggja á neinum spádómum sem vissulega geta reynst skeikulir fram í framtíðina. Við skulum bara líta á þau ár sem liðin eru. Hver er hagur okkar af þeim raforkuverðsákvæðum jafnvel þó að við reiknum með lágmarksverðinu 12,5 millum sem er að finna í samningnum?

Við skulum líta á hvernig raforkuverðið var til Landsvirkjunar frá ÍSAL þegar hv. 5. þm. Austurl. lét af störfum eftir nærri fimm ára setu í embætti iðnrh. Við skulum líta á hvernig raforkuverðið var þá statt og hvaða tekjur íslenska þjóðin hafði af þeim samningi sem þáv. iðnrh. stóð að framkvæmd á í nærfellt fimm ár. Hvert var raforkuverðið til Landsvirkjunar alla hans ráðherratíð?

Það er lýðum ljóst eða ætti að vera það eftir þær miklu umræður sem hann m.a. sjálfur hefur staðið fyrir um þessi mál, og virðist kannske örlítið misráðið af honum að vera að draga þessi mál of mikið fram í dagsljósið miðað við feril hans í þessum málum, að allan þennan tíma, öll þessi fimm ár var raforkuverðið 6,5 mill. Þrátt fyrir góðan vilja og ýmsar tilraunir til að fá þessari staðreynd breytt, þessu verði sem hann tók við þegar hann settist í ráðherrastól 1978 varð sú barátta algerlega árangurslaus. Hún var raunar ekki aðeins árangurslaus heldur stórkostlega neikvæð vegna þess að á þessu fimm ára tímabili tókst þessum hv. alþm. að forklúðra svo álmálinu í heild, samstarfinu við Alusuisse og álverið í Straumsvík, að heita mátti að viðræður gætu ekki lengur farið fram milli aðila vegna þess andrúmslofts sem þessi fyrrv. ráðherra hafði skapað í þeim málum. Samningsgrundvöllur virtist því enginn vera fyrir hendi þegar hann lét af embætti. Í svo ofboðslega sjálfheldu og klúður hafði þessum fyrrv. ráðherra tekist að koma þessu máli.

Ég segi ekki að það hafi verið eins og við manninn mælt að þegar hann hvarf úr embætti hafi hlutirnir farið að breytast til batnaðar. (Gripið fram í: Það var nærri því.) Það tók nokkurn tíma, það tók rúmlega ár að semja um nýtt raforkuverð, það sem hv. þm. hafði ekki tekist á fimm ára ráðherratíð.

Hvað gerðist þá með þeim samningi sem við báðir höfum gert hér að umtalsefni í dag, breytingu á raforkusamningnum, sem lagður var fyrir Alþingi á haustdögum 1984? Hvað gerðist þá, hvað fólst í breytingunum? Það voru engin smátíðindi sem í þeirri breytingu fólust. Það var ekki annað en það að rafmagnsverðið, sem auðhringurinn illi í Sviss var nú skyldugur til að greiða Landsvirkjun og íslensku þjóðinni, nánast tvöfaldaðist. Í staðinn fyrir að þiggja vesæl 6,5 mill úr hendi auðhringsins í Sviss skuldbatt nú auðhringurinn sig til að borga nánast helmingi meira fyrir raforkuna, eða 12,5 mill, nokkrum mánuðum eftir að hv. þm., fyrrv. ráðherra, hvarf úr embætti.

Hvað þýðir þetta í tekjum fyrir íslensku þjóðina? Það er kannske ekki úr vegi, í ljósi svigurmæla og gífuryrða hv. 5. þm. Austurl., að velta því fyrir sér hvað þessi nýi samningur, sem hér er nú úthúðað á alla lund, þýðir fyrir íslensku þjóðina í auknum tekjum. Við skulum velta því fyrir okkur augnablik því að það er vitanlega mergurinn málsins.

Verðið hækkaði um 6 mill með þessum nýja raforkusamningi, 6 mill gefur hann Landsvirkjun og þá íslenska þjóðarbúinu í tekjur hvorki meira né minna - það er nettóhækkunin - 320 millj. kr. á ári. Ég spyr: Er það ekki nokkurt fé? Það er von að spurt sé. Það má vel vera að hv. 5. þm. Austurl. þyki þetta ekki vera nema vasapeningar. Að vísu tókst honum aldrei að ná þessum auknu tekjum inn til Landsvirkjunar og inn í íslenska þjóðarbúið. En þetta eru vitanlega allmiklar aukatekjur sem náðust með þessum samningi sem hér er nú sem mest gagnrýndur.

Álverðið er sem betur fer að stíga upp á við. Það veit vitanlega enginn hve hátt það fer eða hve lengi hækkunin varir. Við skulum því ekki vera að spá neinu hærra álverði og þar af leiðandi um orkuverð því að orkuverðið er tengt álverðinu. Við skulum bara reikna með því að á næstu árum gildi lágmarksákvæði rafmagnssamningsins nýja og verðið verði 12,5 mill. Við skulum binda okkur við botninn og reikna með því. (Gripið fram í.) Hvað mundi þetta þýða, það sem kalla má svartsýnisspá, eins og stundum er gert í spádómum? Við skulum bara halda okkur við lágmarkið. Hvað mundi það lágmark gefa íslenska þjóðarbúinu miklar tekjur frá því að samningurinn var gerður til 1989, á fimm ára tímabili? Þær auknu tekjur, sem lágmarksverðið eitt gefur Landsvirkjun og íslenska þjóðarbúinu - það er staðreynd því að niður úr því verður ekki farið - á þessu fimm ára tímabili, 1984-1989, eru hvorki meira né minna en 1,6 milljarðar kr. Það er hagurinn sem við munum örugglega, sannanlega og óvefengjanlega hafa af hinum nýja raforkusamningi sem tók gildi og var hér fyrir Alþingi 1984. Er þá aðeins miðað við lágmarkið 12,5 mill. Öll hækkun verður til þess að við förum upp úr þessum 1,6 milljörðum í tekjum.

Það má vel vera og það var spá Landsvirkjunarforstjóranna á sínum tíma að hagnaðurinn yrði rúmlega 2,2 milljarðar kr. á þessu tímabili. En, eins og ég segi, með því að miða við alsvartsýnustu spá, miðað við lágmarkið, er hann samt 1,6 milljarðar kr. Þetta er samningur sem má vel vera að hv. 5. þm. Austurl. telji óhagstæðan íslensku þjóðarbúi. En það er ákaflega erfitt fyrir mig að komast að sömu niðurstöðu. Fyrir þá upphæð - svo ég taki aðeins dæmi af verklegum framkvæmdum sem alltaf eru öðru hverju til umræðu í sölum Alþingis - hefði mátt malbika allan hringveginn og vel það, svo mönnum sé aðeins ljóst hvaða upphæðir eru hér í veði. Það er sambærileg tala sem það mundi kosta.

Síðan má gjarnan í þessu sambandi leiða hugann að því hvers íslenskt þjóðarbú hefur farið á mis, hve miklum verðmætum við höfum glatað vegna þess að orkumálum þjóðarinnar á tímabilinu 1978-1983 stýrðu menn sem ekki báru gæfu til þess að ná jafnvel þessari „ómerkilegu“ hækkun upp í 12,5 mill. Þeir voru alltaf að rembast eins og rjúpa við staur innan 6,5 milla. Ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði borið gæfu til þess ári eftir að hann tók við embætti 1979 að gera þennan margumtalaða og illa umtalaða raforkusamning, sem ég átti þátt í að gera 1984 ásamt öðrum kollegum mínum í samninganefnd um stóriðju, ef hv. þm. hefði nú borið gæfu til þess að gera þennan samning strax 1979, skömmu eftir að hann tók við embætti iðnrh., hver hefði þá verið hagur íslenska þjóðarbúsins af þeim samningi sem því miður var aldrei gerður? Það liggur alveg ljóst fyrir. Ef þessi samningur hefði verið gerður 1979 hefði íslenska þjóðarbúið hagnast fram að þeim tíma sem hann raunverulega var gerður, 1984, um hvorki meira né minna en 2,3 milljarða ísl. kr.

Það er þess vegna kannske skiljanlegt að stjórnmálasamtök ungra manna hafi látið prenta reikning að gamni sínu í fyrra í tímariti einu. Reikningurinn var stílaður á fyrrv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson. Hann var upp á upphæð sem var mjög svipuð þeirri sem ég nefndi, þ.e. tekjurnar sem aldrei runnu til Íslands, tekjuaukinn sem fyrrv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni tókst ekki að afla íslenska þjóðarbúinu vegna þess að alla hans ráðherratíð sátum við í 6,5 millunum. Ef hann hefði borið gæfu til að semja um það sem var samið um af fyrrv. iðnrh. Sverri Hermannssyni fyrir tveimur árum, 1984, ef hann hefði borið gæfu til að semja um það sama þegar hann settist í embætti væri íslenska þjóðarbúið 2,3 milljörðum kr. ríkara en raun ber vitni. Þess vegna segi ég: Það er stundum dýrt að hafa iðnrh. sem tekst ekki að semja eins og kollegum þeirra sem síðar taka við embætti.

Ég hef gert nokkrar staðreyndir í þessu máli að umtalsefni. Ég hef ekki verið að tala um neinar spár eða spádóma. Ég hef farið með tölur sem eru staðreyndir vegna þess að þær byggja allar á lágmarksorkuverðinu sem um er samið í þessum raforkusamningi. Ég hef vegna orða hv. 5. þm. Austurl. talið alveg óhjákvæmilegt að draga þær fram í dagsljósið og minna á þær vegna þess að vitanlega eru þessar tölur, þessi gífurlegi hagur, helmingshækkun á raforkuverðinu 1984, kjarni og mergur málsins en ekki hitt að spár forstjóra Landsvirkjunar frá 1984, í fskj. með frv. sem þá var lagt fyrir þingið, sem byggðar voru á bestu spám þekktustu fyrirtækja í áliðnaði, hafa brugðist vegna utanaðkomandi forsendna, en þó ekki nema um sem tiltölulega litlu munar.

Það er alveg hárrétt að vitanlega hefðu 13,8 mill árið 1985 og 13,8 eða 14 mill á árinu sem nú er að fara í hönd gefið meiri tekjur en þær verða ella. Það liggur alveg í augum uppi. Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. 5. þm. Austurl. um að það er mjög miður að þróunin í álverðinu fyrst og fremst og einnig að því er varðar raungildi dollarans hefur orðið sú sem raun bar vitni. En það eru þættir sem við ráðum því miður ekki við.

En ég vísa því alfarið heim til föðurhúsanna að hér hafi þingheimur á nokkurn hátt verið blekktur. Það stendur skýrum stöfum hverjir stóðu að þessum spám sem voru endurteknar hér í þingræðum. Ég mótmæli að hraklega hafi verið að þeim samningum staðið sem hækka orkuverðið nánast um helming 1984. Það er ekki hrakleg frammistaða, allra síst í ljósi ferils fyrrv. iðnrh. sem í fjögur, nánast fimm ár hafði reynt að gera það sama gersamlega án árangurs, en kemur nú í þennan ræðustól úttútnaður af vandlætingu til að gagnrýna þá menn sem hafa nánast tvöfaldað tekjur ríkisins úr hendi auðhringsins í Svisslandi.