04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

111. mál, raforkuverð til álversins í Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það eru aðeins í upphafi míns máls nokkur orð til hv. þm. Páls Péturssonar, 2. þm. Norðurl. v., sem vitnaði til nál. í sambandi við afgreiðslu frv. til l. vegna 3. viðauka í nóvember 1984. Hann, ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni, stóð að þessum samningi, sem þá var gerður, og studdi hann. Þeir vöruðu hins vegar réttilega við bjartsýnum spám, eins og fram kom í upprifjun hv. þm., en töldu það fram sem meginröksemd fyrir því að styðja þetta frv. ríkisstj., greiða atkvæði með samningnum, að aðalsamningurinn á sínum tíma hafi verið svo slæmur að það hefði ekki verið von á betri uppskeru úr samningunum við Alusuisse.

Ég benti á það á sínum tíma hversu fráleit þessi röksemdafærsla væri. Þarna var verið að brjóta upp aðalsamning og spurningin um það hversu langt við næðum til leiðréttingar var auðvitað um pólitískan styrk og pólitíska samheldni í togstreitunni um þennan samning. Þar gaf Framsfl. sannarlega eftir á reipinu 1984, aftur 1985 og hafði raunar gert það 1975 líka þegar 2. viðauki við þennan samning var gerður þannig að hlutur Framsfl. í þessari samningagerð, þrátt fyrir ýmis góð varnaðarorð hv. þm. Páls Péturssonar fyrr og síðar í sambandi við þetta mál, er ekki fagur og á hæstv. forsrh. nokkurn þátt í því máli öllu saman alveg aftur á daga upphaflegs samnings á sjöunda áratugnum.

Er hv. þm. Gunnar G. Schram horfinn úr þingsal? Mér þætti vænna að hv. þm. væri viðstaddur þessa umræðu, en það var vegna orða hans fyrst og fremst sem ég bað aftur um orðið. Hann kom hér upp og viðhafði málflutning, sem er orðinn mjög kunnuglegur úr hans munni og ekki út af fyrir sig ástæða til að hafa mjög mörg orð um þann málflutning allan, til réttlætingar sínum gerðum. En það var sannarlega athyglisvert hvaða völl hv. þm. haslaði sér í sambandi við útreikninga nú. Það var nokkuð annar völlur en hann stakk út 1984 í þessu efni. Ég vitnaði til hans máls þar sem hann sagði m.a.: „Verður þá orkuverð á þessu tímabili 15 mill á verðlagi ársins 1984.“ Það var grunnurinn sem hann stóð á þá. Nú þykir honum varlegra að halda sig við botninn. Þetta eitt út af fyrir sig segir kannske meira en mörg orð um hver raunveruleg staða þessa máls er og hvernig hv. þm. hefur séð sig tilknúinn að lækka svolítið flugið í sínum málflutningi. Ég get ekki annað en óskað honum til hamingju með að hafa tekið þá stefnu niður á við í orðum sem lesa mátti út úr máli hans áðan.

Síðan var hann að reyna að skýra hvers vegna spárnar hefðu brugðist og taldi að þarna væri 8 eða 9% munur og hann væri tilkominn vegna þess að dollar hefði rýrnað um 10% á tímabilinu. Ja, þetta var skrýtinn reikningur. Þarna var hv. þm. að gera samasemmerki á milli verðþróunar á áli, finna beint samhengi á milli verðþróunar á áli og gengi bandaríkjadals. Ég held að það hefði mátt halda því fram með nokkrum rökum að lækkun dollars upp á síðkastið hefði átt að ýta undir áliðnaðinn og valda hækkun á álverði en ekki öfugt. Þessa röksemdafærslu, sem hv. þm. var með sem skýringu á því hvers vegna spárnar hefðu brugðist svo herfilega, þyrfti að lýsa betur inn í en ég ætla að gera hér. Ég bendi einfaldlega á hversu barnalega er þarna haldið á máli, hversu fjarstætt það er að ætla að draga þarna samasemmerki á milli.

Svo fór hv. þm. í gamla farið að reikna út hvað samningurinn frá 1984 hefði nú gefið allt það tímabil sem ég var iðnrh. ef hann hefði verið í gildi. Þetta er hv. þm: var búinn að reikna út trekk í trekk hér í þingsölum, maðurinn sem ásamt öllu stjórnarandstöðuliði Sjálfstfl. á árunum 1978-1983 stóð vörð um gamla samninginn, stóðu í ræðustól tímunum saman fram á árið 1982, þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, og vörðu álsamninginn og rafmagnssamninginn milli Landsvirkjunar og ÍSALs í líf og blóð og töldu honum ekkert til foráttu. (GGS: Ég var ekki kominn á þing þá. ) Hv. þm. var í biðsal þá, sjálfur ekki kominn inn á þing, en þeir voru nógu margir samt og allt of margir, flokksbræður hans hér á Alþingi á þeim tíma, sem rembdust við það eins og rjúpa við staur að verja þennan rafmagnssamning og hef ég oft bent á það, m.a. óskað eftir því að hv. 4. þm. Reykv., sem stendur í samningum um stóriðjumál fyrir núv. ríkisstj., kæmi í þennan ræðustól og benti okkur á hvenær fyrst hafi örlað á því hjá talsmönnum Sjálfstfl. á þessum tíma að tekið væri undir málflutning minn og annarra á þeim árum að þennan raforkusamning yrði að brjóta upp og fá honum breytt. Ég bíð enn þá eftir hv. þm. (GGS: Hv. þm. Þetta verður ekki gert.)

Á þessum árum var skapaður sá grunnur sem samningamenn núv. ríkisstj. höfðu til að fá breytingar á þessum samningi, en svo illa var haldið á máli sem raun ber vitni að sá grunnur nýttist ekki nema að litlu leyti í endurskoðun á rafmagnssamningnum og jafnhliða var glutrað niður fjölmörgum þáttum í sambandi við skattamál og önnur samskiptamálefni sem leiða það af sér að heildarhagur Íslands virðist ætla að verða lítill, kannske enginn til lengri tíma litið, út úr þessari samningsgerð. Auðvitað veit hv. þm. það, og það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með þessu máli, að hefði ekki verið farið ofan í saumana á viðskiptaháttum álversins í Straumsvík á árunum 1980 og þar um kring og dregið fram í dagsljósið hvernig Alusuisse stóð að uppgjörsmálum gagnvart íslenska ríkinu, þá hefði núv. ríkisstj. ekki haft mikið í höndum til þess að ná fram breytingum á samningum. En hún hélt illa á þeim spilum og því fór sem fór.

Það sem vantaði á þeim árum sem ég fór með iðnaðarmál í ríkisstj. var samheldni og stuðningur þáv. stjórnarandstöðu og að hluta til einnig stjórnarliða eins og í Framsfl. til að knýja Alusuisse til samninga. Hér á Alþingi var staðan nokkurn veginn til helminga stjórnarandstaða og ríkisstj. og brotalamirnar náðu alla leið inn í ríkisstj. Um þetta vissi Alusuisse nákvæmlega upp á hár og hafði auðvitað enga ástæðu til að fara að semja við slíkar aðstæður. Hins vegar stóðu bakreikningar á auðhringnum á þessum árum sem hann ekki gat hlaupið frá og voru komnir fyrir dóm og áttu m.a. þátt í því að knýja fyrirtækið til samninga að lokum sem hins vegar gáfu ekki þá uppskeru sem vera hefði átt og allar forsendur af Íslands hálfu gáfu tilefni til, öll staða Íslands gaf tilefni til.

Svo aðeins nokkur orð í sambandi við útreikninga hv. þm. Hann var að reikna út hversu mikill hagurinn ætti að verða, a.m.k. miðað við botninn, á þessu fimm ára tímabili. Það er sannarlega fróðlegt að bera saman útreikningana og þingskjölin sem lögð voru fram til stuðnings þessum samningi og þá útreikninga sem hv. þm. nú heldur sig við. Hagurinn varðandi raforkuverðið eitt og óverðtryggðan dollar er í tölum: 7,4 millj. dollarar á ári x 5 gefur 37 millj. dollara. Hvað stóð í fskj. I, hv. 2. þm. Reykn., um þetta efni sem líklegur hagur Íslendinga af þessum raforkusamningi? Það voru ekki 37 millj. dollarar. Það voru 64 millj. dregnar upp í línuritum og töflum. Við eigum eftir að sjá hver leikslokin verða í þeim efnum. En þessi dollar er óverðtryggður. Þessi samningur er óverðtryggður alveg eins og lágmarkssamningurinn varðandi skattgreiðslur sem gerður var í desember s.l. og uppskeran af honum fer því sírýrnandi frá ári til árs.

Raunar er það svo, vegna þess að ÍSAL hefur möguleika til að draga úr framleiðslu sinni og minnka orkukaupin en Landsvirkjun hefur skyldur að sjá fyrirtækinu fyrir ákveðinni orku á ári og verður að hafa þá framleiðslugetu og fjárfesta í henni, að staðan er sú varðandi síðasta ár: Kaupafhendingarskyldan er 1360 gwst., orkukaupin hjá ÍSAL 1232. Ef við berum þetta saman og lágmarksverðið 12,5 og reiknum það miðað við kaupskylduna er verðið fyrir kwst. í reynd ekki 12,5 heldur 11,3 mill fyrir þá orku sem fyrirtækið raunverulega kaupir og svo hefur þetta rýrnað um 10% á árinu.

Ég vil svo aðeins segja að lokum, herra forseti: Þó að fyllsta ástæða sé til þess að fara yfir þær blekkingar sem fram hafa verið bornar og þann aumlega málflutning sem hér er enn viðhafður í þessu efni vil ég aðeins vekja athygli á því að í beiðni okkar þm. Alþb. um skýrslu um þetta mál var ekki aðeins óskað eftir áliti Landsvirkjunar á horfum varðandi 1986 heldur beðið um álit iðnrn. Það var ákveðin hugsun að baki í þeim efnum. Ég held að reynslan sýni okkur að það er þörf á því að fleiri en Landsvirkjun fjalli um og reiði fram spár handa íslenskum stjórnmálamönnum. Það hefur sýnt sig að þær spár sem þar eru saman dregnar og sumar eru komnar úr Seðlabankanum standast ekki ýkja vel. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess fyrir iðnrn. sjálft að reyna að afla sér þekkingar til að leggja sjálfstætt mat á hlutina en treysta ekki á spámenn Landsvirkjunar og það sérfræðingalið sem hún dregur fram hverju sinni því að þær spár hafa reynst mjög skeikular. Tekið er fram í skýrslu hæstv. ráðh. að iðnrn. hafi ekki lagt neitt sjálfstætt mat á þessar horfur. E.t.v. er það vegna þess að það hefur ekki verið lögð í það vinna innan ráðuneytis eða á þess vegum, sjálfstæð vinna til þess að leggja mat á spádóma Landsvirkjunar. Ég vona að á þessu verði breyting því að ég tel að það sé full ástæða til þess. Ég tala nú ekki um vegna þess að ekki er heldur um óskylda aðila að ræða þegar litið er á samninganefnd íslenska ríkisins og Landsvirkjun sem orkusölufyrirtæki. Og betur eiga að sjá augu en auga í máli sem þessu eins og svo víða.