04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þeim spurningum sem hv. 4. þm. Vesturl. bar fram. Hann vitnaði í upphafi til bréfs frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands sem mér hefur nú ekki borist í hendur enn af einhverjum ástæðum, en sjálfsagt er það á leiðinni.

En sem svar við þessu vil ég byrja á að lesa greinargerð frá Landhelgisgæslunni um væntanlega leigu Fokker-vélar Landhelgisgæslunnar:

„Á s.l. hausti leituðu Flugleiðir eftir því að fá leigða Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fjóra daga í viku hverri á tímabilinu 1. júní til 15. sept. 1986. Jafnframt var óskað eftir því að fá vélina leigða dag og dag á miklum annatímum, t.d. um jól og páska, eins og oft hefur komið fyrir áður.

Ástæða fyrir beiðni þessari mun vera sú að Flugleiðir áætla að bæta talsvert við flug sitt næsta sumar. Viðbótartími vegna þessa er þó ekki svo mikill að hann réttlæti kaup á flugvél eða leiguvél erlendis frá nema störf reynist mun meiri en áætlað hefur verið á þessum flugleiðum. Eftir að ljóst var að dómsmrn. var hlynnt því að reynt yrði að verða við beiðni Flugleiða eftir því sem kostur væri var rætt við fulltrúa Flugleiða um minni leigu en upphaflega var beðið um svo að leigan hefði sem minnst áhrif á gæsluflug. Liggur nú fyrir uppkast að samningi þar sem gert er ráð fyrir leigu á TF-SYN þrisvar í viku, samtals um 12 flugtíma eða um 50 flugtíma á mánuði. Til samanburðar skal þess getið að í forsendum fjárlaga fyrir árið 1986 er gert ráð fyrir að TF-SYN fljúgi um 65 tíma á mánuði, en Fokker-vélar Flugleiða fljúga á sama tíma 150 klukkustundir. Landhelgisgæslan verður því greinilega ekki í vandræðum með að ná þeim flugtíma á TF-SYN sem henni er skammtaður á umræddu tímabili af hv. Alþingi.

Þá er einnig gert ráð fyrir að stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, muni geta annast gæsluflug með ströndum fram þá daga sem TF-SYN er í leigu hjá Flugleiðum.

Eins og ætíð hefur verið þegar flugvél Landhelgisgæslunnar hefur verið leigð til annarra eru skýr ákvæði í leigusamningnum um að leigutaki láti vélina lausa ef leigutaki þarf á henni að halda vegna bráðrar nauðsynjar, t.d. ef á henni þarf að halda vegna leitar- og björgunarstarfa. Til frekari skýringar á þeim þætti í störfum Landhelgisgæslunnar skal þess getið að á undanförnum fimm árum hafa 2,5 flugtímar að meðaltali á ári verið yfir áðurnefnt tímabil, 1. júní til 15. september.

Herra forseti. Ég vil bæta við þetta örfáum orðum ef ég má. Það sem fyrst og fremst lá að baki því að ég féllst á að þarna væri reynt að ganga til samninga var að þetta gerði kleift að skipta um þyrlur hjá Landhelgisgæslunni. Í staðinn fyrir litlu þyrluna, sem ekki var hægt að taka sjúkrabörur inn í, var hægt að fá stærri vél sem tekur tvennar sjúkrabörur. Það tel ég vera mjög mikið atriði fyrir landsbyggðarfólk og sjómenn að fá slíkt miklu betra tæki. Það er því einmitt til að auka og bæta tækjakost Landhelgisgæslunnar sem þetta er verið að gera, þar sem það skapar möguleika til þess.