04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt þykja mér kannske hvað einkennilegust þau tilsvör hæstv. dómsmrh. að til þess að unnt væri að bæta þjónustuna þyrfti að ástunda leigu á öryggistækjum Landhelgisgæslunnar. Það sagði hann hér og það varð ekki skilið öðruvísi en forsendan fyrir því að bæta þjónustuna væri sú að stunda útleigu á tækjum Landhelgisgæslunnar.

Hann tók einhvern veginn þannig til orða að til þess að hægt væri að fá betri þyrlu hefði þetta verið nauðsynlegt. Hver minnist þess að lagt hafi verið fyrir Alþingi að það væri forsendan fyrir þyrlukaupunum, kaupunum á stærri þyrlunni, að útleiga færi fram á öðrum tækjum Landhelgisgæslunnar? Kom það fram í ræðu fjmrh. við afgreiðslu fjárlaga? Kemur það fram í greinargerðinni við fjárlög? Hefur það komið fram í umræðum á þinginu? Hefur öllum þm. verið ljóst að þegar þeir afgreiddu fjárlögin hafi þessar verið forsendurnar?

Ég get ekki skilið ráðherra öðruvísi en að hann sé að halda því fram að forsendan undir þyrlukaupunum hafi verið sú að ástunduð yrði útleiga á þeim tækjum sem hér hafa verið gerð að umræðuefni.

Ef þetta er virkilega þannig, að ráðherra lítur svo á að þessar séu forsendurnar undir þyrlukaupunum, er ég handviss um að þm. hefur aldrei verið það ljóst, að þm. hefur ekki verið gerð grein fyrir því, að þingið hefur verið blekkt.

Það er komið að tíu ára skoðun á þessari vél í haust og er ástæða til að vekja athygli á því. Það er stór skoðun og dýr. Það má minna á að það hefur verið mikið baráttumál að fá 360 gráðu radar í þessa flugvél sem er dýrt tæki en skiptir auðvitað miklu máli til þess verkefnis sem vélin á að vera tilbúin í hverju sinni. Í vélinni er aðeins veðurradar.

Það vantar ýmis önnur tæki, svo sem aðflugsbúnað og fleira, en ég ætla ekki að tíunda það hér.

Það er skiljanlegt að Landhelgisgæsluna vanti fé og reyni að hugsa til þess að afla fjár því að að mínu mati hefur fé til gæslunnar verið af skornum skammti um alllangt árabil.

En ég vil ítreka og leggja á það áherslu að Landhelgisgæslufokkerinn er neyðartæki. Hún er öryggistæki fyrir sjómenn og aðra landsmenn. Hún er hjálpartæki. Mér finnst kannske að það sé hægt að kristalla viðhorfið í þessu með þeirri samlíkingu að maður leigir ekki hjartabílinn til skemmtiferða. Að því leyti hefur gæsluvélin verið notuð í neyðartilvikum að hæ t er að líkja þessu saman.

Ég hvet til þess að ekki séu gerðir samningar á þeim nótum sem hæstv. ráðh. hefur hér bryddað á heldur með mjög mikilli takmörkun sem er ekkert óeðlilegt, en þannig að bæði öryggið og hjálpin geti verið í fyrirrúmi ef slíkt kemur upp.