04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vék að því fyrr í máli mínu að Fokker gæslunnar er slíkum tækjum búinn að hann hefur sérstöðu meðal íslenskra flugvéla. Það getur engin önnur vél komið í staðinn fyrir hann sem neyðartæki og hjálpartæki.

Átta manna áhöfn getur verið í Fokkervélinni á tíu tíma flugi og það er mjög mikilvægt þegar sinna þarf stærri verkefnum og hefur margoft sýnt sig.

Gæslufokkerinn hefur verið til staðar í einstökum neyðartilfellum þegar þurft hefur að flytja sjúklinga t.d. á milli landa. Það er grundvallaratriði að mínu mati að vélin sé ekki leigð nema þannig að hægt sé að grípa til hennar með mjög stuttum fyrirvara. Það er ekki hægt í millilandaflugi.