04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðh. að hann sagði að það væri hægt að endurheimta þessa flugvél úr leiguflugi með stuttum fyrirvara. Hver er sá stutti fyrirvari hjá hæstv. ráðh.? Hvað telur hann að það taki langan tíma að endurheimta þennan öryggisventil gæslunnar til flugs á vegum hennar? Og ég spyr stjórnarliða hér inni aðra en þann eina sem hefur talað: Ætla þeir að láta þetta líðast? Ætla þeir ekki að taka í þá taug sem þarf til þess að breyta þeim áformum sem hér eru uppi? Það er fyrst og fremst þeirra. Þeim er nærtækast að hafa þau áhrif að hér verði breytt um stefnu. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Er það virkilega óumbreytanleg ákvörðun hans og forstjóra gæslunnar að leigja Flugleiðum þennan öryggisventil í gæsluflugi, þann öryggisventil sem þarf og verður að vera til staðar hvenær sem kallið kemur til þess að bjarga mannslífum?