04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held að hv. alþm. hljóti að viðurkenna að það eru öfugmæli að segja að núv. ríkisstj. hafi staðið illa að öflun öryggistækja fyrir Landhelgisgæsluna þar sem á síðasta ári kom mjög fullkomin þyrla með betri björgunartækjum en hér hafa verið fyrir hendi áður. Það sýnir vissulega að þar er vilji fyrir hendi.

Það er alveg rétt að í þessa vél, Fokker-vélina, vantar ýmis tæki. En þessi vél var komin til landsins áður en núv. ríkisstj. tók til starfa. Það voru aðrar ríkisstjórnir sem fjölluðu einnig um þau mál. Það er rétt að æskilegt er að Landhelgisgæslan fái tæki í þessa vél sem kosta 80 millj. kr. Vissulega væri ég ánægður ef Alþingi veitti slíka fjárveitingu svo að það væri hægt að fá þau.

En eins og fram kom í greinargerðinni sem ég las frá Landhelgisgæslunni var það hennar mat að séð væri fyrir öryggisþörfum með m.a. nýju þyrlunni og þeim fullkomnu leitartækjum sem þar eru.

Það kom fram í máli hv. 3. þm. Suðurl. að vélin þyrfti að fara í skoðun. Því miður er rétt að þessi tæki þarf að skoða öðru hverju og þá eru þau vitanlega lengur frá, miklu lengur en þá tíma sem er um að ræða í sambandi við leiguna.

Það getur vel verið að Alþingi vilji veita, eins og ég sagði, aukið fé til Landhelgisgæslunnar, en hún verður að sníða sér stakk eftir þeim vexti sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni. Innan þeirrar fjárveitingar sem er nú á fjárlögum rúmuðust ekki þau vélaskipti sem ég benti á áðan, en það eru skipti á eldri þyrlunni og nýju þyrlunni sem er miklu betra verkfæri og miklu meira öryggistæki fyrir landsbyggðina en eldri þyrlan var. Sú þyrla er væntanleg á næstu vikum til landsins. Þar er hægt að setja inn sjúkrabörur. Ég tel því að það hafi verið gert margt til að auka og bæta tækjakost Landhelgisgæslunnar einmitt á þessu sviði síðustu mánuði og ár þannig að það sé öfugmæli að segja að þar sé illa að verki staðið.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu, en ég vil ítreka að að mati Landhelgisgæslunnar sé þarna ekki um að ræða afturför frá því sem hefur verið vegna þess aukna tækjakosts sem þar er nú til staðar.