04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það voru tvö atriði í svarræðu hæstv. ráðh. sem ég vil benda á og mér fannst að væru ansi skrýtin.

Í fyrsta lagi lagði hann áherslu á að það væri einhver samjöfnuður í sambandi við þann tíma sem færi í að skoða vélina, eðlilega skoðun, og þennan leigutíma. Það er fjarstæða að tala á þann máta þegar verið er að tala um þau mál á þessum vettvangi.

Í öðru lagi sagði ráðherra að það væri ekki um afturför að ræða í sambandi við björgunarmál þegar þessi nýja þyrla bættist í flugkost Landhelgisgæslunnar.

Hér er ekki um neinn jöfnuð að ræða. Hér er ekkert samasemmerki á milli. Ég fagna því að þessi þyrla hafi verið keypt þó að ýmsir segi að vantað hafi allar heimildir til þess að sú þyrla væri orðin eign Landhelgisgæslunnar. Ég hef heyrt það. Ég ætla ekki að fara að blanda því inn í þessar umræður. En það er af og frá að jafna því björgunartæki við það björgunartæki sem við erum hér að ræða um. Möguleikar Fokker-vélarinnar eru allt aðrir og á breiðari grundvelli en möguleikar þeirrar þyrlu sem hefur nýverið verið keypt til Landhelgisgæslunnar. Ég bendi á þann möguleika er sem betur fer hefur sýnt af sér árangur, þ.e. að geta gripið til þessa verkfæris á Reykjavíkurflugvelli við ýmsar breytilegar aðstæður þegar íslenskir læknar telja að betur sé farið með læknisaðgerðir í öðrum löndum en hér. Við gerum það ekki á þyrlunni. Við gerum það með þessari vél. Við höfum þarna vél sem hefur upp undir 9-10 tíma flugþol, en sú þyrla sem hér er verið um að ræða hefur mjög stutt flugþol og alls ekki sama hraða og þá sömu möguleika og þessi vél hefur upp á að bjóða.