05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

180. mál, fæðingarorlof

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að fara að svara frekar fyrir þá nefnd, sem ég á þó sæti í, varðandi afgreiðslu þessa frv., ég er þar ekki ráðandi aðili, þó að ég segi það hér og lýsi því yfir að það er mjög gott samstarf í þessari nefnd um fjölmörg mál og unnið af heilindum að afgreiðslu mála. Mér dettur ekki í hug að ásaka hv. formann nefndarinnar Davíð Aðalsteinsson um að hann vilji á nokkurn hátt liggja á málum. Því er ekki þannig varið varðandi þetta. Þetta finnst mér rétt að komi alveg skýrt fram af því að mér skildist á formanni nefndarinnar að hann hafi tekið það svo að það væri verið að ásaka hann um að liggja á þessu ákveðna máli og afgreiðslu þess.

Mér þótti það satt að segja heldur mikið sagt af hv. flm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að segja að hún hafi talað algerlega fyrir daufum eyrum í þessu máli. Ég minnist þess að ég hef held ég í öll skiptin komið hér upp og tekið undir meginmál hennar þó okkur hafi greint á um viss framkvæmdaatriði, framkvæmdaatriði sem hún velti talsvert fyrir sér í þessari framsöguræðu sinni nú og sagði að vissulega væri engin leið einhlít í þessum efnum.

Ég hygg að áherslumunur og skoðanamunur okkar á milli varðandi þessi mál sé ekki ýkja mikill. Ég vil a.m.k. frábiðja mín eyru frá þessum daufu sem hv. þm. talaði um. (Gripið fram í.) Nú, það er gott að það hefur verið misskilningur í því efni.

Hins vegar tók ég það svo að hv. þm. væri að herða á þessu með því að segja nokkrum sinnum í ræðu sinni að nú bæði hún þessa daufheyrandi menn að taka alveg sérstaklega vel eftir því að nú ætlaði hún að upplýsa menn um alveg sérstaklega mikilvæg atriði máli sínu til sönnunar. Ég tók þau rök góð og gild og hef hlustað á þau áður og hef tekið undir mjög veigamikil rök í því efni. Þess vegna var það sem ég tók þetta alveg eins til mín og annarra að við hefðum setið hér daufum eyrum undir ræðum hennar og framsögum áður um þetta mál. En gott er ef svo er ekki.

Ég vil hins vegar minna á það, sem reyndar kom að nokkru leyti fram í máli hv. 5. þm. Vesturl., að við höfum skoðað málið allvel í nefnd. Ég hef viljað skoða sérstaklega þar hvort áfangalausn væri hugsanleg og að þeirri afgreiðslu hef ég lýst mig reiðubúinn að standa. Hins vegar hef ég líka skilið aðstöðu stjórnarsinna í nefndinni, eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Vesturl., sem þurfa í raun að fá samþykki sinnar ríkisstj. til þess að málið megi ná fram að ganga með einhverjum þeim hætti, verða samþykkt eða með einhverri áfangalausn. Ég efa sem sagt að það samþykki hafi legið fyrir og veit raunar að svo hefur ekki verið. Þá hefði eðlileg afgreiðsla meiri hl., og það bið ég hv. flm. að athuga, verið sú að vísa málinu til ríkisstj., leggja til við hv. deild að málinu yrði vísað til ríkisstj. Ég segi það alveg eins og er að að slíkri afgreiðslu hefði ég ekki staðið því að svo mikið er traust mitt ekki á hæstv. ríkisstj. Ég hefði talið að það hefði verið að vísa málinu eins og nú standa sakir nokkurn veginn endanlega frá. Mér dettur ekki í hug, og það legg ég einnig áherslu á, ég þekki svo vel mitt samnefndarfólk í hv. heilbr.- og trn., að það hefði lagt til að fella þetta frv. Það er ég alveg sannfærður um. Það hefði enginn lagt það til í þeirri nefnd. Ég hef aldrei heyrt þá rödd að það bæri að fella þetta frv. Það hefur engin rödd í nefndinni heyrst um það eða rödd sem hefur verið andvíg meginsjónarmiði þessa frv. Ég vil hins vegar benda á nú og get ekki stillt mig um það, sérstaklega af því að hæstv. ráðh. er í salnum, að núv. hæstv. ráðh. þessara mála hefur áður sýnt þessum málum sérstakan áhuga og beitt sér m.a. sem hv. þm. fyrir ákveðinni áfangalausn sem ég hef áður greint frá úr þessum ræðustól og öllum hv. þdm. á reyndar að vera kunnugt. Það kann því vel að vera. ég útiloka það alls ekki, að stjórnarliðar í heilbr.- og trn. fái nú önnur og betri boð frá sinni ríkisstj. en áður um afgreiðslu á ákveðinni áfangalausn þessa máls. Þá er skylt að bíða og sjá hvað setur hvað þetta varðar.

Þetta mál er hins vegar margrætt af minni hálfu allt frá því að þáltill. Bjarnfríðar Leósdóttur kom hér fram á Alþingi fyrir nær hálfum öðrum áratug, frá þeirri áfangalausn sem ég minnti á áðan og hæstv. heilbr.- og trmrh. beitti sér hvað mest fyrir, ákveðnar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra sem ekki nutu neinna bóta, frá tveim áfangalausnum sem ríkisstjórnirnar 1978-1983 beittu sér fyrir og varðandi þetta mál nú sem hér er enn flutt. Ég hef sem sagt svo oft rætt það að ég tel ekki ástæðu til þess að bæta þar miklu við. Ég hef hins vegar oft lýst því yfir og vil ítreka það nú að hér er eitt brýnasta málið í jafnréttisbaráttunni á ferðinni og það félagslega réttlætismál sem við þurfum kannske sem best og skjótast að þoka fram. Þetta er engin ný skoðun frá minni hálfu, en hún er enn meir knýjandi held ég eftir því sem árin líða og kjör fólks fara ævinlega heldur niður á við en hitt í mörgum greinum.

Ég verð hins vegar að segja að þegar menn eru beinlínis á niðurskurðarbuxunum, eins og þessi hæstv. ríkisstj. er, í málaflokkum af þessu tagi að miklu leyti, og allt nýtt þar er vitanlega ekki til í dæminu þó að kannske sóun og bruðl séu nú á öðrum sviðum, þá er ekki við því að búast að veruleg réttarbót fáist á þessu. jafnvel svo sjálfsögðu máli, að jafna og rétta hlut kvenna til fæðingarorlofs. Ég er því ekkert of bjartsýnn á þetta þrátt fyrir mín orð áðan, en ég tel þó skylt að láta á það reyna í heilbr.- og trn. hversu þoka megi þessu máli til réttara horfs, bæði til lengingar og jöfnunar og hækkunar lágmarksgreiðslna þó e.t.v. fyrst og síðast. Ég tel rétt að láta reyna á hversu megi ná fram áfangalausn handa þeim lakast settu og með ákveðinni almennri lengingu. Þetta segi ég, og bið hv. 5. þm. Vesturl. að hlusta sérstaklega af því að menn hafa verið beðnir um að hlusta hér, sakir þess að í Nd. hafa flokksbræður hv. 5. þm. Vesturlands flutt frv. um jöfnun fæðingarorlofs. Það mun hafa verið hv. 5. þm. Vestf. sem var þar ötull flm. og ákafur baráttumaður, það mun vera rétt, ásamt hv. þm. Stefáni Valgeirssyni.

En þeir gerðu það m.a. á síðasta þingi að flytja um þetta sérstakt þingmál, ef mig misminnir ekki því meira, og ég veit að hv. 5. þm. Vesturl. á ekki amalegan hauk í horni í hæstv. ríkisstj. þar sem er hæstv. félmrh. varðandi þetta mál.

Ég veit það að þegar núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. fer að vinna að þessu hugðarefni sínu á hún einhvern skeleggasta liðsmann sem í hefur heyrst hér á Alþingi varðandi fæðingarorlof kvenna þar sem er hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson. Hans síðasta verk, „nota bene“ áður en hann fór í kosningar og varð svo ráðherra upp úr því, var að flytja hér frv. og stórfallega framsöguræðu fyrir því sama frv. um jöfnun og lengingu fæðingarorlofs sem ég hlustaði á með mikilli athygli og reyndar hreifst af, svo mikil var málafylgja hans og svo mikil umhyggja. Ég er því alveg öruggur um að ef hv. 5. þm. Vesturl. leitar til þessa flokksbróður síns fær hann þar dyggilegan stuðning af því að ég veit, og eðli málsins samkvæmt er það vissulega rétt, að stjórnarliðar þurfa á því að halda að hæstv. ríkisstj. gangi inn á einhverja áfangalausn í þessu máli. Ég á því von á bandamanni í áfangasigri í þessu efni í nefndinni einmitt í hv. 5. þm. Vesturl. og það er ekkert launungarmál að við höfum rætt um hvort unnt væri að þoka þessu máli fram með þeim hætti. Við höfum rætt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvort það væri einhver flötur á því máli að gera þetta og hvort á því væri möguleiki. Og ég þykist vita að eins og á síðustu þingum muni hv. 5. þm. Vesturl. vera allur af vilja gerður að reyna að koma þeirri lausn á.

Efnisleg umræða skal sem sagt ekki verða mikil hér. Það er endurtekning ein, m.a. eins og hv. flm. kom inn á, varðandi form og fyrirkomulag fæðingarorlofsgreiðslna. Ég hef hér verið með ákveðnar áherslur á að þær færðust í svipað form og almennar tryggingagreiðslur þar sem jöfnuður sæti í fyrirrúmi. Mánaðatalan ein segir ekki allt heldur upphæðin sem hver kona fær og að þær heildarupphæðir séu sem jafnastar yfir fulla tímalengd. Þá fyrst getum við talað um sama fæðingarorlof fyrir allar konur. Viðbáran getur hins vegar átt rétt á sér á móti gagnvart þeim mikla launamismun sem ríkir, m.a. hjá konum innbyrðis, þó að víðar og harkalegar sé um þann mun að ræða en innbyrðis hjá þeim. Sömuleiðis hlýt ég að taka undir það með hv. flm. að ekki dettur mér í hug að áunnin samningsbundin réttindi verði tekin af konum í þessu efni þar sem eru bæði opinberir starfsmenn og eins bankamenn. Það er vitanlega rétt að einmitt vegna þessa hefur Alþýðusambandið á undanförnum árum lagt á það höfuðáherslu að ná einhverju fram í þessu máli. Sannleikurinn er sá að það er kannske ekki vegna þess að önnur áhersluatriði hafi orðið yfirsterkari, heldur hreinlega að málið sé þannig að það hefur algerlega strandað á viðsemjendum Alþýðusambandsins og hefur ekki verið gefinn kostur á neinni úrlausn til viðbótar við gildandi lögboðnar greiðslur af hálfu þeirra. Ég held að málið sé einfaldlega þannig að öllum málaleitunum Alþýðusambandsins í þessa átt hafi verið þverlega neitað af viðsemjendum þess, en ekki það að það hafi tekið aðrar áherslur fram yfir og önnur mál fram yfir.

Ég skal hins vegar játa að hér er auðvitað um grunnatriði kjara að ræða. Við höfum oft rætt það áður, við hv. 11. þm. Reykv., að hér er um að ræða hina almennu kjarabaráttu úti í þjóðfélaginu í samningum og auðvitað þarf að sækja jöfnuð í þessum greiðslum þangað fyrst og síðast, á hinn almenna vettvang kjaramálanna hvar sem er. Ég hef minnt á það æði oft og hef gert það m.a. núna að þetta sé mál áfangasigra í gegnum árin og vissulega er nú langt um liðið, því ber ekki að neita, frá hinum síðasta.

Það er ekki bjart yfir þessum málum enn nema hæstv. heilbr.- og trmrh. varpi einhverjum ljósgeisla inn í deildina áður en þessari umræðu lýkur. En ég endurtek að áfanga þarf að ná. Og þó ég taki undir lokamið þessa frv., réttmæti þess og réttlæti, þ.e. fulla jöfnun, sem ég tel að eigi nú í þessu að felast fyrst og síðast, standa mál svo nú að hver sigur hlýtur að vera dýrmætur og hver áfangi mikilvægur. Að því ber því að vinna og að því hygg ég að ég muni reyna að vinna eftir bestu getu í þeirri nefnd sem ég á sæti í.