05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

180. mál, fæðingarorlof

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að endurflytja þetta frv. og skildi sneiðina til mín varðandi það ákvæði í frv. að hér sé um misjafnar greiðslur að ræða eftir því í hvaða launaflokki það fólk, bæði konur og karlar, er sem mundi fá orlofsgreiðslur í fæðingarorlofi.

Það er grundvallarsjónarmið hjá mér að ríkisvaldið sé til þess að jafna hlut einstaklinga og ég tel jafnmikilvægt að jafna hlut kvenna og karla sem eru á lægri launum. Ég tel jafnmikilvægt að ríkið greiði þessu fólki sömu upphæð fyrir að annast börn sín. Ég get ekki séð að þarna eigi að vera munur á, eigi ríkið að greiða fyrir fólk á hinum almenna vinnumarkaði, hvort sem um aðrar tryggingabætur er að ræða eins og t.d. fyrir fatlaða eða aldraða. Gætum við hugsað okkur að þar væri farið eftir þeim launatöxtum sem þetta fólk hafði áður en það var orðið svo gamalt að það hefði bætur frá ríkinu eða hefði hlotið einhverja fötlun?

Mér finnst það grundvallarmarkmið, eins og ég nefndi áðan, að þarna sé um sömu upphæð að ræða. Ég get ekki séð að ríkið eigi að mismuna körlum og konum. Eins og hv. þm. nefndi er mjög kynbundið launamisrétti hér á landi. Þetta hef ég áður nefnt og nefndi á síðasta þingi ansi háar tölur. Ef ég man rétt nefndi ég að til væru karlmenn sem eru með allt að 150 þús. kr. mánaðarlaun. Hver getur réttlætt að karlmaður fengi jafnvel fyrir einn mánuð það sem konur fengju fyrir sex?

Eins og hv. þm. nefndi áðan vildi hún hafa markið í 100 þús. kr. Fyrir ofan 100 þús. kr. taldi hún ekki réttlætanlegt að fæðingarorlof yrði ef ég hef skilið hana rétt. Hún nefndi þá tölu. (SDK: T.d. yfir 100 þús. kr.) Já, hún nefndi 100 þús. kr. Ég vil hafa þetta mark nákvæmlega jafnt fyrir alla, eins og ég hef áður sagt, og ég tel að mun fyrr gætum við náð þeim áfanga að jafná stöðu kvenna, hvort sem þær eru úti á vinnumarkaðnum eða heimavinnandi, með því að setja markið við að allir fái sama í sinn hlut.

Hv. þm. kom einnig að því í sinni ræðu, sem ég skildi reyndar ekki alveg hvað hún átti við með, að meðallaun kvenna væru kringum 24 þús. 655 kr. og þar af leiðandi mundi hækkun á fæðingarorlofi ekki leiða til heildarhækkunar. Ég náði þessu reyndar ekki alveg, en þetta er meðaltalið og þá eru einhverjar hærri og aðrar lægri. Þá þyrfti að greiða eftir þeim stiga þannig að lágmarkið yrði aldrei 24 þús. heldur yrði það meðaltalið. Þá fengju einhverjar konur 14-15-16 þús. og aðrar 35 þús. ef við erum að tala um meðaltal. En hún skýrir þetta kannske örlítið betur þannig að ég nái samhenginu í því um hvað hún var að ræða.

Það hefur verið mikið fjallað um af ræðumönnum á undan mér hvernig meðferð þessa máls hefur verið á undanförnum tveimur þingum. Við höfum rætt það mjög í þeirri nefnd sem þetta hefur haft til meðferðar og einmitt fjallað um hvort væri möguleiki að koma þessu í gegnum þingið með breytingum. En eins og ég hef lýst núna er ég ekki sammála frv. eins og það liggur fyrir, enda höfum við ekki rætt neitt um hvaða breytingar hv. flm. væri tilbúinn að gera á frv. Ég hef alltaf skilið það sem svo að hún vildi fá þessu framgengt, annaðhvort yrði það fellt eða samþykkt í óbreyttri mynd, en það getur verið misskilningur af minni hálfu.

Ég ætla að spyrja um ættleiðandi foreldra eins og kemur fram í frv. Er þar ekki tekið neitt tillit til aldurs þeirra barna sem eru ættleidd? Það getur verið að það komi fram í grg., en það kom ekki fram í ræðu hv. þm. Mér finnst það skipta dálitlu máli hvort barn er ættleitt eins, tveggja eða þriggja ára eða jafnvel eldra eða hvort þar er um ungabarn að ræða því að fyrst og fremst erum við að ræða um umönnun ungabarna.

En eins og áður er ég tilbúin að ræða þetta mál og mundi fagna því mjög ef fengist einhver áfangi til viðbótar því sem nú er og tel það mikilvægasta atriðið að ná fram jöfnuði. Ég tel reyndar að ríkisstj. megi til að taka á þessu máli með tilliti til þess hvað hlutdeild kvenna hefur aukist gífurlega á vinnumarkaðnum og þeirrar staðreyndar að ekki er hægt að framfleyta fjölskyldu á tekjum eins aðila.

Ég tel það enga goðgá að spara eða auka skattheimtu þó að ég ætli ekki við umræður um þetta frv. að ræða hvaða leið hv. þm. vill fara. Ég mundi helst vilja að leitast væri við að spara til að mæta þessum aukna kostnaði því að ég er sannfærð um, og gæti nefnt hér dæmi, að það er hægt að auka sparnað víða í ríkisgeiranum.