05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

180. mál, fæðingarorlof

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það fer auðvitað eftir smekk hvað er áhersluatriði eða áhersluþáttur mestur í því máli sem hér um ræðir hjá hv. flytjanda, en mér finnst að í málflutningi hv. þm. sé meira um að ræða almenna vangaveltu um miðstýringu og ofstjórn sem ég held að gangi svo langt að jafnvel Búlgarar væru stoltir af slíku. Mér finnst ruglað saman æðimörgum þáttum í málinu. Mér finnst það ekki á ljósu hverra hagsmuna er gætt fyrst og fremst. Mér finnst t.d., miðað við það frv. sem hér liggur fyrir, að ef það á að gera mun á greiðslum vegna barnsfæðinga væri í rauninni meiri ástæða til að greiða þeim konum sem hefðu lægri launin hærri bætur en þeim konum sem hefðu hærri laun. Ég met það svo að þær konur og þær fjölskyldur sem hafa hærri laun séu betur í stakk búnar til að taka á móti nýfæddu barni og hafa meira svigrúm til þess sem þarf í þeim efnum en sú kona sem hefur lág laun. Ég rek mig þarna strax á eitt grundvallaratriði sem skiptir miklu máli og stuðlar að ójöfnuði. Það er alveg sama hvað hv. þm. biður þm. að sperra eyrun. Það er ekki hægt að ganga fram hjá slíkum sjónarmiðum.

Spurningin um að gera fólki kleift að eignast börn getur auðvitað verið margslungin og ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það í máli hv. flytjanda. Ég vil þó aðeins drepa á að þó að veifað sé undirskriftalistum 4200 einstaklinga finnst mér fiskað í frekar grunnum sjó vegna þess að í flestum sjoppum landsins lágu frammi þessir listar sem fólk var beðið um að skrifa undir. Ég sá þessa lista í þó nokkrum sjoppum á ferðum mínum um landið og þar var fólk beðið að skrifa undir til stuðnings máli númer þetta á Alþingi. Engar skýringar fylgdu þessum listum. Ég spurði nokkra, sem ég horfði á skrifa á þessa lista, hvort þeir vissu hvað lægi á bak við: Nei. Ekkert nema það að konur áttu að fá meiri peninga við að fæða börn. - Það finnst mér ekki heiðarlegt að safna undirskriftum á slíkum forsendum að ganga að fólki og segja: Heyrðu. Skrifa þú undir. Þetta er gott mál.

Þetta er slíkt mál talnalega að þá er maður kominn að því sem skiptir ekki síður máli því að allir eru sammála um að mikil ástæða sé til þess að hlúa að mæðrum og nýfæddum börnum og skapa þeim þann frið og það svigrúm sem æskilegast er á fyrstu mánuðum og árum barnsins. Það er engin spurning um það. Þetta er spurning um kostnaðarþætti og ég vík aðeins að því síðar.

Mér finnst það til vansa fyrir þjóðfélagið að jafna ekki fæðingarorlof og þar sé mismunur á fyrir útivinnandi og heimavinnandi konur, en það er erfitt að skilgreina þar á hvaða forsendum konur eru heimavinnandi og það er ekki víst að slíkt réttlæti endilega að þar þurfi að taka tillit til allra þessara þátta. Samt sem áður er eðlilegast að mínu mati að þarna sé alger jöfnuður.

Frummælandi minntist á að brjóstagjöfin byggðist algerlega á tilfinningasambandi við barn. Þetta er auðvitað rangt. Þetta er hluti af málinu. Það eru margar konur sem mylkja önnur börn og hefur tíðkast lengi á Íslandi án þess að um sérstök tilfinningatengsl sé að ræða. Það verður að horfast í augu við það að brjóst er fyrst og fremst líffæri sem gefur af sér mjólk eftir barnsburð og brjóstið þarf að nýta. Ef enginn er til að drekka mylkir ekki brjóstið. Svo einfalt er málið. Þannig er óþarfi að vera að búa til of mikið tilfinningamál um þetta líffæri sem er ágætt út af fyrir sig og ekkert að því að finna.

Það er einkennilegt líka í málflutningi hv. þm. þegar hann ræðir um að meta störf fyrir uppeldi, að það eigi að meta störf að uppeldismálum á heimili til jafns við störf á almennum vinnumarkaði. Er þá ekki tvískinnungur að bera ekki fram frv. þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að konur sem vinna heima og sinna börnum, ekki bara að sex mánaða aldri, sex ára, tíu ára eða hvað sem er, eigi einnig að búa við sömu aðstæður og konur með nýfædd börn þótt þarna sé munurinn á brjóstagjöf og ekki brjóstagjöf? Mér finnst að það sé tvískinnungur í að benda þá ekki á það. Það hefur verið bent á það, og hefur verið skoðun margra og ég hef látið það koma fram hér, að ástæða sé til að jafna þarna aðstöðu, svo sem með helmingasköttun hjóna, svo sem með sérstökum auknum frádrætti á skatti fyrir konur sem eru heimavinnandi, og það tel ég góðra gjalda vert, en þarna finnst mér koma fram mismunun sem er alveg full ástæða til að skoða ef horft er til þessa málflutnings þar sem á að taka fullt tillit til launa foreldra, móður og föður.

Kostnaðurinn er þó kannske sá þáttur sem mér finnst furðulegastur í málflutningi hv. frummælanda. Nú er það að vísu á öðru þskj., en hv. þm. vitnaði í það skjal og gaf upp tölur svo að ég held að ég verði að fjalla um það þótt það sé ekki beinlínis til umræðu enn. Það stendur í grg. með frv. sem þm. vitnaði í, með leyfi forseta:

„Á fjárlögum 1985 er gert ráð fyrir að lífeyristryggingagjald atvinnurekenda nemi 595 millj. kr. og miðað við þá upphæð er hér um að ræða nær 300 millj. kr. tekjuaukningu ríkissjóðs. Nemur þessi tekjuaukning ríflega 2/3 þess kostnaðar sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér.“

Þetta þýðir einfaldlega, eins og segir í frv. og grg., að kostnaðaraukinn er 450 millj. kr. eða þar um bil og að auki er miðað við fjárlög 1985 sem þýðir þá að það vantar verðlagsuppfærslu. Miðað við það sem stendur í grg., ég get ekki vitnað í annað, ég hef ekki kynnt mér aðrar tölur, er þarna því um að ræða 600 millj. kr. kostnaðarauka. Ég minnist þess að í ræðu fyrr í hv. deild, líklega í hitteðfyrra, þar sem fjallað var um málið, var um að ræða tölur sem námu nær 2% af fjárlögum ríkisins. Miðað við tæplega 600 millj. kr. nú samkvæmt orðanna hljóðan í þessu frv. er hlutfallið svipað. Það er þetta fyrst og fremst sem menn horfa í einnig fyrir utan ójöfnuðinn sem ég vék að fyrr.

Að sjálfsögðu geta menn verið sammála um mörg atriði í svona frv., en þarna er um útfærsluatriði að ræða. Það eru almenn mannúðarsjónarmið sem koma fram og menn eru sammála um, en þá greinir á um í fyrsta lagi hvernig eigi að skipta greiðslum. Ég er algerlega andvígur slíku. Ég tel að þar eigi að vera ein tala á bak við. Á hinn bóginn er þarna um að ræða slíkar fjárhæðir í heild að það verður að vera lag til að ganga til slíkra mála og samþykkja þau.