05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

180. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og þakka einnig þær umræður sem hér hafa orðið og mér finnst fara batnandi með hverju árinu sem líður. Ef til vill er það vegna þess að við hér á hv. Alþingi fjöllum um svo mörg mál og þurfum að leita svo víða að því oftar sem við getum fjallað um sama málið, því betri aðstæður höfum við til að kynna okkur það.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, formaður heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar, kom upp og svaraði þeim fsp. sem ég beindi til hans og ég þakka honum kærlega fyrir að hafa brugðist skjótt og vel við beiðni minni.

Þm. taldi að ég hefði ásakað hann um að beita ofríki í nefndinni. En það lá alls ekki í orðum mínum. Ég var ekki að ásaka formanninn eða nefndarmenn um eitt eða neitt. Ég spurði einfaldlega hvort við því væri að búast að frv. fengi þá meðferð, sem er venjulega hér í þingsölum kölluð „þingleg meðferð“, þá meðferð að það yrði afgreitt úr nefndinni. Þar sem mér fannst ekki eðlilegt að spyrja alla nefndarmenn hlaut ég að spyrja oddvitann, hv. formann, þótt kannske hafi verið svolítið erfitt að vera formaður þessarar nefndar einmitt í dag.

Það eru engar ásakanir á hendur formanni nefndarinnar að þessu leytinu til. Mér þótti samt heldur einkennilegt að hann setti hér fram þá fullyrðingu, ef ég hef tekið rétt eftir, að það væri ekki óþinglegt að mál komi ekki aftur til deildar. Það væri óskandi að menn mér þingreyndari og fróðari um þingsköp hefðu eitthvað um þetta mál að segja, en minn skilningur á þingsköpum er sá að ef flm. óskar eftir því að mál sé afgreitt úr nefnd séu það þingleg vinnubrögð að afgreiða málið úr nefndinni.

Ég vil líka taka það fram út af því sem fram kom í orðum hv. formanns nefndarinnar og í orðum annarra nefndarmanna, að þeirra skilningur hafi verið sá að ég hafi ekki viljað neinar breytingar á þessu máli eða jafnvel að ég hefði viljað láta það kyrrt liggja í nefndinni, að þetta er ekki rétt. Og mér er í rauninni óskiljanlegt hvernig þessi skilningur er upp kominn. Á síðasta þingi tjáði ég hins vegar hv. formanni nefndarinnar að mér þætti eðlilegt að nefndin tæki sjálf afstöðu til breytinga á frv. og ég mundi síðan taka afstöðu til þeirra breytinga þegar frv. kæmi aftur til deildar. Ég á ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. og mér fannst eðlilegast að nefndin ynni þetta á þinglegan máta, skilaði frá sér sínum tillögum og ég mundi síðan taka afstöðu til þeirra.

Og ég endurtek það, sem ég hef sagt hér á umliðnum tveimur þingum en man ekki hvort kom fram í máli mínu áðan, að allar úrbætur í þessum efnum skipta máli. Auðvitað vildi ég helst að frv. væri samþykkt óbreytt. Annað væri líka óeðlilegt. Ég veit ekki betur en að þegar menn bera fram frv. hér vilji þeir hafa málin eins og lagt er til í frv. Allar réttarbætur á þessum sviðum eru til bóta þótt mér detti ekki í hug að neita því að auðvitað vildi ég helst hafa þetta eins og það er í frv. og mun áfram berjast fyrir því.

Hv. formaður vísaði til ríkisstj. varðandi framgang þessa máls í nefndinni og það kom reyndar fram í máli hv. þm. Helga Seljans líka. Ég veit það vitaskuld fullvel að þetta mál er ríkisstjórnarmál ef svo má segja. Það er sennilega ekki á færi annarra en ráðherra að taka afstöðu til þessa frv., hvort þessi mál eigi að vera á þann veg sem hér er lagt til eða á einhvern annan veg.

Nú er miður að hæstv. heilbr.- og trmrh. er horfinn úr salnum, en hefði þess verið kostur hefði mér þótt vænt um að heyra hver hennar sjónarmið eru í þessu máli. Við vitum hver sjónarmið hæstv. núv. félmrh. eru, eins og hv. þm. Helgi Seljan kom að, en ef hæstv. heilbr.- og trmrh. er viðlátinn þætti mér vænt um að fá að heyra hennar sjónarmið. (Forseti: Hæstv. ráðh. tjáði mér rétt fyrir kl. 3.30 að hún væri nauðbeygð til að fara vegna þess að hún átti að hitta aðila annars staðar en hér í þinghúsinu, en hún óskaði jafnframt eftir því, ef ástæða væri til, að umræðum um þetta mál yrði frestað svo að hún hefði tækifæri til þess að taka þátt í þeim á næsta fundi. En hún gat ekki verið hér lengur í dag. Þess vegna, ef flm. óskar eftir því, er ekkert því til fyrirstöðu að fresta umræðunni eftir að flm. hefur lokið sínu máli, enda ekki fleiri á mælendaskrá, og taka málið upp aftur á næsta fundi.)

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til að ég mun hverfa af þingi í tvær vikur frá og með byrjun næstu viku þannig að það er óhægt um vik að fresta málinu, en mér dettur í hug sú lausn að við frestum fylgifrv. og tökum það þá fyrir þegar ég kem aftur til starfa að tveimur vikum liðnum. Þá gæti ráðherra e.t.v. tekið þátt í umræðum um það mál. (Forseti: Ef hv. þm. leggur áherslu á að ráðherra taki þátt í umræðu um málið nú við 1. umr. er ein leið að gera það með þessum hætti eða vísa því til nefndar og taka þráðinn upp við 2. umr. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hafa þann hátt á að afgreiða þetta mál, en fresta þá hinu.)

Ég þakka forseta fyrir. Ég kýs að afgreiða þetta mál þannig að nefndin geti strax hafist handa við að vinna að málinu og mun fara þess á leit við forseta að fresta 4. dagskrármálinu, ef ég man töluna rétt. (EgJ: Byrja á morgun.) Þá er ekkert því til fyrirstöðu að hv. heilbr.og trn. geti byrjað á morgun að vinna að þessu frv. eins og hv. þm. segir, heyri ég.

Ég vil einnig þakka formanni hv. heilbr.- og trn. fyrir að taka undir kannske allt, eins og hann sagði, sem ég hafði efnislega sagt í framsöguræðu minni áðan. Þetta þykir mér skörulega mælt af formanni nefndarinnar og vonast ég til að það skili sér í afgreiðslu nefndarinnar á þessu máli og á ekki von á öðru heldur ef hv. formaður nefndarinnar fær að ráða.

Hann gerði það að sínum lokaorðum hér að allar konur ættu að hafa sama rétt til fæðingarorlofs og þetta atriði gekk eins og rauður þráður í gegnum mál þeirra sem hér tóku til máls. Það er alveg ljóst að þeir sem hér hafa tekið til máls hafa ekki allir sama skilning á því hvað er jafn réttur. Ég tel mig vera að tryggja jafnan rétt kvenna í þessu frv. á þann veg að allar konur hafi rétt á því að halda óskertum launum, þær hafi allar þann sama rétt að halda sínum launum óskertum og þær sem engin laun hafa eða lítil laun hækki upp við töku fæðingarorlofs. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki það sem hv. formaður nefndarinnar var að hugsa um heldur að allar konur fengju sömu upphæð í fæðingarorlofsgreiðslu. Þetta kom reyndar fram í máli annarra sem hér töluðu líka og þá langar mig til, þó að liðið sé á fundartímann, að beina því til hv. þm. sem hér hafa talað, hvort þeim finnist þá öllum að allar konur eigi að hafa sömu laun fyrir vinnu sína hvar sem þær eru og hvað sem þær starfa í þjóðfélaginu og ef allar konur eigi að hafa sömu laun fyrir sína vinnu hvort þeim finnist þá að allir karlar eigi að hafa sömu laun og að karlar og konur eigi að hafa sömu laun þannig að allir hafi sömu laun fyrir sína vinnu. (Gripið fram i: Í Búlgaríu.) Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu fæðingarorlofsfrv., en mér heyrðist hv. þm. Árni Johnsen einmitt vera á þessari Búlgaríulínu áðan. Ég hefði mjög gaman af að heyra hvort þetta er réttur skilningur hjá mér. Þetta á reyndar líka við þá fulltrúa Framsfl., BJ og Alþb. sem hér hafa talað. Má það kannske til mestra tíðinda telja við þessa umræðu um þetta frv. að meiri hluti þeirra þm. sem eiga sæti í hv. deild aðhyllast grundvallarjafnaðarmennsku þvílíka að telja að öll laun í þjóðfélaginu eigi að vera ein og söm. Þetta er dálítið merkileg niðurstaða ef rétt reynist þótt hún komi fram við umræðu um mál sem er ekki beint launamál vegna þess að í fæðingarorlofsfrv. stunda menn ekki samningaviðræður og breyta ekki launaskölum þjóðfélagsins.

Hv. þm. Helgi Seljan taldi að ég hefði sagt að ég hefði talað fyrir daufum eyrum fram að þessu. Það sagði ég ekki. Ég sagði að ef málið fengist ekki afgreitt úr nefndinni í þetta sinn fyndist mér eins og ég talaði fyrir daufum eyrum. Þegar ég bað menn að hlusta vel með jöfnu millibili átti ég reyndar ekkert sérstaklega við hv, þm. Helga Seljan heldur ýmsa aðra sem hér hafa stundum geyst í ræðustól með stór orð um ýmislegt án þess að hafa lesið frv. vel eða hlustað grannt eftir því sem ég hef verið að segja.

Hins vegar vil ég þakka hv. þm. Helga Seljan góð orð og þykist vita að hann láti ekki sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn að vinna ötullega að þessu máli í nefnd.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir taldi það sitt grundvallarsjónarmið í þessu máli að það ætti að vera hlutverk ríkisvaldsins að jafna hlut einstaklinganna, eins og ég hef skrifað niður eftir henni. Það gildir það sama um þetta atriði og ég sagði þar um áðan. Ég get tekið undir þetta sjónarmið, en það er alveg greinilegt að ekki er sami skilningur á því hjá þeim þm. sem hér hafa tekið til máls hvaða rétt er verið að jafna. Minn skilningur er sá að rétturinn sé jafnastur þegar við tryggjum að konur skerðist ekki í launum við að taka fæðingarorlof og að þær sem lítil og lægstu launin hafa fái a.m.k. þau 25 þús. sem Tryggingastofnun ríkisins tjáði mér að væru nokkurn veginn meðallaun kvenna á barneignaraldri. (Gripið fram í.) Ég kem að því rétt á eftir.

Það var örlítill misskilningur hjá hv. þm. varðandi það hvar þakið ætti að vera. Ég tók einfaldlega dæmi og sagði að mér fyndist óréttlátt að Tryggingastofnun ríkisins greiddi út kannske yfir 100 þús. kr. í fæðingarorlofsgreiðslu á mánuði til einhvers, sama hvort um karl eða konu væri að ræða, en það þýðir ekki að ég hafi sagt að þakið ætti að vera þar frekar en einhvers staðar annars staðar.

Upplýsingar Tryggingastofnunar ríkisins um að meðallaun kvenna á barneignaraldri væru í kringum 25 þús. kr. komu mér mjög á óvart. Ég hef það einfaldlega eftir mínum reikningsmeisturum þar að dæmið líti svona út, að það skipti ekki máli hvort við allar fáum þessa lágmarksupphæð eða hvort konur haldi sínum launum. Ég bið hv. þm. að athuga það að opinberir starfsmenn halda nú þegar launum sínum óskertum í fæðingarorlofi. Þær konur sem fengju að halda launum sínum óskertum með tilkomu þessa frv. eru flestar í ASÍ og við vitum að í ASÍ er launaskalinn hvað lægstur. Þar er sennilega skýringin á því að kostnaður vegna frv. verður ekki tiltakanlega meiri, ekki svo að máli skipti að mati Tryggingastofnunar ríkisins, þ.e. hvort sem við greiðum þessi 24 þús. út til allra eða hvort við einfaldlega setjum þá meginreglu að konur haldi óskertum launum. (Gripið fram í.) Jú, lágmarkið er 25 þús. Jú, jú, alls ekki niður fyrir þessi 25 þús. Það er gert ráð fyrir því í frv. að afnema skerðingarákvæðin. Þetta er eftir að þau hafa verið afnumin þannig að það eru 26 millj. sem bætast við aukalega. Það þykir mér vera líklegasta skýringin á að þetta skuli vera svona.

Hv. þm. spurði einnig um ættleiðandi foreldri. Ég verð að segja eins og er að þetta ákvæði er eins orðað og það sem er í núgildandi lögum og mér er ekki kunnugt um hvernig það hefur verið notað í framkvæmd, hvort það hafa verið sett ákveðin aldursmörk hvað varðar börnin sem ættleidd eru. Ég vil láta það koma fram hér sem mína skoðun að ég held að aldur barnsins sé ekkert aðalatriði því að ef barnið er komið á legg er þetta líka erfiður tími fyrir foreldrana og barnið sem verða að kynnast og læra að búa saman. Ég held því að það sama eigi að gilda hvort sem börnin eru komin nokkuð á legg eða ekki.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði hér nokkur orð og ef ég hef skilið þm. rétt setti hann fram þá hugmynd að eðlilegast væri, til þess að ná fullum jöfnuði í þessum málum, að snúa dæminu við, þ.e. að tekjuhæstu foreldrarnir minnkuðu nokkuð við sig í tekjum þegar þeir tækju fæðingarorlof af því að þeir gætu frekar minnkað við sig en aðrir og þeir tekjulægri tækju þá hærri laun. Þetta er kannske alveg prýðishugmynd.

E.t.v. ættum við að taka þetta upp á vinnumarkaðnum og hafa það þannig að menn skiptust á launum nokkuð reglulega. Þeir sem hafa lág laun eitt árið hafa þá háu launin næsta árið og öfugt. Ef þetta er réttur skilningur á hugmynd þm. finnst mér þetta ekki svo galið og ég mundi styðja frv. þessa efnis ef þm. bæri það fram á þingi.

Hvað varðar undirskriftirnar þá hafði þm. eitthvað um það að segja hvernig undirskriftunum hefði verið safnað. Ég get í raun og veru ekki skorið neitt úr um það vegna þess að ég stóð ekki að þessum undirskriftum. Það eina sem ég veit er að það voru konur austur á fjörðum sem tóku það upp hjá sjálfum sér að safna undirskriftum undir þetta frv. og síðan færðist þessi undirskriftaralda norður í land og kom þaðan hingað suður. (Gripið fram í.) Þetta er það eina sem ég veit um þessar undirskriftir og ég þori ekki að segja neitt af eða á um það hvernig nákvæmlega var að þeim staðið.

Þm. talaði um tvískinnung í því sambandi að vilja greiða heimavinnandi konum fæðingarorlof án þess að vilja greiða þeim sömu upphæð fyrir það að annast um börn sín þangað til þau eru komin af höndum og vaxin úr grasi. Ég væri því afskaplega fegin og mjög glöð ef fæðingarorlofsgreiðslur til heimavinnandi kvenna væru greiddar út t.a.m. í 3-4 ár og ekki bara til heimavinnandi kvenna heldur til allra kvenna þannig að konur fengju í raun og veru laun fyrir að ala upp börn. Það hef ég oft orðað í þessum ræðustól og við mörg tækifæri á hv. Alþingi. Ef hv. þm. vantar stuðningsmann í því efni stendur einn hér.

Síðan er það varðandi fylgifrv. og tölurnar sem þar eru. Þessi frv. bæði, fæðingarorlofsfrv. og fylgifrv., komu fram í desember. Það var áður en tölur fyrir árið 1985 lágu fyrir, áður en Tryggingastofnun ríkisins gat gert grein fyrir því hversu margar konur hefðu fengið fæðingarorlof og hversu há upphæð það hefði verið sem Tryggingastofnun greiddi út. Mér var því sá kostur einn fyrir hendi, þegar ég lagði fram frv., að miða við að ástandið væri óbreytt milli ára. Hins vegar kemur það á daginn þegar árið 1985 er gert upp að fæðingum hefur fækkað töluvert og þar af leiðandi hefur kostnaður vegna fæðingarorlofs lækkað, sem þýðir hvað fylgifrv. varðar, að upphæðin sem þar er lögð til að verði tekin inn með gjöldum á laun, þær 300 millj. sem þar er um að ræða, gera meira en að mæta þeim kostnaði sem ég hélt að lenging fæðingarorlofs hefði í för með sér. Vegna þess hversu miklu færri börn fæðast núna en árið á undan er fæðingarorlofið orðið ódýrara sem því nemur. Þess vegna mæta þessar 300 millj. meira en 2/3 hlutum þess kostnaðar sem frv. hefur í för með sér, en þær mæta náttúrlega ekki öllum þeim kostnaði sem ríkið mundi hafa af fæðingarorlofinu. Ríkið ber nú þegar, miðað við tölur síðasta árs, 195,5 millj. kostnað vegna fæðingarorlofs. 250 millj. mundu bætast við vegna frv. Þá eru þetta orðnar nærri 450 millj. Þær 300 millj. sem fylgifrv. halar inn duga því meira en fyrir þeim 250 millj. kostnaðarauka sem fæðingarorlofsfrv. hefur í för með sér. Eftir standa náttúrlega þær skuldbindingar sem ríkið hefur þegar.

Þá vona ég að þetta sé skýrt og ég þakka aftur þeim þm. sem hér tóku til máls og vona að þetta frv. nái því að koma aftur til 2. umr. og atkvæðagreiðslu áður en þingi lýkur.