05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

180. mál, fæðingarorlof

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Mér fannst hlýlegt af hv. málflytjanda að hafa orð á því að hv. deildarþm. væru nú farnir að venjast máli hennar í þessum þætti svo sem eins og þegar börn eru vanin á brjóst. Það má venja menn á ýmislegt.

Á hinn bóginn vil ég víkja að örfáum atriðum. Þm. spurði um skoðun á launum til fólks fyrir vinnu. Ég vil undirstrika að við erum hérna að fjalla um sérstakt mál og ég met það svo að það sé í rauninni hægt að tala um jafna fæðingarorlofsgreiðslu vegna þess að það er nær því sama vinna fyrir allar konur að eiga börn. Það er hægt að gera þar samanburð á annan hátt en menn geta gert á hinum almenna vinnumarkaði. Við erum að tala þarna um ákveðinn verknað, ákveðna athöfn sem er nokkurn veginn hægt að meta til jafns milli kvenna og karla.

Það kom líka fram hjá hv. þm. að kannske væri ástæða til að breyta hlutfallsgreiðslum. Ég vil aðeins undirstrika það sem ég vakti athygli á. Ég sagði að það væri mitt sjónarmið að ef það ætti ekki að vera jöfn greiðsla væri meiri ástæða til að greiða lægra launuðum konum hærra fæðingarorlof en hinum. En ég lét það líka koma skýrt fram að ég teldi að þarna ætti að vera jöfn greiðsla. (SDK: Hvað með launin í þjóðfélaginu almennt?) Ég er ekkert að svara um launin í þjóðfélaginu. Við erum að tala hérna um ákveðinn styrk, fæðingarstyrk, það má kalla það laun eða styrk eða hvað sem er, fyrir sömu vinnu.

En það var annað atriði sem mér fannst furðulegra að þm. skyldi ekki svara því að það stendur út af í kostnaði. Það munar hvorki meira né minna en nær 350 millj. kr. á málflutningi hv. þm. og þeim tölum sem koma fram í þeirri grg. sem hér er vitnað í. Það er sagt að 300 millj. séu tekjuauki en jafnframt nemi sú upphæð um 2/3 af' kostnaðarauka vegna frv. Það þýðir að kostnaðaraukinn er 450 millj. Þá eru eftir verðupphækkanir sem eru rúmar 100 millj. kr. Þarna munar nú hvorki meira né minna en tölu sem á fjárlögum er veitt til allra framkvæmdaliða ríkissjóðs, til allra sjúkrahúsa landsins, allra skóla, allra hafna, allra flugvalla og allra dagvistarstofnana. Þetta stendur svart á hvítu. Ég las þess vegna hér úr grg. frv. Þarna þarf að fá haldbetri skýringar. Það er nokkuð laust í reipunum þegar munar 350 millj. kr. eða þar um bil út frá grunntölu sem er 250.