05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

180. mál, fæðingarorlof

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal vera mjög stuttorð því að klukkan er rétt að verða fjögur. (Forseti: Það er ein mínúta til stefnu.) Já, ein mínúta.

Hv. flm. varpaði fram þeirri spurningu varðandi sjónarmið mitt um hlutverk ríkisins hvort ég teldi að í þjóðfélaginu ættu að vera sömu laun burtséð frá því hvað fólk gerir. Mitt sjónarmið er það fyrst og fremst að fólk eigi að hafa sömu laun fyrir sömu vinnu. Ég álít umönnun barns, alveg sama hvaða kona á í hlut, vera nákvæmlega það sama hvar sem konan er í launaflokki.

Um launastefnu og kjaramál er ekki hlutverk okkar alþm. að fjalla. Það eiga sem betur fer að gilda frjálsir samningar í þessu landi. En tvímælalaust mætti jafna launamun hér á landi. Það hefur komið glöggt í ljós á mörgum undanförnum árum. Ekki er á okkar valdi að ráða slíku. En þar sem ríkið á í hlut á ríkið að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu.