05.02.1986
Neðri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

196. mál, Stjórnarráð Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hafði fyrr við þessa umræðu gert grein fyrir meginviðhorfum til þessa frv. til laga um Stjórnarráð Íslands og bent á að frv. þetta er með ólíkindum rýrt hvað efni snertir þar sem þar er nær eingöngu tekið á tveimur efnisþáttum sem til nýmæla heyra, þ.e. varðandi ráðherraritara og ráðningartíma starfsmanna stjórnarráðsins. Er þó margt í þoku varðandi sérstaklega hið fyrrnefnda atriði, stöðu ráðherraritara.

Ég ætla ekki að gera það hér frekar að umtalsefni. En vegna umræðna, sem hér fóru fram, og atriða, sem fram komu m.a. í máli hæstv. forsrh., vil ég drepa hér á svolítið til viðbótar. Gert er ráð fyrir því skv. 7. gr. í þessu frv. að sett verði reglugerð um stjórnarmálefni sem falli undir ráðuneyti. Í 4. gr. er hins vegar kveðið á um hver þessi ráðuneyti skulu vera.

Ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hvert svigrúm hann telji að sé skv. þessari 7. gr. varðandi stjórnarmálefni og hvort hann hafi þar ákveðna þætti í huga sem færðir skuli vera á milli ráðuneyta þeirra sem nú eru. En varðandi heiti ráðuneyta er engar breytingar að finna skv. 4. gr.

Þá er í 9. gr. gert ráð fyrir því að skrifstofustjórar stjórni skrifstofum og deildarstjórar starfsdeildum ráðuneyta. Í athugasemd með þessari grein kemur fram að gert sé ráð fyrir heimild til að skipta ráðuneyti upp í skrifstofur og því einungis að um slíkar skrifstofur, fleiri en eina, sé að ræða innan ráðuneytis komi til skipunar skrifstofustjóra. Sé ráðuneyti ekki skipt upp í skrifstofur verði enginn skrifstofustjóri ráðinn. Það kemur skýrt fram í athugasemdum með 9. gr.

Ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hvað valdi þessari nokkuð sérstæðu skipan sem þarna virðist hugmyndin að taka upp, að fara að búa til embætti fleiri en eins skrifstofustjóra innan ráðuneytis, skipta því þannig upp með ákvæðum í reglugerð, en hins vegar að gera alls ekki ráð fyrir neinum skrifstofustjóra ef ekki er um slíka deilingu innan ráðuneytis að ræða.

Mér sýnist að þarna gæti ekki ósvipaðs tvískinnungs og kemur fram í sambandi við stöðu ráðuneytisstjóranna og ég vakti athygli á með tilliti til verksviðs ráðherraritara, breytingu á stöðu núverandi aðstoðarmanna ráðherra. Mér er nokkuð til efs að þessi nýbreytni skv. 9. gr., að skipta ráðuneyti upp í fleiri en eina skrifstofu og síðan í deildir, sé nauðsynleg eða horfi sérstaklega til bóta.

Það væri æskilegt að hæstv. forsrh. greindi okkur frá ástæðum fyrir því að gert er ráð fyrir þessu. Eru það kannske gerðir fyrrverandi hæstv. menntmrh. sem tók upp þá nýbreytni, ég hygg fyrstur ráðherra í Stjórnarráði Íslands, að skipa fleiri en einn skrifstofustjóra í ráðuneyti sínu? Þær aðgerðir þess hæstv. ráðh. urðu tilefni sérstakra umræðna hér á þingi eftir að fleiri en einn skrifstofustjóri hafði verðið skipaður í menntmrn. Þetta eru atriði sem mér finnst æskilegt að séu nánar skýrð hér við 1. umræðu.

Ég innti hæstv. félmrh. eftir viðhorfum í sambandi við umhverfisráðuneyti og hvað liði undirbúningi löggjafar um umhverfismál. Ég sá að hæstv. ráðh. var kominn hér í þinghúsið við upphaf fundar. Væri æskilegt að hann vildi greina okkur frá stöðu mála að þessu leyti ef hæstv. félmrh. er hér í þinghúsinu. (Forseti: Vegna ummæla hv. þm. skal fram tekið að félmrh. mun hafa orðið að bregða sér af þingfundi til annarra starfa.) Nú, ég mun út af fyrir sig ekki gera kröfu til þess að málinu verði frestað af þeim sökum einum en vænti þess að þetta mál verði upplýst við fyrstu hentugleika af hæstv. félmrh.

Ég vek athygli á því enn frekar en orðið er hversu óburðugt þetta frv. er nánast að öllu leyti. Grg. með þessu frv. er afar rýr, það er ekki haft fyrir því að draga upp mynd af stjórnarráðinu og skipulagi innan þess og hvaða atriði það eru í stjórnarráðinu nú sem hafi komið til álita að breyta. Ekki er að finna neitt slíkt yfirlit. Hefði það vissulega verið æskilegt bæði fyrir hv. þingdeild og þá nefnd sem á að taka við þessu máli.

Ég vek líka athygli á því að ekki er rætt neitt í þessu frv. eða grg. með því um hvaða kröfur sé eðlilegt að gera til starfsmanna í Stjórnarráði Íslands. Einungis er fjallað um ráðningartíma sem er afar teygjanlegur, eða frá sex og upp í átján ár innan sama ráðuneytis skv. ákvæðum 10. gr. En ekkert er fjallað um hvaða faglegar kröfur séu gerðar til starfsmanna í stjórnarráðinu.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, sem er stórt mál og ég hafði raunar ætlað mér að taka upp hér fyrr við umræðuna, þ.e. það ákvæði í 1. gr. að stjórnarráðið hefur aðsetur í Reykjavík og að ekkert er að finna í þessu frv. um dreifingu stjórnsýslunnar út fyrir höfuðstað landsins. Nú hefur það verið mikið á dagskrá og mikið í umræðu að flytja einstaka þætti stjórnsýslunnar, einstaka þætti ríkiskerfisins út í landshlutana og taka á þeim verkefnum sem þar eiga heima í reynd innan hinna einstöku svæða. Ég hef m.a. flutt um þetta till. á yfirstandandi þingi og fleiri þm. hafa lagt fram till. um tilfærslu stofnana í ríkiskerfinu út á land.

Ég hefði talið eðlilegt að einmitt í sambandi við þetta frv. um Stjórnarráð Íslands og undirbúning þess hefði ríkisstj. markað einhverja stefnu að þessu leyti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að sú þingnefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, taki á þessu atriði og fjalli um það hvort ekki sé eðlilegt að reyna nú að gera atrennu að því sem mikið hefur verið um rætt og till. liggja fyrir um frá mörgum þm. og reyndar stjórnskipuðum nefndum, um valddreifingu á verkefnum ríkiskerfisins og þar á meðal þátta sem nú heyra undir stjórnarráðið. Það er líka spurning um dreifingu á valdi innan ráðuneytanna sjálfra, t.d. varðandi fjárhagsmálefni og það mikla vald sem fjmrn. hefur í sambandi við fjármál.

Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. taldi það eitt af því sem færa mætti til tekna þessu frv. að með því væri fjárhagslegt sjálfstæði ráðuneyta aukið frá því sem nú er. Ég held að þetta sé eingöngu skrautfjöður. En þar er væntanlega átt við ákvæði 6. gr. laganna þar sem segir:

„Í hverju ráðuneyti skal sérstakri starfsdeild eða starfsmanni falið að búa fjárlagatillögur ráðuneytisins og stofnana þess í hendur fjmrn., annast eftirlit með fjárreiðum og vinna að hagræðingu í rekstri.“

Ég veit ekki betur en það séu allar heimildir til að framkvæma þetta innan ráðuneyta að gildandi lögum og í sumum ráðuneytum a.m.k. - það þekki ég frá iðnrn. - hafa verkefni af þessu tagi verið í höndum tiltekinna starfsmanna ráðuneytis. Ég sé ekki að hvaða leyti valdsvið fjmrn. er skert frá því sem verið hefur með þessu ákvæði og væri æskilegt ef hæstv. forsrh. fyndi rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að hér sé um að ræða aukið fjárhagslegt sjálfstæði ráðuneyta með ákvæðum þessarar greinar.

Ég vænti þess líka að hæstv. forsrh. segi okkur frá því hvort hann telji ekki réttmætt að taka upp spurninguna um dreifingu stjórnsýslunnar í tengslum við meðferð þessa frv. sem er svo rýrt í roðinu að ég tel þörf á því að það verði alveg unnið upp á nýtt af þeirri þingnefnd sem fær þetta til meðferðar. Það er nánast engin bót að þessari ónefnu sem hér liggur fyrir þinginu sem stjfrv. Full ástæða er því til að taka á þessu máli frá grunni. Ég hygg að þingflokkar stjórnarandstöðunnar hefðu ekki á móti því - það gildir a.m.k. um Alþb. - að leggja í það vinnu og gera tillögur um róttækar breytingar með allt öðru formerki en fram kemur í þessu frv. sem hefur sáralítil sem engin nýmæli að geyma. Vil ég þó út af fyrir sig ekki fordæma allt sem fram kemur í efni þess og hefð hefur skapast fyrir frá því að lög voru sett um stjórnarráðið síðast 1969.

Þetta vildi ég, herra forseti, að fram kæmi hér fyrir lok umræðunnar og ég vænti þess að hæstv. forsrh. geti skýrt nánar þau atriði sem ég hef óskað eftir skýringum á.