28.10.1985
Neðri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir það sem hér hefur verið sagt að Sjálfstfl. og ég hygg báðir stjórnarflokkar hafa fyrirvara á um einstök atriði í þessu frv. Það er öldungis rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., enda hygg ég að skoðanir manna á skipulagi sveitarstjórnarmála fari ekki endilega eftir pólitískum skoðunum eins og þær koma kannske fram í efnahagsmálum eða öðrum þáttum landsmála. Ég held að þar komi önnur sjónarmið til greina og held að það sé ekkert undarlegt þótt þm. hafi mismunandi skoðanir á þessu frv., kannske þvert á þá pólitísku flokka sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Ég vil líka geta þess að Sjálfstfl. mun nú á fimmtudag hafa ráðstefnu um sveitarstjórnarmál eins og fram hefur komið í blöðum þar sem þetta frv. verður m.a. ítarlega rætt og sveitarstjórnarmenn flokksins skiptast á skoðunum um þá stefnu sem hér er mörkuð og einstök atriði þessa frv. Sjálfur vil ég strax á þessu stigi láta það koma fram að ég hef mjög miklar efasemdir um að héraðsnefndirnar eins og þær eru hugsaðar í frv. hafi erindi og held að orki mjög tvímælis hversu í þær skuli kosið. hverjir skuli vera kjörnir fulltrúar í héraðsnefndum. Það er enginn vafi á því að það er Akkillesarhæll Fjórðungssambands Norðurlands m.a., og ég geri ráð fyrir annarra fjórðungssambanda einnig, hversu áhrif einstakra sveitarfélaga eru í miklu ósamræmi við fjölda þeirra sem í þeim búa. Við getum tekið þar sem dæmi Akureyri og áhrif hennar innan fjórðungssambandsins, sem er í hrópandi ósamræmi við íbúafjöldann þar og þann kraft sem frá því byggðarlagi kemur. Ég held því að þetta mál þurfi allt saman að hugsa miklu, miklu betur og ég held að það sé líka eftirtektarvert að í þessum tillögum er yfirleitt gengið út frá því að samstarf sveitarfélaganna skuli bundið í flestum tilvikum við gömlu sýsluskipanina, þó það sé ekki einhlítt, a.m.k. þá við kjördæmin eins og þau eru mörkuð, þannig að ekki er gerð tilraun til þess að endurmeta það hversu héruðin skuli standa innan stjórnsýslukerfisins.

Þetta eru auðvitað mjög viðkvæm mál en fordæmi fyrir því, þegar þessi kjördæmaskipan var ákveðin, að taka sneið úr einni sýslu og líma við aðra, þar sem Siglufjarðarkaupstaður var færður úr Eyjafjarðarsýslu í Skagafjarðarsýslu.

Ég held þetta þurfi mikillar athugunar við. Sömuleiðis það sem hér er talað um samvinnu sveitarfélaga en ég tek fram að ekki er við því að búast að skoðanir manna fari saman, a.m.k. á fyrsta stigi um þessi flóknu mál. Ég held líka að það sé ekki óeðlilegt þótt skoðanir innan stjórnmálaflokka séu nokkuð skiptar um einstök atriði.