06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

195. mál, menningar og fræðasetur á Skriðuklaustri

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 268 hef ég leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austurl. Jóni Kristjánssyni að bera fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að minnast þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar skálds árið 1989 með því að gera Skriðuklaustur, gjöf skáldsins til íslenska ríkisins, að menningar- og fræðasetri, griða- og vinnustað listamanna og vísindamanna.

Samstarf verði haft við heimaaðila, félagasamtök lista- og vísindamanna og afkomendur skáldsins um framkvæmd þessa svo að tryggt verði að aldarafmælis skáldsins verði minnst á veglegan og verðugan hátt.“

Í grg. með þessari till. segir að flm. telji mikla nauðsyn á því að minningu þessa mesta skálds Austfirðinga verði á loft haldið á verðugan hátt á aldarafmæli hans 1989. Gunnar Gunnarssón gaf á sínum tíma íslenska ríkinu Skriðuklaustur og fylgdi því það eina skilyrði að þar yrði menningarstarfsemi rekin af reisn og þrótti, að þar yrði sannkallað menningar- og fræðasetur.

Vissulega hefur merkileg starfsemi í þágu íslensks landbúnaðar farið fram um langt skeið á Skriðuklaustri og ekki draga flm. úr mikilvægi þess. Sömuleiðis hafa ákveðnir samningar verið gerðir um byggingu safnahúss á Egilsstöðum sem óumdeilanlega er tengt Skriðuklaustri og gjöf skáldsins. Hins vegar er Skriðuklaustur ekki nú það fræðasetur, sá griða- og vinnustaður listamanna og vísindamanna sem skáldið hugsaði sér.

Að öðru leyti skal ekki um þetta fjallað af hálfu flm. í grg., en þess er látið getið að flm. láti fylgja með álitsgerð sem þeir taka undir í flestum atriðum. Þessi álitsgerð er samin af þeim Helga Hallgrímssyni, náttúrufræðingi á Akureyri, og Þórarni Lárussyni, núv. tilraunastjóra á Skriðuklaustri, og við tökum undir flest atriði hennar. Aðaláhersla þeirra er að vísu á fræðasetur jafnhliða þeirri starfsemi sem þar er rekin nú, en við flm. leggjum til að ekki síður verði hér um að ræða griða- og vinnustað lista- og vísindamanna og er það mjög í samræmi við það gjafabréf sem þau hjón létu ríkið hafa á sínum tíma.

Ég vísa í þessa ítarlegu greinargerð sem hér fylgir frá þeim félögum því að í henni gera þeir glögga grein fyrir ýmsum þeim hugmyndum sem þeir hafa um Skriðuklaustur, eins og ég nefndi, í þá veru að staðurinn megi halda sem mest í heiðri minningu mikils rithöfundar, að tilgangi gjafabréfs þeirra hjóna verði sem best náð.

Við tökum undir að þar eru sannarlega á ferð athyglisverð atriði, en ég ætla ekki að fara að rekja þau hér, ekki heldur ýmislegt varðandi rekstur og stjórnskipan, rekstrartekjur og annað því um líkt sem þar er nákvæmlega rakið. Um þetta geta menn lesið í þeirri skemmtilegu og vel sömdu greinargerð sem hér fylgir með og hefur verið gerð á Akureyri á allraheilagramessu 1985.

Það er heldur ekki ætlan mín að rekja hér þróun mála frá þeim tíma er þau hjón afhentu gjafabréf til ríkisins fyrir þessari vildisjörð og þeim miklu og veglegu byggingum, því glæsilega húsi í dönskum herragarðsstíl sem þar var og er staðarprýði enda þótt nokkuð hafi skort á um viðhald þess á síðustu árum og jafnvel áratugum. Það starf sem þar hefur verið unnið í þágu íslensks landbúnaðar hefur verið mikið og gagnlegt og engin ástæða til að kasta á það rýrð þó merkið sé reist enn hærra nú og það gert af enn ákveðnara tilefni, aldarafmæli skáldsins sem verðugt er Austfirðingum sem allri þjóðinni að halda myndarlega á lofti.

Við flm. drögum heldur enga dul á að Safnastofnun Austurlands, sú merka menningarstofnun, hefur notið og mun njóta hins besta af samningum sem gerðir voru um framkvæmdir á Egilsstöðum fyrir þá starfsemi í tengslum við Skriðuklaustur. Þar hefur að vísu hægar miðað en skyldi, en í engu hefur þessi till. þann tilgang að draga þar úr eða tefja framkvæmdir sem eru þar hafnar, enda vel fyrir séð samningslega og ætti að vera öruggt um framhaldið.

Ég bendi á, af því að ég minnti á Safnastofnun Austurlands, að skipulag þeirra mála, safnamála á Austurlandi, hefur orðið fyrirmynd annars staðar í uppbyggingu safnamála og raunar hefur það þótt eftirtektarvert erlendis einnig hvernig þar hefur verið tekið á málum.

Það sakar ekki að geta þess að grunn að þessu lagði á sínum tíma hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson af dugnaði og framsýni og sameinaði þar ólíkustu krafta að einu marki, því að koma á heildarskipulagi þessara mála.

En vegur Skriðuklausturs þarf að verða sá sem skáldið og kona hans sáu í draumum sínum og beinum tillögum í gjafabréfi sínu. Rómuð fegurð þessa fjalladals, sem mótar umhverfi og svip Skriðuklausturs, spillir hér ekki fyrir og tengdast ævistarfi skáldsins væri það vissulega að Skriðuklaustur yrði sá griðastaður skálda og listamanna þar sem þeir gætu unað og unnið að list sinni, vinnustaður næðis og rósemdar, friðar og fegurðar, fjarri skarkala og ysi við fljótsins dreymnu ró, svo að maður leyfi sér örlitla háfleygni í þessum ræðustól. Ég hygg að ef þar yrði vel að búið og aðstaða sköpuð sem allra best mundi marga fýsa til farar austur þangað til að erja akur bókmennta og annarra listgreina við hliðina á uppbyggingarstarfi athugana og tilrauna í þágu gróðurs og grænna skógarlunda, en Fljótsdalur er einmitt og þeir bændur þar kunnir fyrir tilraunir sínar um nýjungar í skógrækt.

Annars er það efst í huga okkar flm. að þetta tilefni verði til þess nýtt að hrinda hugarsýn skáldsins í framkvæmd sem allra best, minna um leið á stórvirki hans í bókmenntum okkar, halda minningu mikils rithöfundar í alfremstu röð þessarar aldar svo á loft sem sæmir okkur sem bókmenntaþjóð. Hér á ríkisvaldið að hafa forustu svo sem vera ber, en verði þar knálega róið í fyrirrúmi vitum við flm. að ekki mun skuturinn eftir liggja því áhugi fyrir þessu máli er ærinn eystra, margir aðilar þar þess albúnir að leggja hönd á plóg.

Í trausti þess að sameinað átak allra megi til koma er þessu máli hreyft. Enn er nokkur tími til stefnu, en hann þarf að nýta vel. Núverandi tilraunastjóri, Þórarinn Lárusson, hefur unnið kappsamlega að því að fá fram nauðsynlegar endurbætur á hinu veglega en illa farna íbúðarhúsi. Þær eru hafnar fyrir tilstuðlan fjárveitingavaldsins sem þar hefur komið myndarlega til móts við brýna þörf þó að enn sé margt og mikið óunnið. En átaks er þörf sem fyrst ef menn vilja á annað borð nú eftir um 40 ár fara að þeim meginvilja þeirra hjóna að gjöf þeirra mætti nýtast jafnt til veraldlegra sem andlegra hluta og þá einmitt beinlínis í þá veru sem till. lýtur að.

Ég held að þegar nú er talað um nauðsyn þess að varðveita móðurmálið og efla varðstöðu um íslenskt mál sé nauðsynlegt að í þeirri sókn hljóti að fara í fremstu röð rithöfundar þeir og listamenn sem framvegis ættu þá að eiga griðastað sinn á Skriðuklaustri til starfa í anda þess mikla skáldjöfurs sem á Skriðuklaustri bjó heim kominn og gaf þessa góðu eign íslenska ríkinu til ávöxtunar á sviði lista og vísinda framar öllu öðru. Ekkert gæti frekar verið til að halda ágætri minningu Gunnars Gunnarssonar enn betur á loft en slíkt hlutverk Skriðuklausturs sem hér er lagt til. Þjóðin stendur öll í þakkarskuld við skáldið fyrir þau stórvirki andans sem hann færði okkur að gjöf. Þá þakkarskuld ber að gjalda.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að lokinni þessari umræðu að leggja til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. allshn.