06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

Fundarsókn þingmanna

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það er nokkur tregða að fá hv. þm. í þingsalinn til atkvæðagreiðslna. Það verður þó að hafa í huga að það getur verið allt með felldu að einhvern tíma taki að menn komi. En það þykir rétt að fullnægja ákvæði þingskapalaga eins og það er orðað í þingsköpum: „Að lokinni 1. umr. skal málið borið undir atkvæði.“ Það er auðvitað gert ráð fyrir að það sé gert strax að lokinni umræðu. Það verður að ætla að það séu eðlileg vinnubrögð í þinginu að þetta sé bókstaflega framkvæmt á eðlilegum þingtíma, milli kl. tvö og fjögur. Það er ekki góður svipur, eins og hefur komið fyrir hér í dag, að það hefur verið einn þm. að hlusta á ræðumann. Með því að menn séu í nánari tengslum við þingsali og komi til atkvæðagreiðslu verður frekar spornað á móti þessu ástandi. Þegar fundir eru ekki á venjulegum fundartíma eftir kl. fjögur verður hins vegar ekki ætlast til þess að þm. verði alltaf viðlátnir til þess að atkvæðagreiðsla geti farið fram strax að lokinni umræðu.

Að gefnu tilefni vildi forseti taka þetta fram.