28.10.1985
Neðri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti.Ég skal ekki tefja frekar þessar umræður. Ég aðeins fagna því enn að það virðist vera almennur áhugi fyrir þessu máli hér á hv. Alþingi.

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að þetta er stjfrv. sem er lagt fram með eðlilegum hætti og m.a.s. með lengri aðdraganda en oft áður. Það væri furðulegt að halda því fram að óeðlilegt væri að einstaka þm. í stjórnarflokkum gætu haft þá afstöðu til slíks frv. að vilja breyta einstökum greinum þess eða köflum. Það væri óeðlilegt ef svo væri ekki í svo veigamiklu og mikilvægu máli eins og sveitarstjórnarlöggjöf á Íslandi er. Mér þætti það furðulegt ef slíkt ástand væri að menn hefðu ekki athugasemdir eða vildu breyta einhverjum ákvæðum þessa lagafrv.

Ég ætla ekki að fara út í frekari skoðanaskipti við hv. þm. um þetta. Auðvitað er tekjustofnafrv. stórmál fyrir sveitarfélögin og ég vænti þess að á því verði tekið með þeim hætti hér á hv. Alþingi þegar það kemur fram að það fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi, því það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélögin hvernig á því verður tekið og hvaða ákvæði þar verða til þess að auðvelda það, sem við allir eru sammála um, að efla stöðu sveitarfélaga og gera þau að því tæki sem við viljum að þau verði, sem aðalstjórnsýslustig á móti ríkinu.

Ég vil, út af ræðu hv. 5. þm. Austurl., enn á ný segja að það er skoðun sveitarstjórnarmanna í landinu í dag að þörf sé á því að finna leið til þess að sameinast um verkefnin. Ég er alveg viss um að flest sveitarfélög í landinu vilja skipa sér í stærri heildir til þess að taka við auknum verkefnum frá ríkinu og hafa meiri áhrif en nú er fyrir sín byggðarlög til þess að vinna að sínum hagsmunamálum.

En ég vil vekja athygli hv. 5. þm. Austurl., og raunar annarra þm., á hvernig þessi þróun hefur verið í nágrannalöndunum og vitna til norskra og sænskra hagfræðinga sem hafa látið það alveg óhikað í ljós að við hér á Íslandi, í svona fámennu þjóðfélagi eins og hér er, ættum ekki að einblína um of á þær breytingar sem þar voru gerðar á sínum tíma vegna þess að þær muni ekki henta því efnahagskerfi sem við búum við og verðum að búa við vegna sérstöðu okkar lands. Bæði í Norður-Svíþjóð og Norður-Noregi eru að koma fram núna vankantar á þeirri breytingu sem þeir gerðu. Þar er núna að koma afturkippur í þau stjórnsýsluáhrif sem sveitarfélögin hafa og við þurfum a.m.k. að athuga vel að ekki verði það sama ástand hjá okkur.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður lengur. Ég vonast til þess að hv. félmn. deildarinnar og raunar báðar félagsmálanefndir og þingið í heild taki á þessu máli á þann veg að það verði unnið vel að því, þannig að ný sveitarstjórnarlöggjöf verði staðreynd á þessu þingi.