06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

204. mál, bifreiðamál ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er mjög til skaða að hæstv. ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir þessa umræðu og jafnframt fleiri hv. þm. því að hér er verið að tala um mál sem er ekki allt sem sýnist.

Ég býst við að það sé mjög vinsælt að leggja til að ráðherrar landsins hafi sem allra minnst bílafríðindi. Ég er sammála því ef slíkt fjallar um þeirra eigin eign. Ég tel ekki ástæðu til þess að ráðherrar eignist bíla á ódýrari hátt en annað fólk. En ég hlýt að spyrja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort hún ætlist til þess að ráðherrar landsins aki sjálfir sínum eigin bílum meðan þeir eru við störf. Ég þori að lýsa því yfir hér: Ég tel að það sé enginn sparnaður og ekkert vit. Mér finnst enginn sparnaður í því að ráðherrar landsins eyði tveim tímum, eins og ég í morgun, í að láta gera við biluð dekk. Ég tel að þeir eigi að vera að gera eitthvað allt annað. Í þessu nuddi yfir því að ráðherrar hafi bíla til umráða felst hreinlega vanvirða á störfum þeirra.

Ég harma að hér eru ekki blaðamenn, þingfréttaritarar. Ég hefði nefnilega gaman af að segja þeim góðu mönnum, sem skrifa náttúrlega um þetta á morgun með feitu letri, að þeir hafa miklu hærri tekjur en ég. Þetta vita menn kannske ekki. (JBH: Blaðamennirnir?) Þetta vita menn kannske ekki, meiri tekjur. (JBH: Blaðamennirnir?) Já, þeir hafa það. Þessi eilífi söngur, sem þm. sjálfir þora ekki að taka á móti, um há laun þm. og enn þá hærri laun ráðherra er auðvitað eintómur þvættingur. Forustumenn verkalýðssambandanna hafa miklu hærri tekjur. Þá tala ég um tekjur. Við skulum ekkert vera að tala um laun því að það er ekkert að marka neina launataxta í þessu landi.

Hvað lengi ætla hv. þm. að sitja undir því að þeir vinni ekki fyrir kaupinu sínu? Við höfum föst laun, en við höfum afskaplega langan vinnudag. Ef við ættum að fá reiknaða, eins og annað fólk í landinu, eftirvinnu fyrir alla þá vinnu sem unnin er utan vinnutíma er ég ansi hrædd um að við fengjum nokkru hærri laun en við höfum nú.

Ég held þess vegna að Alþingi sjálft eigi að hafa frumkvæði að umræðum um þau og upplýsa þjóðina um hvers eðlis þessi störf eru sem við erum að vinna og hvernig þau eru metin til tekna. Við eigum ekkert að vera feimin við að tala um það. Sem þm. vil ég endilega að þjóðinni sé það ljóst að ég tel mig fyllilega vinna fyrir þeim launum sem ég hef.

Til er fólk í þessu landi sem veit ekki einu sinni að alþm. borga skatta. Ég hef hitt fólk sem heldur að alþm. séu skattfríir og annað slíkt dettur upp úr fólki í sambandi við þessi mál.

Ég tel alveg fráleitt að ráðherrar landsins auki eigur sínar á einhvern hátt, eins og með niðurfellingu aðflutningsgjalda á bifreiðum. En ég tel jafnsjálfsagt að ráðherrar landsins hafi ráð á bílum ríkisins og bílstjóra til að flytja sig á milli staða og sjá um rekstur þessara bifreiða. Ég tel að þeim tíma, sem í slíkt fer á hverju venjulegu heimili, sé illa varið ef sá tími er tekinn af vinnutíma ráðherra landsins og ég held ekki að sá kostnaður skipti neinum sköpum í ríkisrekstrinum.

Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta hvort ekki er mál til komið að einhver umræða fari fram um þessi mál, heiðarleg og með nokkurri virðingu fyrir þessari stofnun.

Við eigum öll aðstandendur sem vinna hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, og við vitum mætavel að þetta fólk er miklu hærra launað en venjulegur hv. alþm. Ég er ekkert alveg viss um að mér finnist það eðlilegt. Ég skal ekki eyða tíma þingsins í að skilgreina í hverju starf alþm. er fólgið, ég býst við að þeir, sem hér eru, viti það. En það væri svo sannarlega mál til komið að skýra þjóðinni frá því.

Ég vil þess vegna lýsa því yfir, herra forseti, að ég er mjög sammála því sem þáltill. felur í sér. En ég vil jafnframt að það komi fram hvernig þá eigi að leysa á ódýrari máta bifreiðamál ráðherra því að ég lýsi því jafnframt yfir að ég er algjörlega mótfallin því að þeir hafi ekki bifreið til umráða. Slíkt væri algjör fjarstæða. Má þá vænta þess að bifreið verði tekin af forseta Íslands? Vilja menn það? Nei, ég held ekki að Alþingi sé gerður neinn sómi með því að stunda svo fáránlegan sparnað ef menn telja það sparnað.

Herra forseti. Ég legg á það áherslu að um þessi mál fari hér fram innan þingsins, t.d. meðal forseta, skrifstofustjóra og ráðherra, einhverjar vitrænar umræður um hvernig þessum málum verði betur fyrir komið. Öll hagræðing má þar mín vegna eiga sér stað. En ég tel það algjöra fjarstæðu að þessi umræða gangi svo langt að farið verði að taka bifreiðar af ráðherrum.