06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

204. mál, bifreiðamál ríkisins

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér fannst tvennt koma fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Í fyrsta lagi gerði hún að umræðuefni laun og kjör þm. og kom fram í hennar máli að hún taldi að þeir væru ekkert of sælir af sínum launum. Auðvitað má undir það taka en það fer þó eftir því hvaða viðmiðun menn nota í því sambandi. Ef við miðum við t.d. kjör láglaunafólks, sem er stór hópur í þessu þjóðfélagi, þá eru þm. töluvert hátt launaðir. En ef við berum okkur saman við ýmsa aðra hópa í þjóðfélaginu, bæði innan embættismannakerfisins og á einkamarkaðinum, þá eru þm. vitaskuld ekki hátt launaðir.

Hv. þm. beindi til mín spurningu um það hvort ég teldi að ráðherrar ættu ekki að hafa bíl til umráða og hvort ég teldi að þeir ættu t.d. ekki að hafa einkabílstjóra. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur ekki fylgst grannt með ræðu minni áðan vegna þess að ég nefndi einmitt það sem koma ætti í staðinn fyrir niðurfellingu á þessari 10. gr. í reglugerðinni sem ég vil fella úr gildi. Í 10. gr. í reglugerðinni eru sérákvæði að því er varðar bifreiðafríðindi ráðherra. Ég tel að það þurfi engar sérreglur að gilda um bifreiðafríðindi ráðherra. Ég tel að þeir geti fallið undir hið almenna ákvæði sem er í þessari sömu reglugerð, þ.e. í 3. gr. Hún felur í sér að þegar hagkvæmt er talið að sinna vissum verkefnum stofnana ríkisins með eigin bifreiðum kaupi ríkið bifreiðar til þessara þarfa og reki þær á eigin kostnað. Síðar í þessari sömu grein stendur:

„Þó er forstöðumönnum stofnunar heimilt að fengnu samþykki fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að leyfa starfsmanni að hafa slíkar bifreiðar í sinni vörslu utan vinnutíma þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“ Og síðan kemur: „Sérstök akstursbók skal fylgja hverjum ríkisbíl og færir ökumaður í hana hverja einstaka ferð þar sem fram kemur erindi og svo fleira.“

Ég tel t.a.m. ekki eðlilegt - og það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. Guðrún Helgadóttir telur að það sé eðlilegt - að hv. þm. hafi t.d. einkabílstjóra og geti rekið sína einkabifreið á kostnað ríkissjóðs í sínu sumarleyfi eða bara í sínum einkaerindum. Ég tel það t.d. ekki eðlilegt og alls ekki nauðsynlegt að þeir hafi einkabílstjóra til slíkra erinda.

Það er dýrt fyrir hinn almenna launamann að fara kannske í sumarfrí hér kringum landið, hann þarf að borga rekstrarkostnað af sínum bíl fyrir það. En ég tel að ráðherrarnir, eins og málum er háttað nú, geti - og ég tel að þeir geri það - notað þennan bíl í sínum einkaerindum. Þess vegna tel ég að þessi almenna regla geti gilt, að ríkið eigi bifreiðar sem ráðherrar hafi afnot af.

Ég tel það óþarfa að hver og einn ráðherra hafi einkabílstjóra, 10 samtals, sem kannske bíða eftir þeim í marga klukkutíma meðan þeir á fundi, kannske á sama fundinum eins og hér í þinginu. Ég tel að hægt sé að hafa meiri hagkvæmni í þessu og það sé hægt að koma á meiri sparnaði og þeir þurfi ekki allir að vera með einkabílstjóra. Það mættu vera kannske nokkrar bifreiðar sem væru til afnota fyrir ráðherra þar sem þeir gætu skipst á eftir því sem þeir þurfa í sínar ferðir að hafa þessar bifreiðar til afnota og þá bílstjórana einnig.

Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. þyki það bruðl að einkabílstjórar ráðherra þurfi t.d. að bíða tímunum saman á næturvinnukaupi kannske eftir því að ráðherrar ljúki sínum erindum á fundi eða annars staðar. Það kom fram í svörum ráðherra við fsp. minni hér fyrir jól að verulegur hluti af rekstrarkostnaðinum fer einmitt til að greiða laun fyrir einkabílstjóra ráðherra. Ég er ekki að segja það í sumum tilfellum geti verið nauðsynlegt að þeir hafi einkabílstjóra en mér finnst að hægt sé að leita ódýrari og hagkvæmari leiða í því efni heldur en að við búum við í dag.