06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

209. mál, eldvarnir í opinberum byggingum

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 437 hef ég leyft mér ásamt hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja áætlun um eldvarnir í opinberum byggingum hér á landi. Í þeirri áætlun skal verkefnum raðað í forgangsröð svo sem frekast er kostur jafnframt því sem gerð verði grein fyrir áætluðum kostnaði. Ríkisstj. skal láta ljúka áætlun um þessi verkefni í tæka tíð svo að unnt verði að taka mið af henni við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1987.“

Í grg. segir svo, með leyfi forseta:

„Tillaga þessi er flutt til að vekja enn frekari athygli á miklu vandamáli og um leið ýta sem best á eftir því að raunhæfar aðgerðir fylgi í kjölfarið. Alþingi getur ekki látið sem ekkert sé þegar því er beinlínis haldið fram með réttu eða röngu að fjárveitingavaldið hafi árum saman ýtt til hliðar brýnum verkefnum eins og eldvörnum í opinberum byggingum. Skylda þingsins er að breyta þessum málum, ríkisstjórnar er að vinna skipulega áætlun um viðamikið verkefni og í kjölfarið þarf að veita nauðsynlegt fé til að vinna brýnustu verkefnin og halda verkinu svo fram að viðunandi lausn fáist sem fyrst.

Ekki er þörf á því nú að rekja þetta mál ítarlega í grg., svo mjög sem það hefur verið til umræðu að undanförnu. ljóst er að hörmulegur atburður á Kópavogshæli í þessum mánuði hefur orðið til þess að vekja menn til umhugsunar og ýta við mörgum manninum í þessum efnum. Ber þar hæst víðtæka söfnun Kiwanismanna til eldvarna á Kópavogshælinu, sem ber að meta sérstaklega og þakka. Um leið verður ekki hjá því komist að benda rækilega á það að eldvarnir eru því miður í megnasta ólagi í mörgum opinberum stofnunum.

Í þessari till. er gert ráð fyrir framkvæmdaáætlun um eldvarnir í opinberum byggingum. Eðlilegt er að ríkisstj. ákveði hverjir annast skuli gerð áætlunarinnar. Það hlýtur að verða að kalla til fulltrúa Brunamálastofnunar, Innkaupastofnunar ríkisins, tryggingafélaganna og fleiri aðila auk þeirra fagráðuneyta sem fara með málefni einstakra stofnana. Sérstök áhersla er lögð á að áætlunin verði tilbúin tímanlega fyrir gerð næstu fjárlaga.“

Ég held að það þjóni ekki tilgangi að fara út í frekari útlistun þessa máls umfram það sem er í grg. þessarar till. Því miður er það oft svo að hörmuleg tilvik eða orsakir valda upphlaupsumræðu eða skyndiáhuga á málefni en svo hverfur áhuginn, umræðan koðnar niður og, það sem verst er, oft má segja á eftir að svo sé eins og ekkert hefði gerst.

Hér er ekki um verkefni að ræða, ef litið yfir heildina alla, sem er skjót- eða auðleyst og allt kostar það ærna fjármuni. Einmitt þess vegna er nauðsyn á því að skipulega sé að því unnið en þó umfram allt að unnið sé þótt í áföngum verði, að ekki verði beðið með allar aðgerðir þar til eitthvað dynur yfir á ný.

Ásakanir til og frá þjóna heldur ekki tilgangi. Fjárveitingavaldið, við hér á Alþingi verðum að reka af okkur það slyðruorð sem á okkur hefur sannarlega verið borið án þess að ég ætli í því máli að taka þar undir þó að ég viti það að vel hefði betur mátt gera í mörgum greinum.

Ég legg áherslu á að lausn þessa máls verði í senn örugg og án þess aukakostnaðar sem oft vill fylgja að ófyrirsynju því að ærið oft hendir það okkur að hafna ódýrari lausnum, þó að öruggar séu, fyrir fokdýrar sem skila tiltölulega litlu betri árangri. Umræður í fjölmiðlum hafa leitt í ljós að víða er hér stór hætta á ferðum og þarf ekki að leita lengra en á stærstu sjúkrastofnun landsins til að sjá hættuboðana rísa ógnvekjandi hátt. En til þess er þetta mál ekki flutt að fá um það meiri umræður þótt þarfar kunni að vera heldur til þess að hefja sem fyrst raunhæfar aðgerðir til úrbóta og láta næstu fjárlagagerð sýna þess glögg merki að við ætlum að bæta öryggið, breyta hættuástandi, vinna okkur út úr sem allra fyrst óviðunandi ástandi allt of víða. Til þess er þessu máli hreyft hér.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.