06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

218. mál, Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 446 um að hætta ríkisrekstri Fiskifélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands. 1. flm. að þessari till. er hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem nú hefur vikið af þingi, var hér varaþm. á s.l. hausti, en meðflm. eru aðrir þm. Alþfl.

Ályktunarorðin eru á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera allar viðhlítandi ráðstafanir til þess að Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands megi leggja niður sem ríkisstofnanir.

Í þeim undirbúningi skal m.a. felast:

að öll gagnasöfnun og skýrslugerð um fiski- og landbúnaðarmál, sem nú fer fram hjá þessum stofnunum, verði færð til annarra stofnana, svo sem Hagstofu Íslands,

að hefja viðræður við samtök viðkomandi atvinnuvega um hvort þau óski eftir að starfrækja sjálf og þá á eigin kostnað þá þjónustu aðra en gagnasöfnun og skýrslugerð sem Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands nú inna af höndum við umrædda atvinnuvegi og þá hvernig.

Niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en í árslok 1986 svo að hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir samfara afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987.“

Þessari till. var fyrst hreyft í umfangsmiklum brtt. þm. Alþfl. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1986. Till. er liður í heildaráætlunum þingflokks Alþfl. um sparnað í ríkisrekstri, fækkun ríkisstofnana og tilflutning verkefna frá ríkissjóði til annarra aðila.

Með þessum fjárlagatillögum settum við okkur það mark í fyrsta lagi að tryggja með öruggum hætti hallalausan rekstur ríkisins á þessu ári, í annan stað að draga mjög verulega úr nýjum erlendum lántökum, sem samsvaraði 1,7 milljörðum kr. á desemberverðlagi. En í heild fólu tillögurnar í sér í fyrsta lagi umtalsverða minnkun ríkisútgjalda, í öðru lagi breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins og aukna tekjuöflun, í þriðja lagi fækkun ríkisstofnana, í fjórða lagi kerfisbreytingu sem fól m.a. í sér afnám á svokölluðu velferðarkerfi fyrirtækja í ríkisbúskapnum, en með því eigum við við að þjónusta sem ríkið annast eða skattgreiðendur greiða fyrir en er í þjónustu eða þágu atvinnulífs og atvinnuvega verði greidd með eðlilegum hætti af þeim sem þjónustunnar njóta, í fimmta lagi gerðu þessar tillögur okkar ráð fyrir því að ríkisbúskapnum mætti haga þannig að í stað sjálfvirkrar þenslu rekstrarútgjalda yrði meira afgangs, meira olnbogarými til virkra framlaga til fjárfestingar, bæði á vegum ríkisins sjálfs og ríkis og sveitarfélaga í sameiningu.

Það var m.ö.o. ný stefna í ríkisfjármálum sem Alþfl. boðaði með þessum tillögum sínum. Það vekur svo athygli nú, rúmum mánuði eftir afgreiðslu fjárlaga, að aðilar vinnumarkaðarins hafa snúið sér í sameiningu til ríkisstj. og óskað eftir viðræðum við ríkisstj. um forsendur kjarasamninga þar sem ein meginósk aðila vinnumarkaðarins sameiginlega er að beina því til ríkisstj. að hún spretti upp þeim fjárlögum og breyti þeirri ríkisfjármálastefnu sem meiri hluti stjórnarliða hér á Alþingi veitti brautargengi við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga fyrir jól.

Minnkun ríkisútgjalda er forsenda fyrir þeim skattalækkunum sem aðilar vinnumarkaðarins eru nú að óska eftir og vilja fá sem forsendu í allsherjarsamkomulagi eða lífskjarasáttmála fyrir sem því sem svarar lægri kaupkröfum í krónutölu. Þessi till. er ein af fjölmörgum slíkum tillögum sem við fluttum við fjárlagaafgreiðsluna með það beinlínis í huga að haga ríkisfjármálastefnunni í samræmi við ástand og horfur í efnahagsmálum og greiða þannig fyrir nýjum lífskjarasáttmála og allsherjarsamkomulagi um vinnufrið á vinnumarkaðnum og launaþróun í samræmi við þau markmið að halda verðbólgu í skefjum. Hér er m.ö.o. um að ræða kerfisbreytingu í ríkisrekstri.

Þetta eru aðeins fyrstu skrefin í þá átt því að fyrir utan þær tillögur sem við þegar höfum flutt við fjárlagaafgreiðsluna mætti auðvitað taka fleiri skref og nefna fleiri dæmi af svipuðum toga.

Fiskifélag og Búnaðarfélag eru í reynd hin gömlu atvinnumálaráðuneyti okkar Íslendinga, enda þótt þau séu fyrst og fremst innan vébanda hagsmunasamtaka atvinnuveganna fremur en beinar stjórnsýslustofnanir. Vegna þessarar forsögu hafa þessum stofnunum verið falin ýmis opinber stjórnsýsluverkefni, svo sem gagnasöfnun og skýrslugerð, sem félögin sinna enn þótt í millitíðinni hafi risið upp öflugar opinberar stofnanir og ráðuneyti til þess að sinna slíkum verkefnum. Þar að auki hafa þessi félög verið og eru enn hagsmunasamtök umræddra atvinnuvega og starfa í nánum tengslum við önnur slík og að verulegu leyti undir þeirra stjórn.

Þar sem þessar stofnanir eru ríkisstofnanir er kostnaður við þær greiddur af ríkissjóði, enda þótt tekjuöflun þeirra sé líka nokkur. Þannig er greitt jafnt fyrir gagnasöfnun og skýrslugerð sem þá starfsemi sem beinlínis felur í sér þjónustu eða hagsmunagæslu í þágu viðkomandi atvinnuvega, fyrirtækja eða jafnvel einstaklinga. Kostnaðurinn við samkomur þessara félaga í hagsmunagæsluskyni er þannig greiddur úr ríkissjóði, t.d. var kostnaður við þinghald þeirra til skamms tíma greiddur með sama hætti og kostnaður við löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hlutverk þessara þinga hefur m.a. verið að taka til umsagnar erindi til löggjafarsamkomunnar frá hagsmunasjónarmiði ýmissa aðila, einstaklinga og félaga. Jafnvel dæmi þess að smíða lagafrv. til flutnings á Alþingi um slík hagsmunamál.

Að sjálfsögðu er ekkert við þess háttar hagsmunagæslu að athuga annað en það að ríkið kostar hana. Slíkt á ekki við um aðrar sambærilegar samkomur, svo sem iðnþing eða stéttaþingin, þing Alþýðusambands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna eða Stéttarsambands bænda, og eru þó viðfangsefni og hlutverk funda þessara samtaka ekki mjög ólík hlutverkum fiskiþings og búnaðarþings. Þess vegna þykir skynsamlegra, frekar en að taka upp ríkisrekstur allra hagsmunasamtaka og þrýstihópa í landinu, að ein og sama reglan gildi um öll þessi samtök,líka Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands, nefnilega sú regla að þessi samtök starfi sjálfstætt að vilja og á ábyrgð viðkomandi hagsmunaaðila en ekki ríkissjóðs.

Óeðlilegt er líka með öllu að samtök, sem a.m.k. öðrum þræði eru hagsmunasamtök, hafi með höndum opinbera gagnasöfnun og skýrslugerð. Slík verkefni þarf að sjálfsögðu að vinna, en þau eiga að vera í höndum óhlutdrægra opinberra stofnana. Ekkert mælir hins vegar á móti því að sjálfstæð hagsmunasamtök annist einnig slík verkefni og þá að sjálfsögðu á eigin kostnað og eigin ábyrgð. Það er hvorki æskilegt né nauðsynlegt að hagsmunasamtökum sé jafnframt falið að safna gögnum og skila hagskýrslum, enda á það fyrirkomulag rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki voru opinberir aðilar til að sinna slíkum verkefnum.

Þessi þáltill. gerir ráð fyrir að þessu Janusarhlutverki Fiskifélags og Búnaðarfélags ljúki. Hún felur það ekki í sér að félögin sem slík verði lögð niður, fjarri því, heldur að ríkisrekstri þeirra, að svo miklu leyti sem um hann er að ræða, verði hætt og hagsmunaaðilum, sem að þeim standa, verði í sjálfsvald sett hvort og þá hvernig rekstri þeirra verði haldið áfram á nýjum grundvelli. En sú gagnasöfnun og skýrslugerð sem félögin vinna nú í þágu opinberrar stjórnsýslu er að sjálfsögðu nauðsynleg og ber að vinna hjá réttum aðilum, þ.e. þeim opinberu stofnunum sem að slíkum verkefnum starfa. Í flestum tilvikum mundu þau koma í hlut Hagstofu Íslands.

Till. gerir ráð fyrir því að ríkisstj. láti undirbúa aðgerðir til þess að umrædd skipulagsbreyting megi ná fram að ganga, m.a. með viðræðum við hagsmunaaðila, þannig að Alþingi geti tekið allar nauðsynlegar ákvarðanir við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1986.

Herra forseti. Að loknum umræðum um þessa till. legg ég til að henni verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.

Umr. (atkvgr.) frestað.